Orð um tónsmíðar - um starf íðorðanefndar tónsmíðabrautar

Atli Ingólfsson
 
Við Listaháskóla Íslands starfa ýmsar nefndir og ráð sem flest hafa með skipulag námsins og starfsins að gera. Skólinn hýsir þó jafnframt einstaka nefndir sem helgaðar eru hreinum faglegum efnum. Innan tónlistardeildarinnar búa til dæmis nefnd um Rannsóknarstofu í tónlist, ritnefnd vefritsins Þráða og enn ein, sem minna hefur borið á, en það er íðorðanefnd tónsmíðabrautar.
 
Hér á eftir verður tæpt á ýmsu sem varðar starf hennar. Þá er fyrst að athuga til hvers verið er að leita að íslenskum orðum, síðan skoðum við fyrstu skref nefndarinnar, þá hvaða reglum hún fylgir og loks sjáum við nokkur dæmi um viðfangsefni hennar. Í lokin er lesendum svo boðið að leggja nefndinni lið ef þeim býður svo við að horfa.
 
Hversvegna þarf íslensk orð?
Við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er sérstakt svið helgað málrækt. Það er býsna yfirgripsmikil iðja. Að rækta, er það ekki bæði að plægja, bera á, sá og reyta illgresi? Það má segja að stofnunin sinni þessu öllu. Mögulega er minna gripið til arfaklórunnar en margur vildi, sem er líklega af því að tíma okkar er betur varið í að gera jarðveginn frjósamari en að uppræta tortryggilegan vöxt.
 
Einn liður í almennri málrækt er að gæta þess að íslenskan eigi orð yfir hvaðeina sem þarf að nefna. Þetta er ekki lítið viðfangsefni þegar hugsað er til vísinda og fræða. Þau gróa í alþjóðlegum jarðvegi. Við lærum erlendis alls kyns skilgreiningar hugtaka og lesum fræðigreinar á erlendum málum. Alþjóðleg orð stuðla að samræmingu í málnotkun sem auðveldar samskipti fræðimanna. Hví skyldum við streitast við að nota íslensk orð þar sem fræðin hafa fest í sessi skýrt skilgreind alþjóðleg hugtök?
 
Við þessu eru til nokkur misgóð svör. Við erum býsna fljót að grípa til röksemda sem ganga út frá fegurð, göfgi eða hreinleika málsins sem við tölum. Þær eru ekki meira en svona lala, ef ekki hreinlega gaga. Hér er reyndar smekkur margra góðra manna á vogarskálinni en við þurfum nú sterkari grunn en það til að ráðast í svona fyrirhöfn.
 
Frekar er að leita svara í tengslum máls og hugsunar. Tungumál er nefnilega samfellt kerfi sem við notum jafnt til að tjá og hugsa um veruleikann. Það er ekki aðeins gert úr orðum heldur ekki síður úr tengineti orða og hugtaka. Hvert orð sem við notum kveikir tengingar við skyld orð, yfirfærða merkingu, minningu, sögu, aðrar málfræðilegar myndir eða hljóðlíkingu. Það er á vissan hátt heil skáldsaga. Ef við fellum ógegnsætt og sögulaust hljóðmerki inn í ofangreint net og látum það tákna eitthvað mjög sérstakt má eflaust nota það, en það myndar ekki þær tengingar sem gera netið að neti.
 
Þannig getur það verið með erlend fræðiorð sem tekin eru í notkun í íslensku málumhverfi. Þau benda á tiltekið fyrirbæri en geisla ekki í aðrar áttir; þau hafa ekki mikið sköpunarafl í nýju umhverfi sínu. Kannski má orða það svo að þetta gæti dregið úr bandvídd hugsunarinnar eða að ógegnsætt orð væri eins og tvívíður hlutur í þrívíðu umhverfi. Og þá mistekst okkur að „varðveita skapandi mátt íslenzkrar tungu sem vísindamáls jafnt sem hversdagsræðu“, svo vitnað sé í Einar Benediktsson.[1]
 
Svo má benda á þá staðreynd sem Þorsteinn Gylfason gerir góð skil í grein sinni Að hugsa á íslensku[2], að sérhvert tungumál sneiðir veruleikann á sinn hátt. Eitt mál gæti átt þrjú orð yfir ólík blæbrigði tiltekins hugtaks en annað aðeins eitt yfir áþekkt hugtak. Frábært dæmi Þorsteins er enska sögnin to know, sem á íslensku getur ýmist þýtt að vita, að kunna eða að þekkja. Og þennan mun tungumálanna er sjálfsagt að nýta og leyfa íslenskunni að ferðast með okkur á staði sem önnur tungumál gera ekki.
 
Í hugvísindum er til sægur hugtaka sem kölluð eru alþjóðleg en eru í raun upprunnin í mjög sértæku málumhverfi. Þau verða gjaldgeng einmitt vegna þess hversu staðbundin og sértæk þau eru. Hér koma upp í hugann dæmi eins og orðið Weltschmerz (úr þýsku) eða Spleen (úr ensku). Það mætti jafnvel draga í efa einkunnina „alþjóðlegt“ og segja að ekkert sé í eðli sínu alþjóðlegt. Hugtökin fæðast og þroskast í einu máli og fara síðan í útrás með eitthvað af farangri heiman frá sér. Þess háttar hugtök geta komið að gagni, en þau leysa ekki af hólmi orð sem spretta í heimahögunum.
 
Hins vegar heldur merkingarmyndun[3] orðanna áfram eftir að þau sigla svona og meira að segja getur misskilningur þeirra orðið að merkingu. Því höfum við aldeilis kynnst í tónlistinni með enskt horn sem hvorki er horn né enskt, nótuna h sem er líklega illa prentað b eða orðið fermata, ítalskt orð yfir nokkuð sem ekki heitir fermata á ítölsku[4].
 
Í stuttu máli þá er þetta með alþjóðlegu hugtökin hreint ekki svo trúanlegt. Tungumálið alþjóðska er ekki til. Þegar við tölum ensku þá tölum við og hugsum á ensku, eins þótt við notum þar þýskuslettur.
 
Nú má tína til enn eina röksemd fyrir því að við reynum að tala um fræðin á íslensku. Orð sem eru gegnsæ verða síður séreign fræðimanna, þau fá víðara notkunarsvið og það getur síðan skilað sér í merkingarlegum virðisauka. Hér má taka dæmi. Segjum að í skáldsögu standi: „Alltaf þurfti hann að tala við börnin í þessari tóntegund.“  Í fyrsta lagi auðgast málið hér af nokkuð sértæku en gegnsæju tónlistarorði. Tónalítet, módi, tonality eða þvíumlíkt hefði ekki átt jafn greiðan aðgang inn í frásögn af þessu tagi. En þegar fræðiorð er tekið að láni er það endurgreitt með vöxtum: Þessi notkun orðsins auðgar ekki síður skilning okkar á sjálfu fræðiorðinu, því hún minnir okkur á að tóntegund er ekki aðeins tiltekin skipan tónbila í heildarmenginu heldur getur jafnframt fylgt henni tiltekið viðmót.
 
Að sjálfsögðu er ekki von til að öll fræðihugtök komist í almenna notkun, en það er jafnan gott merki um frjómagn þeirra að sá sem ekki er faglærður geti skilið þau einhverjum skilningi.
 
Í áðurnefndri grein bendir Þorsteinn Gylfason á það að ef ekki er hægt að koma hugsun í einföld og gegnsæ orð bendi það til þess að hún sé rökleysa. Á vissan hátt gæti íslenskan þannig verið prófsteinn á hugsunina um leið og hún er fóstra hennar. „Í fæstum orðum virðist mér eina vonin til þess að Íslendingur geti hugsað og skrifað yfirleitt vera sú að hann geti hugsað og skrifað á íslenzku.“[5]
 
Aftan við þessa röksemdarollu má nú hnýta eina sem reyndar var á borðinu þegar við komum inn: Í lögum um háskóla nr. 63/2006 er þeim áskilið að miðla þekkingu og færni til samfélagsins alls og til þess þarf að nota íslensku.
 
Hér hafa þá verið færð eftirfarandi rök fyrir því að við reynum að nota íslensk fræðiheiti eins og kostur er:
1. Tungumálið er samfellt net, ekki safn eininga.
2. Engin tvö tungumál skipa heiminum í alveg sömu kvíar.
3. Það hefur aukinn sköpunarmátt ef orðin halda „þrívídd“ sinni.
4. Raunverulegt alþjóðlegt tungumál er ekki til.
5. Fræðin hagnast á því að sem flestir geti skilið og notað orðin.
6. Sé hugsun skýr á annað borð má koma henni í íslensk orð.
7. Háskólum ber að miðla þekkingu til samfélagsins alls. Íslenskan þarf þess vegna að eiga þann fræðilega orðaforða sem gerir fræðimönnum kleift að sinna þessu hlutverki.
 
Stofnun íðorðanefndar
Þar sem Listaháskóli Íslands er eini hérlendi tónlistarskólinn á háskólastigi ætti honum að renna blóðið til skyldunnar í þessum efnum. Hér ætti að búa í haginn fyrir fræðilega umræðu um tónlist á íslensku.
 
Innan tónsmíðabrautarinnar var stofnuð íðorðanefnd árið 2018. Í henni eru Atli Ingólfsson, prófessor í tónsmíðum, Einar Torfi Einarsson, fagstjóri tónsmíða á BA stigi og Snorri Sigfús Birgisson, tónskáld. Nefndinni er ætlað að þróa og reyna verklag við söfnun, skráningu og skilgreiningu íðorða innan þess afmarkaða notkunarsviðs sem tónsmíðar eru. Í kjölfarið mætti svo víkka út íðorðastarf deildarinnar og skipa nefndir til að fjalla um önnur svið tónlistarinnar. Vissulega skarast íðorð tónsmíða að nokkru leyti við aðrar greinar tónlistarinnar – túlkendur þurfa jú að rýna í og fjalla um tónsmíðar – en lunginn úr þeim orðum sem nú eru til umfjöllunar tekur til smíði og greiningar tónverka.
 
Nefndin setti sig í samband við Árnastofnun til að fá leiðbeiningar og stuðning við starfið. Þar var það undirbúið að orðasafn nefndarinnar væri fært inn í íðorðabanka á vegum stofnunarinnar og var í þeim tilgangi stofnað sérsviðið tónsmíðar.
 
Þótt nokkuð sé um liðið frá stofnun nefndarinnar má segja að verkið sé fyrst núna um það bil að komast á rekspöl. Það er dágóð töf, en betra er að vanda til verka en flýta sér um of. Orðasöfnun og undirbúningi hefur reyndar verið sinnt og nú hefur nefndin í handraðanum safn 87 orða sem eftir á að fjalla um.
 
Nú bíður hennar að fullklára til reynslu lítið safn orða sem einhugur væri um að eigi erindi í orðabanka Árnastofnunar. Síðan þarf að semja skilgreiningar þessara orða, leita samráðs sem víðast utan skólans og nefndarinnar, eftir atvikum við tónlistarfólk, fagfólk í orðfræði eða aðra málnotendur. Að því loknu má fara að færa þennan fyrsta skammt inn í orðabankann.
 
Þegar svo mikilvægt starf er fyrir höndum er eðlilegt að vakni spurningar um lögformlega hlið málsins. Af hvaða tagi er sú viðurkenning sem felst í „viðurkenndu“ máli? Hvernig fer löggildingin fram og hver stjórnar henni? Sennilega átti svarið að vera okkur ljóst í upphafi, en það kom engu að síður á óvart: Málnotkun er ekki bundin í lög. Hið opinbera leggur sitt af mörkum til að efla málrækt á öllum sviðum samfélagsins, en viðurkenning orðs felst eingöngu í notkun þess. Háskólarnir hafa því ekki raunverulegt lögbundið vald yfir málinu. Þeir geta einungis haft áhrif, beitt tilteknu menningarlegu valdi. Lokaúrskurðurinn, hann er í höndum – eða ættum við að segja munni? – almennings, þeirra sem nota málið. Hér er gott tilefni til að minna lesendur á að við erum stöðugt að greiða atkvæði um málið og ráða afdrifum þess einfaldlega með því hvernig við tölum.
 
Leiðarvísir um íðorð
Við erum jafnan stolt af því hversu lítið er um aðskotaorð í málinu og margir telja eflaust að þetta sé sérstaklega íslenskt einkenni. Það kann því að koma á óvart að í raun hlýðir íðorðastarfið alþjóðlegum staðli, ISO 704[6], og helstu leiðbeiningar sem fylgt er í starfinu voru fyrst ritaðar á finnsku en síðan þýddar á mörg önnur tungumál[7].
 
Sumt sem þessar leiðbeiningar leggja til kann að virðast augljóst en í raun er full ástæða til að nefna það og sammælast um það í upphafi. Nefnum til dæmis þau tilmæli að íðorð eigi að mynda í samræmi við reglur tungumálsins. Það þarf því að geta beygst og eiga auðvelt með að geta af sér afleiddar myndir. Þá er mælt með að það endurspegli einhver einkenni hugtaksins sem það tjáir og sé stutt.
 
Frekari ráðleggingar eru þær að þar sem völ er á fleiri en einu orði yfir tiltekið hugtak meti íðorðanefndir hvaða orð sé æskilegast því best sé að aðeins eitt orð gildi um hvert hugtak. Hér er að sjálfsögðu reginmunur á fræðilegum hugtökum og lifandi, töluðu máli; íðorðin gjalda þess að þau eru ekki óheft tjáning heldur tæki til fræðilegrar orðræðu og kennslu.
 
Síðan er mælt með alþjóðlegri samræmingu þar sem kostur er, án þess að þvinga málið til að hlíta orðmyndunaraðferðum eða hugtakakvíum annars máls. Það má leitast við að nota sömu einkenni við myndun íðorða á ólíkum tungumálum til að reyna að kalla fram samræmi.
 
Mikilvægur hluti starfsins er að afmarka sviðið eins og kostur er og ákvarða hvaða orð eiga heima í sérhæfðu íðorðasafni. Þau orð sem nefndin fær til umfjöllunar geta verið af fernum toga: 1) Sérhæfð hugtök, bundin við sérsviðið sem til umfjöllunar er. Orðið fjölröddun er dæmi um þetta. 2) Þverfagleg hugtök, notuð á tveimur eða fleiri sérsviðum. Orðið hliðrun gæti verið gott dæmi um það. 3) Hugtök fengin úr skyldum fræðasviðum, eins og minni. 4) Hugtök sem notuð eru í almennu máli, hljómkviða eða því um líkt.
 
Lokagerð orðasafnsins ætti einkum að innihalda hugtök úr fyrsta flokki og aðeins takmarkaðan fjölda hugtaka úr öðrum og þriðja flokki. Í fjórða flokknum eru orð sem vissulega gætu verið notuð innan fagsins en geta tæpast talist til sérstakra íðorða. Nefndin ætti því hreint ekki að skipta sér af þeim.
 
Dæmi úr starfi nefndarinnar
Nokkuð safn orða yfir hugtök og form klassískrar tónlistar hefur náð fótfestu í íslensku: Sónata, þáttur, ítrekun eða brotinn hljómur eru dæmi um þess háttar orð. Þau koma við sögu í grunnnámi tónlistar.
 
Þótt mörg þeirra eigi við um tónsmíðaaðferðir, til dæmis tilbrigði, er yfirleitt ekki ástæða til að líta á þau sem sérstök íðorð um tónsmíðar. Til að fjalla um og kenna tónsmíðar eins og fagið er ástundað á okkar dögum þarf hins vegar að vera til orðaforði yfir hugtök og aðferðir síðustu áratuga. Þar er nefnilega um að ræða mikið gróðurþykkni hugtaka yfir tegund og meðferð tónefnisins sem reifuð hafa verið í fræðiritum erlendis allt frá miðri síðustu öld. Þetta getur raunar virst svo tæknilegt umfjöllunarefni að stundum væri nær að tala um tónverkfræði en tónsmíðar.
 
Þau sérhæfðu hugtök sem eiga erindi í íðorðasafnið eru fernskonar:
1) Hugtök sem þegar eru til (t.d. klasi eða legutónn).
2) Hugtök sem hægt er að þýða úr erlendu máli (t.d. raðfylki fyrir serial matrix).
3) Gegnsæ hugtök sem má smíða úr samsettum orðum. Hér gæti orðið árekstur á milli tilmæla um að orðin séu stutt og að þau séu gegnsæ (t.d.hljómflokkur).
4) Nýleg eða sérsmíðuð nýyrði sem knýja dyra í kennslu eða umræðu um tónsmíðar (t.d. hrynd).
 
Hér má spyrja að því hversu ákveðið nefndin eigi að ganga fram í starfinu. Á hún einungis að tína saman það sem hún finnur eða hefur hún leyfi til inngrips, eða sköpunar- og tillögurétt?
 
Hér þarf vissulega að fara fram af varkárni, en líklegast er að þegar safninu hefur verið markaður sæmilega skýr ytri rammi fari innri byggingin að skýrast. Þá gæti það verið eins og með lotukerfið að þegar allt er komið í röð og reglu blasi við hvort einhverjar gloppur eru til staðar. Og þá má taka til við að þýða og smíða. Sem fyrr segir verður þó að fara mjög varlega í það; orðasafnið fær umboð sitt af raunverulegri notkun, og ástæðulaust er að eyða ímyndunaraflinu í nokkuð sem fer síðan ekki lengra en í einmanalegan orðakladda úti í bæ.
 
Líklega er réttast að ímynda sér að einhver nauðsyn réttlæti hvert einasta orð í safninu. Sú nauðsyn helgast þá ýmist af því að hugtakið eða erlendur staðgengill þess er til, eða ótvírætt gagn er af því í málfari okkar þótt nákvæm samsvörun sé ekki til staðar í erlendu máli (sbr. 4. lið hér að ofan).
 
Nú má nefna dæmi um það hvernig íslenskt málumhverfi leyfir aðra orðnotkun en mundi endilega heppnast á öðru máli. Hugtakið polyphony á ensku höfum við vanist að sé þýtt með orðinu <fjölröddun>[8]. Það er sæmilega gegnsætt orð og gefur tilefni til að þýða homophony með <samröddun>. Þá erum við komin með aðferð til orðmyndunar og getum beitt henni til að þýða hugtakið heterophony sem þá verður <fylgiröddun>. Þetta safn orða yfir afstöðu radda í raddskrá leyfir síðan að fylgja íslenska mótinu og búa til orð um enn eina raddhegðun: Orðið <hlaðröddun> lýsir ágætlega vissu ástandi í verkum Debussys, Stravinskys, Varèse eða annarra þar sem hlaðið er upp röddum sem eru óháðar hver annarri. Ekki er til nákvæm samsvörun við þetta orðalag á ensku þótt þessu ástandi sé ágætlega lýst með hjálp hugtaka eins og blocks, groups eða frequency bands. Okkur er stundum óhætt að vera stolt af tungumálinu og leyfa því að skima heiminn á eigin forsendum.
 
Að vísu birtist nú skyndilega verufræðileg spurning: Hver eru fyrirbæri tónlistarinnar sem þarf að nefna? Það er nefnilega dálítið villandi að í leiðbeiningum um íðorðastarf er getið um hugtök og vísimið þeirra. Vísimið hefur stundum verið kallað táknmið á íslensku, þetta er fyrirbærið sem hugtakið bendir á. Þegar fjallað er um vélfræði nægir að benda á ólíka hluta vélarinnar og nefna þá. Vandinn – og kosturinn – við tónsmíðar er að vélin verður til jafnóðum og við tölum um hana. Orðin hafa ekki aðeins merkivirkni heldur búa þau beinlínis til veruleikann um leið og við notum þau.
 
Þetta sköpunarafl tungumálsins hefur margsinnis verið að verki í tónlistarsögunni. Kunnuglegt dæmi væri orðið sónötuform. Það var fundið upp árið 1845[9] og hafði upp frá því umtalsverð áhrif á iðju tónskálda. Við nefnum það sem við sjáum, en við sjáum líka aðeins það sem við nefnum.
 
Auk þess að merkja þekkt fyrirbæri þarf því stundum að taka í notkun orð sem kljúfa þau meira en almenn málnotkun gerir, og stundum orð sem snara fyrirbærunum saman meir en vant er. Hér þarf nefndin því að vissu leyti að fara í hlutverk heimspekings og fræðara. Þá er gott að vera í samskiptum við nemendur á háskólastigi til að viðra og þolprófa orð sem lofa góðu.
 
Íðorðin geta sem sagt aukið á skerpu í greiningu fyrirbæranna: Orðið <hljómur> virðist hafa nokkuð skýra merkingu í almennu tali. Í tónsmíðanámi fer það samt að greinast sundur í nokkuð eins og hljómsæti, mengi, stafla, hlymi, hljómlíki, lithljóm, massa eða hljóðróf. Og á hinn bóginn mætti snara saman fersexundarendingu, napólitanskri sexundarendingu, forhljómsgervingu undirforhljóms og gabbendi með íðorðinu <hljómatiltæki>.
 
Það dylst vonandi engum hvað íðorðastarfið og tónsmíðanámið fléttast mikið saman. Að nefna fyrirbærin, að finna ný fyrirbæri að nefna, jafnvel að skálda nöfnum fyrirbæri, þetta verður ekki aðskilið frá skapandi og skarpri hugsun um hljóð, form og birtingu þeirra; og ekki aðskilið frá tilburðum þriggja nefndarmanna að stofna reikning í orðabanka Árnastofnunar.
 
Auglýsing
Það er ánægjulegt hversu margir hafa áhuga á orðnotkun, nýyrðum og þýðingum í tónlist. Nefndin gerir sér far um að hlusta á hugmyndir og tillögur allra sem skoðun hafa á málinu.
 
Nokkur snúin og skemmtileg úrlausnarefni liggja fyrir. Hér má nefna dæmi um þau og eru lesendur hvattir til að hafa samband ef þeim þykir ástæða til.
 
1) Ekki hefur enn tekist að samræma orðnotkun um tóna: Sá mikilvægi munur sem er á pitch og pitch-class á ensku á sér ekki ótvíræða samsvörun á íslensku. Algengt er að nota <tónhæð> eða <tíðni> um pitch, en hvernig best er að þýða pitch-class, eða tónheitið, er ekki ljóst ennþá. Orðið <tónn> virðist hafa einum of víða merkingu til þess arna.
2) Um árabil hefur verið leitað logandi ljósi að nothæfu orði til að tákna það sem á ensku heitir gesture, og er notað yfir heildstæða tónhugmynd sem skipulögð er frá stóru niður í smátt. Í tónsmíðum er litið á figure, eða tónmynd, sem andstæðu þessa fyrirbæris þar sem tónmyndin er dæmi um skipulag að neðan og upp í forminu. Nokkrar hugmyndir sem hefur borið á góma eru <yrðing>, <frumvarp>, <gjörð>, <atvik>, eða jafnvel <kast>, en engin þeirra virðist festast sérlega vel í málinu.
 
Allar tillögur eru vel þegnar. Þeim má koma til formanns nefndarinnar á netfangið: atliingolfs [at] lhi.is með efnisorðinu íðorð.
 
Og ljúkum við þar þessu ágripi af starfi íðorðanefndar tónsmíðabrautar LHÍ.
 
 
img_5381.jpeg
 

 

---

[1] Tilvitnað í grein Þorsteins Gylfasonar Að hugsa á íslensku (https://heimspeki.hi.is/?p=2668 sótt 5./5. 2022). Greinin birtist upphaflega í Skírni 1973).
[2] Þorsteinn Gylfason ibid.
[3] Hér er átt við það sem kallað er semiosis á ensku, sjálfgefna hneigð allra orða (eða tákna) að hlaða utan á sig merkingu fyrir þeim sem nota það.
[4] Það sem kallað er fermata á íslensku, sem tekur það líklega upp úr ensku, heitir jafnan corona á ítölsku.
[5] Þorsteinn Gylfason ibid.
[6] Þessi staðall tekur til þess hvaða forsendur og aðferðir ráða undirbúningi og skráningu faghugtaka jafnt innan sem utan staðlaumhverfis og lýsir tengslum hluta, hugtaka og íðorða sem merkja þau. Hann á einnig við um almenn viðmið við myndun íðorða og ritun skilgreininga (þýtt af Wikipedia, flettan „ISO 704“, sótt 24. apríl 2022).
[7] Hér er vísað í grein Heidi Suonuuti Leiðbeiningar um íðorðastarf (Íslensk málnefnd, 2004).
[8] Ekki munu allir lesendur vanir því að hér er oddklofi (< >) settur utan um orð þegar vísað er í sjálft rittáknið en þegar átt er við hugtök eru þau skáletruð. Stundum tekst textanum ekki að taka af öll tvímæli um þennan mun en stundum er gott að geta undirstrikað hann.
[9] Orðið virðist ekki hafa verið notað áður en það birtist í bók Adolfs Bernhards Marx, Die Lehre von der musikalischen Komposition, praktisch-theoretisch sem kom út það ár.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 7

TÖLUBLAÐ 7

Um höfunda