Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs – Davíð Brynjar Franzson
Þráinn Hjálmarsson
Í þessari grein verður fjallað um sýningu tónskáldsins Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs (e. an Urban Archive as an English Garden), í sýningarstjórn Þráins Hjálmarssonar, sem stóð yfir í Sverrissal Hafnarborgar, dagana 28. ágúst 2020 – 25. október 2020. Sýningin var sett upp innan tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðana, sem hefur verið starfrækt í safninu allt frá árinu 2013. Tónleikaröðin hefur áður víkkað sitt hefðbundna form með sýningunni „Hljóðön – sýning tónlistar“ sem sett var upp í aðalsal Hafnarborgar vorið 2019.
Í fyrri hluta greinarinnar verður greint frá inntaki sýningarinnar og þeim hugmyndum sem liggja að baki henni. Í seinni hluta greinarinnar er að finna texta úr sýningarskránni, sem ætlaður var til að veita sýningargestum innsýn í sjónarhorn sýningarinnar. Að lokum má finna dagskráryfirlit sýningarinnar.
Dæmi 1: Stikla fyrir sýninguna Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs
Um sýninguna
Sýningin Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, eftir Davíð Brynjar Franzson, er í raun röð tónverka í formi sýningar og birtist gestum sem kvik og síbreytileg hljóðinnsetning sem sprettur fram úr hátalarinnsetningu sem Davíð þróaði sérstaklega fyrir verkaröðina.[1] Í verkunum er sjónum okkar beint að þætti borgarhljóðvistar í upplifun okkar af stað og tíma. Borgarhljóðvist er heiti yfir þann hljóðheim sem borgir móta með formi sínu, lögun og virkni. Mannlíf, arkitektúr, fána og náttúrulegir staðhættir, líkt og veðurfar og landslag, skapa hverri borg sinn sérstaka hljóm, sem er jafnt breytilegur innan borgarrýmisins og eftir dögum eða tíma dags.
Fyrir hvert og eitt verk í verkaröðinni á Davíð í nánu samstarfi við einn flytjanda hverju sinni. Er það hljóðheimur úr nærumhverfi flytjandans sem verður að efniviði verksins og útgangspunktur samtals sem Davíð á við flytjendurna. Þannig er það borgarhljóðvist Los Angeles sem er til umfjöllunar í verki fyrir matt barbier, básúnuleikara, New York í tilfelli Russell Greenberg, slagverksleikara, hljóðvist Malmö í tilfelli Höllu Steinunnar Stefánsdóttur, fiðluleikara, og Vesturbær Reykjavíkur í verki Júlíu Mogensen, sellóleikara, en það verk var sérstaklega samið í tilefni sýningarinnar í Hafnarborg.
Hvert verk er samið fyrir og með þessum tilteknu flytjendum og fyrir þá eina. Verkin gera tilraun til þess að draga upp myndir af flytjendunum sjálfum og nær þáttur flytjenda í tilurð verkanna út fyrir hið hefðbundna hlutverk.
„Ég vildi nálgast flytjendur með því að vinna með nærumhverfi þeirra og þeirra hljóða sem móta þau dag frá degi. Fá fram viðbragð þeirra við hljóðumhverfi sem þau þekkja, sjá þau kortleggja sitt eigið umhverfi, reyna að fá einhverja innsýn í þeirra upplifun á hversdagsleikanum frekar en á hinu óþekkta. Ekki alls ólíkt því að mála portret af einhverjum inn í eldhúsi, eða úti í garði, frekar en á Þingvöllum.[2]
Tónsmíðalegar ákvarðarnir voru ýmist teknar í samvinnu eða út frá efni sem kom frá flytjendum og endurspeglaði afstöðu flytjenda til efniviðarins. Sumar af ákvörðunartökunum í sköpunarferlinu voru markvisst skyldar eftir opnar fyrir flytjandann einan til að móta.[3]
Útfærsla borgarlandslaganna yfir í sýningarrýmið
Á meðfylgjandi myndum gefur að líta hvernig borgarlandslögin hafa verið útfærð yfir í sýningarrýmið. Hringarnir 24 sýna staðsetningu hátalaranna líkt og þeim var stillt upp innan sýningarrýmisins og í afstöðu við borgarlandslagið. Dökkbláu línurnar marka bæði staðsetninguna þar sem hljóðritanirnar voru gerðar innan borgarlandslagsins, en einnig líkt og þær birtast innan sýningarrýmisins. Ljósblái liturinn á eingöngu við um tilfærslu hljóðritana innan sýningarrýmisins.
![Mynd 1: Matt Barbier - Aviary, Los Angeles Hnit: [34.026, -118.395] Mynd 1: Matt Barbier - Aviary, Los Angeles Hnit: [34.026, -118.395]](https://www.lhi.is/sites/default/files/thumbnails/image/tbl6_thrainn_mynd1_losangeles-0012x.png)
Hnit: [34.026, -118.395]
Hljóðritanirnar úr æfingaherbergi matts, staðsettu við hlið fuglagarðs á þaki „Museum of Jurassic Technology“ í Los Angeles. Hljóðritað að morgni, að kvöldi og um miðja nótt. Hljóðritunum hefur verið hliðrað til á þrjá staði í sýningarrýminu.
![Mynd 2: Russell Greenberg - Red Hook, New York Hnit: [40.674, -74.017] – [40.676, -74.015] Mynd 2: Russell Greenberg - Red Hook, New York Hnit: [40.674, -74.017] – [40.676, -74.015]](https://www.lhi.is/sites/default/files/thumbnails/image/tbl6_thrainn_mynd2_newyork-0012x.png)
Hnit: [40.674, -74.017] – [40.676, -74.015]
Þrír göngutúrar um gömlu höfnina í Red Hook-hverfi New York. Göngutúrarnir voru teknir upp hver beint á eftir öðrum um hádegi í desember.
![Mynd 3: Júlía Mogensen - Vesturbær, Reykjavík Hnit: [64.141, -21.956] – [64.140, -21.965] – [64.138, -21.964] – [64.138, -21.960] Mynd 3: Júlía Mogensen - Vesturbær, Reykjavík Hnit: [64.141, -21.956] – [64.140, -21.965] – [64.138, -21.964] – [64.138, -21.960]](https://www.lhi.is/sites/default/files/thumbnails/image/tbl6_thrainn_mynd3_reykjavik-0032x.png)
Hljóðritanir úr þremur göngutúrum Júlíu um Vesturbæ Reykjavíkur á Sunnudegi í Mars. Að morgni, um eftirmiðdag og undir miðnætti. Gönguleiðin liggur frá Hagatorgi, niður Fornhaga út að Ægissíðu, um flæðarmálið og upp Dunhaga aftur að Hagatorgi.
![Mynd 4: Halla Steinunn Stefánsdóttir - Skeppsbron, Malmö Hnit: [55.607, 12.990] – [55.608, 13.000] – [55.610, 13.000] – [55.608, 12.990] Mynd 4: Halla Steinunn Stefánsdóttir - Skeppsbron, Malmö Hnit: [55.607, 12.990] – [55.608, 13.000] – [55.610, 13.000] – [55.608, 12.990]](https://www.lhi.is/sites/default/files/thumbnails/image/tbl6_thrainn_mynd4_malmo-0012x.png)
Gengið um höfnina og gegnum aðalbrautarstöðina í Malmö á þremur mismunandi dögum í október. Göngutúrarnir eru settir hver innan í annan í sýningarrýminu.
Skapandi hlutverk hlustandans
Titill sýningarinnar vísar í útfærslu hljóðritana eða borgarhljóðvistanna yfir í þrívítt sýningarrýmið. Hugmyndafræði enska lystigarðsins miðast að því að skapa einstaklingnum stað til þess að dvelja í og upplifa á eigin spýtur. Verkin taka á sig tvö ólík birtingarform, annars vegar í formi mannlausrar innsetningar þar sem hljóðritanir af leik flytjendanna blandast við óm borgarhljóðvistanna og hins vegar í formi tónleikaverks, þar sem flytjandinn getur ferðast um og kannað hljóðheim sýningarinnar og sýningin bregst svo við lifandi hljóðfæraleiknum.
Hljóðfæraleikurinn gefur okkur ný samhengi á hljóðheim borgarhljóðvistanna. Athygli hlustandans flakkar á milli hinnar hversdagslegu rýmisupplifunar borgarmyndarinnar yfir í „tónlistarlega hlustun“ sem gefur hljóðheimi borganna nýjan lit og nýtt samhengi.
Þrívíð framsetning verksins í rýminu er til þess fallin að gera upplifunina fjölbreytilega og án fastskorðaðs sjónarhorns. Hins vegar er ekki ætlast til þess að upplifun verksins sé endanleg og innihaldi „byrjun“ og „endi“ í einhverju hefðbundnu formi, heldur geti áhorfandinn komið og farið að vild. Hlustandinn tekur þannig afstöðu til rýmisins og með því skapar hann sína eigin upplifun í gegnum verkið. Þannig lítur Davíð á hlustandann sem virkan þátttakanda í að skapa verkið.[4]



Sýningarstjóratexti - Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs
Pólsk-ameríski heimspekingurinn og vísindamaðurinn Alfred Korzybski gerir skynjun mannsins að umfjöllunarefni í orðum sínum: „Kortið er ekki landið sem það sýnir“.[5] Með því gerir hann greinarmun milli hlutanna sjálfra og birtingarmynda þeirra í skynjun mannsins, að frummynd hlutanna verði aldrei umföðmuð til fullnustu og túlkun komi ávallt við sögu í upplifun okkar af hlutum. Einnig mætti vísa til hugmynda belgíska listmálarans René Magritte varðandi það að „skynjunin þröngvar sér alltaf á milli okkar og veruleikans“, eins og Ann Marie Barry orðar það.[6] Sami hlutur getur jafnframt tekið á sig ólíkar birtingarmyndir og hver mynd litar samband okkar við hlutina. Þannig opnar til dæmis landakort á nýtt samband við landið sjálft, þar sem landinu bregður fyrir í nýju ljósi og upplifun okkar tekur breytingum.
Umbreyting veruleikans er áberandi þráður í höfundarverki Davíðs Brynjars Franzsonar, tónskálds. Davíð sækir efnivið sinn og uppsprettu hugmynda í hljóðritanir sem teknar eru í hversdeginum. Hljóðritununum sjálfum bregður aftur á móti sjaldan fyrir í verkum Davíðs en það er umbreytingin og útfærsla veruleikans yfir í nýtt form, í form tónlistar, sem er skáldskaparrými Davíðs. Í nýrri birtingarmynd verða til ný samhengi á milli hljóða frummyndarinnar, þar sem veruleikinn fær nýja merkingu. Sem dæmi fær samband sjóðandi teketils og fuglasöngs í fjarska allt aðra merkingu í útfærslu sinni í hljóðheimi hljóðfæranna. Fram sprettur nýr veruleiki í gegnum yfirfærslu frummyndarinnar, fram sprettur „tónlistarleg merking“.
Á sýningunni Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs er sjónum beint að þætti borgarhljóðvistar í upplifun okkar af stað og tíma. Borgarhljóðvist er heiti yfir þann hljóðheim sem borgir móta með formi sínu, lögun og virkni. Mannlíf, arkitektúr, fána og náttúrulegir staðhættir, líkt og veðurfar og landslag, skapa hverri borg sinn sérstaka hljóm, sem er jafnt breytilegur innan borgarrýmisins eftir dögum eða tíma dags. Hljóðritanir sem fanga liðin augnablik, frá ólíkum tímum dags, úr nánasta umhverfi hóps alþjóðlegra samstarfsaðila Davíðs – frá borgunum Los Angeles, New York, Malmö og Reykjavík – hafa verið
útfærðar af Davíð yfir í þrívítt hljóðumhverfi sýningarinnar í anda hugmyndafræði enska lystigarðsins á 18. öld.
Útgangspunktur þeirra er að skapa gestum dvalarstað til að skoða og upplifa, þar sem landslaginu er ætlað að vekja forvitni og umfaðma gesti sína, í stað þess að vera skorðað í kortlagt heildarskipulag. Borgarhljóðvistirnar taka á sig form hljóðrænnar lágmyndar sem umbreytist í tíma. Samtímis hljóma ólík augnablik úr borgarhjóðvistinni þar sem til verður nýtt samhengi og ný merking. Hljómi borganna er att saman við hljóðfæraleik flytjenda, sem ferðast hægfara um rýmið, bregst við og dregur fram litbrigði og augnablik í hljóðvistinni, lystigarði hljóðs, sem gestir geta kannað á eigin forsendum jafnt í tíma og rúmi.
Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs er að forminu til sýning en telst einnig til tímaþanins tónlistarviðburðar, sem teygir sig yfir sýningartímann. Innsetningin er kvik og síbreytileg, líkt og borgarhljóðvistirnar sjálfar. Á sýningunni má upplifa stað og staðleysur, þar sem raddir borganna skapa samtal við hljóðvist Hafnarborgar, sem jafnframt ljær verkinu rödd sína. Skapar sýningin gestum sínum þannig sérstakan stað til að dvelja á um stund, kanna og upplifa. Þáttur sýningargestsins er að uppgötva og upplifa á eigin forsendum, hvort heldur sem hann beinir augum og eyrum að stað og stund augnablikanna sem birtast, hreyfingu hljóðanna um rýmið eða hlustar í gegnum eigin hreyfingu um rýmið. Þá er hann staddur í ímynduðum garði sem ofinn er í tíma og rúm.
Kortið er ekki landið sem það sýnir.
Skynjun þröngvar sér alltaf á milli okkar og veruleikans.
Dagskrá sýningarinnar
Yfir sýningartímann birtist hvert og eitt verk í verkaröðinni sýningargestum á ólíkum dögum.
matt barbier |
Mánudagar |
Sunnudagar |
Russell Greenberg |
Miðvikudagar |
30. ágúst |
Júlía Mogensen |
Fimmtudagar |
9. september |
Halla Steinunn Stefánsdóttir |
Föstudagar |
13. september |
Á hverjum laugardegi yfir sýningartímann voru haldnir lifandi viðburðir, þar sem samstarfsaðilar Davíðs komu fram og virkjuðu sýninguna með hljóðfæraleik og nærveru. Lifandi hljóðfæraleikurinn var til þess ætlaður að draga fram litbrigði og augnablik í hljóðvistinni, lystigarði hljóðs, sem gestir gátu kannað, samhliða flytjandanum, á eigin forsendum jafnt í tíma og rúmi.
Heimsfaraldurinn setti vissulega strik í reikninginn og þurfti sem dæmi þau matt barbier, búsett í Los Angeles og Russell Greenberg, búsettur í New York að leika inn í lifandi innsetninguna frá heimilum sínum í sínum heimaborgum, sem jafnframt voru til umfjöllunar í þeim verkum. Fyrir vikið skapaðist þessi huglæga tenging á milli safnarýmisins og borganna, þar sem inní fléttist meðvitund um tímamismun milli safnsins og borganna, sem og nánd þeirra í rýminu verður önnur - fjarlæg en þó alltumlykjandi.
matt barbier Los Angeles |
Laugardagur 5. september - beint streymi frá LA (-7klst) 26. september - beint streymi frá LA (-7 klst) |
Russell Greenberg New York |
12. september - beint streymi frá NY (-4 klst) 3. október - beint streymi frá NY (-4 klst) |
Júlía Mogensen |
29. ágúst - lifandi flutningur |
Halla Steinunn Stefánsdóttir |
19. september - lifandi flutningur |
Laugardaginn 10. október 2020 héldu nemendur tónlistardeildar Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Berglindar Maríu Tómasdóttur, viðburð undir merkjum hópsins Skerplu. Fluttu nemendur þar eigin verk sem kölluðust á við hljóðheim og sjónarhorn sýningarinnar. Þátttakendur Skerplu voru: lvar Rosell Martin, Ana Luisa S. Diaz De Cossio, Freya Betzy Dinesen Simmons, Khetsin Chuchan og Robin Morabito
Heimildaskrá
Barry, Ann Marie, Visual Intelligence: Perception, Image, and Manipulation in Visual Communication. (New York: State University of New York Press, 1997), 16.
Davíð Brynjar Franzson. Viðtal tekið af Þráni Hjálmarssyni. Tölvupóstsviðtal. Reykjavík/Los Angeles. 8. og 12. mars 2021
Korzybski, Alfred, Science and Sanity: An Introduction to Non-Aristotelian Systems and General Semantics (Lancaster/New York: The International Non-Aristotelian Library Publishing Company, 1933), 58.
---
[1] Hátalarakerfi sýningarinnar er einfölduð útgáfa „sýndarhljóðrýmiskerfis“ (e. Wavefield synthesis) og samanstendur af 24 hátölurum. Kerfið þróaði Davíð sérstaklega fyrir verkið og naut þar stuðnings IRCAM og ZKM. Hljóðupplifun í sýndarhljóðrýmiskerfum er töluvert staðbundnari og hlutlægari en gengur og gerist í almennum hljóðkerfum. Hlusta má á myndbandsbrot frá þróunarferli verksins, sem gerir kerfinu nokkur skil hér.
[2] Davíð Brynjar Franzson. Viðtal tekið af Þráni Hjálmarssyni. Tölvupóstsviðtal. Reykjavík/Los Angeles. 8. og 12. mars 2021
[3] Davíð Brynjar Franzson. Viðtal tekið af Þráni Hjálmarssyni. Tölvupóstsviðtal. Reykjavík/Los Angeles. 8. og 12. mars 2021
[4] Ibid.
[5] Korzybski, Alfred. 1933. Science and Sanity: An Introduction to Non-Aristotelian Systems and General Semantics. (Lancaster/New York: The International Non-Aristotelian Library Publishing Company), 58.
[6] Barry, Ann Marie. 1997. Visual Intelligence: Perception, Image, and Manipulation in Visual Communication. (New York: State University of New York Press), 16.