Þýðing tónlistar

Þráinn Hjálmarsson

Eftirfarandi er pistill sem saminn var fyrir útvarpsþáttinn Víðsjá á Rás 1 haustið 2022.

„Allt hefur merkingu, ekkert hefur þýðingu.“

Svo hljóðaði textaverk Jónu Hlífar Halldórsdóttur, myndlistarkonu, sem sýnt var á nýlegri einkasýningu Jónu Hlífar sem bar heitið Líking. Setningin er í senn margbrotin og óræð og býður upp á rými til túlkunar á ótal vegu. Rekinn er fleigur á milli orðanna merkingar annars vegar og þýðingar hins vegar, þar sem þýðing getur ýmist átt við um þýðanleika frá einu formi til annars en einnig staðið fyrir mikilvægi. Textaverkið tekst á látlausan hátt að kjarna meginviðfang fags sýningarstjórnunar, fag sem hverfist um miðlun listar og menningar. Öll list og menning er merkingarbær og má úr henni skapa ólík sambönd og tengingar við rými, samfélag, tíðaranda og hugmyndir, en það er vandasamara mál að átta sig á mikilvægi og þýðingu þeirrar merkingar í samtímanum. Þýðing tekur breytingum eftir samhengi og því umhverfi og samfélagi sem ávarpað er hverju sinni.

Af öllum þeim mótandi öflum sem að hefla til og móta hugmyndir okkar um tónlist, yfirsést einna helst hversu veigamikil áhrif vettvangur tónlistarinnar og miðlun hennar hefur á þróun tónlistar. Að líta yfir tónlistarsöguna er að mörgu leyti ígildi þess að líta á horfin augnablik úr þeim samfélögum sem tónlistina skópu. Skynjunarsagan er meitluð í þau listaverk sem þar fyrirfinnast. Að þessu sögðu skal þó varast að taka þessum augnablikum sem á vegi okkar verða, sem fullgildri mynd af þessum samfélögum og tímum, því ávallt hefur vettvangur tónlistar og lista verið pólitískur í eðli sínu, þar sem vissar hugmyndir og listamenn ná upp á pallborðið en ekki allar.
Fag sýningarstjórnunar er töluvert ungt að árum en á skömmum tíma hafa komið þar fram fjölmörg áhugaverð sjónarhorn á vettvang listanna og miðlun listaverka sem vert er að skoða í samhengi við sígilda og samtímatónlist. Má þar fram telja hugmyndir á borð við gagnsæi á umgjörð vettvangsins, gagnsæi í tengslum við val inn á vettvanginn og um mikilvægi miðlunar.

Afhjúpun vettvangsins

Á meðal þeirra hugmynda sem spruttu fram á 7. áratugnum innan myndlistarheimsins og þess sem síðar varð að fagi sýningarstjórnunar, var ákall eftir afhjúpun á víravirki vettvangsins.[1] Afhjúpun á því vistkerfi sem til staðar er á milli safna, gallería og fjölmiðla sem stjórnar því sem ber hæst ef svo má að orði komast. Ákallið sneri að því að það yrði sýnilegt hvernig hlutir urðu kynntir til leiks á vettvangnum og ljóst væri hverjir stóðu að valinu.

Í samtímanum er vettvangur sígildrar- og samtímatónlistar að mestu leyti uppbyggður af tónlistarhátíðum, hljómsveitum og hljóðfærahópum. Á síðustu árum hefur orðið jákvæð þróun með tilkomu hugtaka á borð við listrænan stjórnanda, sem skapar umgjörð og samhengi valsins og gengst í ábyrgð við þeirri sýn sem boðuð er. En þrátt fyrir slíkt fyrirkomulag eru þó fjölmargir sýnilegir og ósýnilegir þættir sem hafa áhrif á efnisvalið hverju sinni sem vert er að draga fram.

Má þar fyrst nefna hvernig ímynd og sjálfsmynd hljómsveita, hljóðfærahópa og tónlistarhátíða hefur áhrif á efnisval þar sem fagurfræðilegar línur eru oft markaðar út frá sjálfsmynd og ímyndarsköpun viðkomandi stofnunnar. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur ímyndarsköpunin tekið töluverðum breytingum og óvíst er hvort hægt sé að fullyrða að vægi ímyndarsköpunar hafi aukist, en klárlega hefur sú þróun töluverð áhrif í samtímanum.

Þá hafa viðurkenningar, verðlaun og fyrirliggjandi sýnileiki listamanna, meðal annars í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, sitt að segja þar sem allur slíkur sýnileiki auðveldar markaðssetningu. Á meðal huldari áhrifaþátta má þar nefna aðkomu og áhrif umboðsskrifstofa og útgefenda, sem hafa hagsmuni að gæta að koma sínum listamönnum á framfæri.

Algengt er svo að stofnanir leiti innblásturs til hverrar annarra við að grisja úr öllu því framboði sem fyrirfinnst. Þannig getur ferill listamanns tekið töluverðum breytingum með samþykki, velvild og stuðningi einnar stofnunnar, sem svo opnar á samtal við aðrar. Þannig myndast endurómur og lokuð hringrás hugmynda innan þessa vistkerfis. Í raun er hér einföld lýsing á því hvernig tíðarandi hlutgerist í samtímanum.

Val á vettvanginn

En þegar allt kemur til alls stendur allt og fellur með efnisvalinu sjálfu og þeirri sýn sem lagt er upp með. Því eins og fyrr hefur komið fram hefur allt merkingu en eftir liggur spurningin hvort það hafi þýðingu hjá þeim sem ávarpaður er. Uppbyggileg nálgun við gerð efnisvals byggir á því að rýna í það samhengi sem ávarpað er og vinna valið á forsendum þess, spyrja spurninga um það hvernig stofnunin vill tengjast nærumhverfi sínu og hvernig stofnunin hefur áhrif á samfélagið og öfugt. Veigamesta spurningin snýr að því hvaða þýðingu valið hefur fram að færa gestum sínum hverju sinni, hvort því sem miðlað er rími, endurspegli eða gangi þvert á hugmyndir í samtímanum. Bandaríski sýningarstjórinn Cathleen Chaffee spyr hreinlega „hvernig breytist listaverkið við það að kynna það til leiks og hvernig hefur saga verksins áhrif á okkur?“[2] Út frá hennar sjónarhóli er valið lifandi í hvert sinn, þar sem þýðingin er ólík eftir viðtakandanum og saga verksins tekur þátt í upplifuninni. Þannig er efnisval lifandi iðja sem kanna má á ótal vegu og ekki síst sú jákvæða sýn að listir eru lifandi hreyfiafl í samfélaginu.

Miðlun listarinnar

Að loknu valinu er ekki síður mikilvægur þáttur hvernig staðið er að miðlun valsins. Þar sem hlutirnir eru kynntir til leiks og þeim skapað samhengi. Allt frá framsetningu, segjum í sýningarrými, tónleikarými, tíma dags og þess háttar, yfir í kynningartexta og umfjallanir.

Orðræða innan sígildrar- og samtímatónlistar er töluvert fagmiðuð, þar sem oft á tíðum er kynning á núlifandi listamönnum í formi ferilskrár þar sem upptaldar eru þær stofnanir sem stutt hafa listamanninn í gegnum tíðina. Sennilega er um að ræða eðlilega nálgun út frá markaðssjónarmiðum þar sem listamenn eru orðnir að vöru sem votta þarf fyrir gæðin með einföldum og haldbærum leiðum. En nálgunin hefur sínar neikvæðu hliðar þar sem orðræðan afmarkar markhóp út frá þekkingu, þ.e.a.s. út frá því að kunna skil á þýðingu stofnanna innan fagsins. Þegar kemur að eldri tónlist er oft stiklað á stóru um algenga höfunda og lítið að finna fyrir þá sem ekki þekkja til og missa því oft af því samhengi sem reynt er að skapa. Þegar nýlegir hlutir eru bornir á borð er oft á tíðum reynt að skapa þeim meira vægi og valdefla með missterkum tengingum og vísunum í tónlistarsöguna. Þannig hættir til að tónlistarsagan hættir að vera margbrotin yfir í að vera línuleg þar sem eitt leiðir af öðru og samtíminn virðist nokkurs konar endastöð þar sem ótal þræðir hafa komið saman, en ekki er víst í öllum tilvikum hvert þeir þræðir leiða.

Með verkfærum markaðssetningarinnar reynist allt hafa merkingu, ekkert hafa þýðingu. Þýðinguna má hins vegar finna í gegnum lifandi samtal við samtímann og umhverfið, þar sem vettvangurinn endurspeglar og undirstrikar þær síkviku hugmyndir samfélagsins og listarinnnar hverju sinni.
Ef við lítum til okkar eigin samtíma, einkennist samtíminn af því viðhorfi að sjá listirnar sem opið og virkt samfélagsrými, sem endurspeglar þær kviku hreyfingar hugmynda í samfélaginu og deilir jafnframt sömu gildum og samfélagið sjálft. Samtíminn gerir kröfur um að það sem fram fer á vettvangi listanna megi nýta til þess að hreyfa við og kanna hugmyndir samfélagsins hverju sinni og beri með sér þýðingu fyrir samfélagið.
Það er í hlut þeirra sem með dagskrárvaldið fara á vettvangi tónlistarinnar að vinna úr öllum þeim ótal merkjasendingum sem finna má í samtímanum og skapa þeim þýðingu fyrir okkur öll.

 

[1]Paul O'Neill. The culture of curating and the curating of culture(s) (Cambridge, Massachusetts: The MIT Press, 2016), bls. 32

[2]   Cathleen Chaffee. „Situating Michel Broodthaer's Final Exhibitions“. Manifesta journal: Journal of contemporary curatorship, 7. tbl. (Nóvember 2009): bls. 42.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 8

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 8

TÖLUBLAÐ 8

Um höfunda