Póstkort: Intersection II eftir Richard Serra
Þráinn Hjálmarsson
Mynd 1: Þrívíddarmódel af útilistaverkinu Intersection II (1992-1993) eftir Richard Serra. „Manneskja“ er þarna sett til að sýna fram á stærð verksins miðað við meðalháa manneskju. Gerður er fyrirvari við nákvæmni módelsins.
Útilistaverkið Intersection II (1992-1993) eftir bandaríska myndlistarmanninn Richard Serra (f. 1938) er staðsett á Theaterplatz í hjarta Basel í Sviss. Verkið samanstendur af fjórum sams konar sveigðum stálplötum sem eru 5,4 cm þykkar, 4 metra háar og 15,7 metra langar.[1]
Á milli platnanna fjögurra myndast ólíkir íverustaðir fyrir áhorfandann til þess að kanna og upplifa. Það er rýmisupplifunin sem er jafnframt meginstef verksins, þ.e. hvernig upplifunin getur verið ólík eftir því sem rýmið þrengir að eða víkkar. En það er þó ekki síður margbreytileg hljóðvistin innan verksins sem hefur áhrif á rýmisupplifunina. Hljóðið kastast léttilega á milli harðra stálflatanna og hefur þar lögun verksins áhrif á hljóðið. Á sumum stöðum myndast svokallað flutter echo, þar sem endurkast hljóðsins er svo ört að eyrað nemur endurkastið sem einskonar tón (endurkastið á sér stað oftar en 20 sinnum á sekúndu). Á öðrum stöðum er ekkert endurvarp og á þeim þriðja hægist á endurkastinu svo að hljóðið myndar nokkurs konar hala.
Í verkum Serra er oft að finna innri rökvísi, þar sem ákvarðanir í sköpunarferlinu sem gætu orðið endalausar í útfærslu, eru takmarkaðar með einfaldri reglu. Má hér sem dæmi nefna umhverfisverkið Áfanga sem Serra gerði fyrir tilstuðlan Reykjavíkurborgar í Vesturey Viðeyjar árið 1990. Verkið samanstendur af níu pörum af stuðlabergsdröngum, sem reistir hafa verið víðs vegar um eyjuna. Í hverju pari er að finna einn þriggja metra háan stuðlabergsdranga sem stendur 10 metra yfir sjávarmáli og annan fjögurra metra háan sem stendur níu metra yfir sjávarmáli. Tróna því allir drangatopparnir jafnhátt yfir sjávarmáli, þ.e. 13 metra. Hefur þessi einfalda regla áhrif á það bil og stefnu sem myndast á milli dranganna í hverju pari fyrir sig, sem markast af legu landsins sjálfs.[2]
Í Intersection II er innri rökvísi verksins sú að plöturnar fjórar eru allar eins að lögun, nema hvað þeim hefur verið raðað ólíkt á gólfflötinn.
Mynd 2: Hér má sjá nánar hvernig sama form er raðað ólíkt eftir gólffletinum. Gerður er fyrirvari á nákvæmni módelsins.
Meðfylgjandi er hljóðritun sem ég gerði eitt septembersíðdegi árið 2015. Hljóðritað með „binaural“ hljóðnemum[3] á göngu um listaverkið. Heyra má í gegnum óreglubundin klöppin hvernig hljóðvist verksins er margbreytileg.
Hljóðdæmi 1: Upptaka af göngu um Intesection II eftir Serra.
---
[1]„Richard Serra: Intersection II“. MoMA. Sótt 5. Apríl 2020. https://www.moma.org/collection/works/81514
[2]„Richard Serra: Áfangar. Listasafn Reykjavíkur. Sótt 5. Apríl 2020. https://listasafnreykjavikur.is/syningar/richard-serra-afangar
[3]„Binaural recording“. Wikipedia. Sótt 5. Apríl 2020. https://en.wikipedia.org/wiki/Binaural_recording