Jaap Schröder og tengsl hans við Ísland

Sigurður Halldórsson

 

Inngangur

Fiðluleikarinn og tónlistarfræðingurinn Jaap Schröder andaðist þann 1. janúar sl. Sem samstarfsmaður hans í tuttugu ár langar mig að minnast hans og um leið varpa ljósi á umfangsmikið starf hans hér á landi.

Jaap Schröder var frumkvöðull í rannsóknum á stíl og túlkun tónlistar 17. og 18. aldar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en tónlistarferill hans spannaði meira en þrjá aldarfjórðunga. Eftir að Jaap tók við leiðarahlutverki Bachsveitarinnar í Skálholti árið 1993 helgaði hann tónlistarlífi á Íslandi drjúgan hluta ferils síns og var fastagestur á Sumartónleikum í Skálholti allt til sumarsins 2015. Jaap var sæmdur Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til íslensks tónlistarlífs árið 2001. Hann stofnaði Skálholtskvartettinn og auk þess að leika með honum á Sumartónleikum í Skálholti á hverju sumri á meðan kvartettinn starfaði, hafði hann frumkvæði að talsvert viðamiklum hljóðritunum og tónleikaferðum bæði um Evrópu og Bandaríkin. Ég ætla að fjalla hér í stórum dráttum um framlag Jaaps til tónlistarlífs á Íslandi, einkum starf hans með Skálholtskvartettinum. Það má vel vera að ég fylgi greininni eftir síðar með nánari umfjöllun um samstarf okkar. Með greininni fylgja nokkur tóndæmi af ýmsum tónleikum, mest með Skálholtskvartettinum. Ég vil þakka Rut Ingólfsdóttur og Svövu Bernharðsdóttur, félögum úr Skálholtskvartettinum og auk þess Halldóri Víkingssyni og Þorkeli Helgasyni fyrir yfirlestur og góðar athugasemdir.

Mynd 1: Jaap Schröder í Skálholtskirkju

 

Frumkvöðullinn

Jaap Schröder fæddist í Amsterdam 31. desember 1925. Hann nam fiðluleik í París, hjá Calvet og Pasquier við École Jacques Thibaud, og tónlistarfræði við Sorbonne háskóla. Hann starfaði um tæplega tveggja áratuga skeið með Hollenska strengjakvartettinum (e. Netherlands String Quartet). Eftir það hóf Jaap að einbeita sér að nýrri nálgun við hljóm, stíl og fagurfræði tónlistar 17. og 18. aldar með hljóðfærum þess tíma, í hreyfingu sem oftast er kennd við upprunamiðaðan flutning, eða historically informed performance (HIP). Jaap varð einn af frumkvöðlum þeirrar hreyfingar í Hollandi og síðan á heimsvísu.

Jaap stofnaði hópinn Quadro Amsterdam með flautuleikaranum Frans Brüggen, semballeikaranum Gustav Leonhardt og sellóleikaranum Anner Bijlsma, en allir voru þeir í framvarðasveit í túlkun á 17. og 18. aldar tónlist. Hópurinn hljóðritaði nokkrar plötur með tónlist eftir Couperin og Telemann á árunum 1964 til 69 fyrir Telefunken. Fróðlegt er að miða við þann tónlistarmann af sömu kynslóð sem sennilega varð þekktastur á þessu sviði á heimsvísu, austurríska stjórnandann, selló- og gömbuleikarann Nicolaus Harnoncourt (1929 - 2016).[1] Fyrsta hljómplata sveitar hans og Alice konu hans, Concentus Musicus Wien, var gefin út hjá Telefunken árið 1961, ári eftir að fyrsta plata Jaaps Schröders kom út hjá sama útgáfufyrirtæki.

Hljómplötur þar sem Jaap var leiðari eða í einleikshlutverki urðu að vonum fjölmargar. Hér[2] er til gamans listi þeirra eftir hans eigin uppskrift frá 2011.

Jaap stofnaði Concerto Amsterdam, sem var kammersveit skipuð að mestu hljóðfæraleikurum úr Konunglegu Concertgebouw hljómsveitinni, og starfaði með þeirri sveit á 7. og 8. áratugnum. Jaap var konsertmeistari með Academy of Ancient Music í London þegar Christopher Hogwood stjórnaði fyrstu heildarútgáfu á sinfóníum Mozarts leiknum á upprunaleg hljóðfæri.

Jaap lagði sérstaka áherslu á kammertónlist, og þar skipaði strengjakvartettinn sérstakan sess.[3] Eftir að hann hóf að einbeita sér að túlkun tónlistar klassíska tímabilsins með hljóðfærum að hætti 18. aldar starfaði hann fyrst með Quartetto Esterhazy (1972-82) og síðan með Smithsonian String Quartet (1982-96) sem var starfræktur af Smithson stofnuninni í Washington DC. Jaap ferðaðist fyrst um Bandaríkin í upphafi 6. áratugarins, á meðam hann lék með Hollenska strengjakvartettinum. Hann hóf snemma reglulega starfsemi vestan hafs og varð sífellt eftirsóttari. Hann kenndi við Yale háskóla þar sem hann var heiðursfélagi við Davenport College. Jaap starfaði einnig í Ann Arbor í Michigan, í háskólanum í Oregon í Eugene og lék með fjölda tónlistarmanna og hópa. Þar má helst minnast á Atlantis Ensemble sem starfaði í Boston og hljóðritaði fyrir Musica Omnia útgáfuna í Boston[4].

Jaap var lengi kennari við Schola cantorum basilienses í Sviss sem lengi hefur verið einn eftirsóttasti skóli heims fyrir þá sem vilja sérhæfa sig í upprunaflutningi. Og það var vegna tengingarinnar þangað sem hann kom fyrst til Íslands.

 

Bakgrunnurinn á Íslandi -  Bachsveitin í Skálholti

Jaap Schröder kom fyrst til Íslands árið 1993 til að leiða Bachsveitina í Skálholti. Víóluleikarinn og barokkfiðluleikarinn Svava Bernharðsdóttir var félagi í sveitinni. Hún var nemandi Jaaps við Schola cantorum basiliensis nokkrum árum áður og átti hugmyndina að því að fá hann til starfsins. Bachsveitin hafði þá haldið tónleika á hverju sumri í meira en áratug á Sumartónleikum í Skálholti.

Bachsveitin var stofnuð af Helgu Ingólfsdóttur, listrænum stjórnanda og stofnanda Sumartónleika. Sveitin hafði þá að frumkvæði Helgu unnið af krafti að því að innleiða notkun barokkhljóðfæra meðal tónlistarmannanna í sveitinni í anda fyrrnefndrar hreyfingarinnar um upprunamiðaðan flutning. Félagar í Bachsveitinni voru hvattir til að koma sér upp barokkhljóðfærum og Sumartónleikar í Skálholti beittu sér fyrir því, m.a. með stuðningi Þjóðhátíðarsjóðs, að keypt yrðu hljóðfæri. Sr. Guðmundur Óli Ólafsson sóknarprestur studdi einnig við kaup á litlu barokkorgeli og sembal. Hann var einlægur áhugamaður um barokktónlist, einkum tónlist Jóhanns Sebastians Bachs og var eins konar guðfaðir Sumartónleikanna og öflugur stuðningsmaður þeirra á meðan hans naut við.

Frá stofnun Bachsveitarinnar lagði Helga Ingólfsdóttir mikinn metnað í að kalla til færustu sérfræðinga á sviði barokktúlkunar í stað þess að stýra sjálf flutningnum. Meða annarra höfðu sænski fiðluleikarinn Ann Wallström og bandaríski selló- og gömbuleikarinn Laurence Dreyfus leitt sveitina. Jaap Schröder var réttur maður á réttum stað þegar sveitin hafði starfað í nær áratug. Hann var búinn að vera lykilpersóna í flutningi 17. og 18. aldar tónlistar áratugum saman sem flytjandi, fræðimaður og kennari, og hafði unnið náið með helstu listamönnunum á því sviði.

Jaap og kona hans Agnes tóku fljótt ástfóstri við Skálholt. Jaap lyfti starfi Bachsveitarinnar upp á næsta stig. Hann byggði verkefnavalið upp á skipulagðan hátt og setti hópnum skýr langtímamarkmið. Og vegna þess hve hann vann mörg sumur í röð með sveitinni með þessum hætti náði sveitin góðum framförum þrátt fyrir að hittast undantekningalítið aðeins á sumrin.

Hann fór fljótlega að stefna á upptökur og útgáfu með sveitinni. Þau Helga Ingólfsdóttir höfðu þegar hljóðritað allar sónötur Bachs og í því verkefni varð Jaap það ljóst að Skálholtskirkja byði upp á afburða aðstæður til hljóðritana. Bachsveitina skipaði ungt og áhugasamt tónlistarfólk sem brann í skinninu að læra meira og verða betra. Þetta varð honum nýr innblástur til enn frekari afkasta þar sem hugmyndirnar að áhugaverðum verkefnum skorti ekki. Ég man eftir því á fyrstu árunum sem við unnum saman að hann var farinn að hugleiða hvað tæki við ef hann myndi hætta að spila, hvað hann ætti að gera við fiðlurnar og hvað hann myndi taka sér fyrir hendur.

Þegar Jaap kom að starfi Bachsveitarinnar var til einn hljómdiskur með leik Bachsveitarinnar. Á honum lék Camilla Söderberg blokkflautuleikari einleik í konsertum eftir Vivaldi og Telemann. Jaap átti mikinn þátt í því að koma á reglulegu samstarfi Sumartónleika í Skálholti við Smekkleysu útgáfuna. Það má greina tvær vakningar í tónlistarútgáfubransanum sem héldust í hendur kringum aldamótin þar sem Sumartónleikar í Skálholti og Smekkleysa voru leiðandi öfl: Í fyrsta lagi ýmsar hljóðritanir tengdar enduruppgötvun tónlistarfræðasamfélagsins á tónlistarefni í íslenskum handritum, sem handritafræðingar höfðu fram að því ekki veitt athygli, og öll sú sköpun sem fólst í henni með þátttöku fjölmargra ungra íslenskra tónskálda og flytjenda. Kafli 12 í Bókinni Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason fjallar á ítarlegan hátt um þessi verkefni.[5]  Í öðru lagi eru svo útgáfurnar undir forystu Helgu Ingólfsdóttur og Jaaps Schröder. Sumartónleikar í Skálholti og Smekkleysa í sameiningu gerðu þessari vakningu ríkuleg skil og var kynnt sem sérstök útgáfuröð innan Smekkleysu. Bachsveitin hljóðritaði þrjá geisladiska undir stjórn Jaaps. Fyrst konserta eftir Vivaldi, þá enska leikhústónlist frá 17. öld og loks ítölsk verk frá 17. öld sem höfðu ekki verið hljóðrituð áður, en sá diskur hefur enn ekki verið gefinn út. Að líkindum var það síðasta stúdíóhljóðritun sem Helga Ingólfsdóttir tók þátt í, og væri óskandi að þessi diskur kæmi fyrir almenningseyru. Ítarleg umfjöllun um þessi verkefni og fjölmargt fleira sem viðkemur þessari grein er í bók Kolbeins Bjarnasonar.

Jaap var í leiðarahlutverki hjá Bachsveitinni það sem eftir lifði tíma Helgu sem listræns stjórnanda eða í 12 ár. Á þessu tímabili kom einnig út hljómdiskur með einleiksverkum fyrir fiðlu og fyrsti hljómdiskur Skálholtskvartettsins, Sjö orð Krists á krossinum eftir Haydn. Hljóðupptökumaður í öllum þessum verkefnum var Halldór Víkingsson. Jaap og hann unnu mjög vel saman og Halldór var einn öflugasti talsmaður þess að skrá sem mest af leik Jaaps og Skálholtskvartettsins á varanlegt form á meðan allir væru í formi. Margar hljóðritanir úr þessu safni hafa ekki verið gefnar út. Auk ítölsku verkanna fyrrnefndu, er þar m.a. um að ræða Stabat mater eftir Boccherini.

Mynd 2: Skálholtskvartettinn í hlöðunni í Les Murs 1997

 

Skálholtskvartettinn

Sem fyrr segir lagði Jaap sérstaka áherslu á kammertónlist á sínum ferli.[6] Þar var strengjakvartettformið hans aðalviðfangsefni, þar sem hann var einstakur frumkvöðull. Árið 1996 hætti Smithson stofnunin að styðja við rekstur kvartettsins sem Jaap hafði leitt í hálfan annan áratug. Sama ár, eftir þrjú sumur með Bachsveitinni, var lagður grunnur að því að stofna strengjakvartett að hans frumkvæði því þetta sumar flutti hann ásamt þremur félögum úr Bachsveitinni strengjakvartetta Haydns Sjö orð Krists á krossinum. Þar voru með honum auk mín, Svava Bernharðsdóttir fyrrverandi nemandi Jaaps á fiðlu og Sarah Buckley á víólu. Á tónleikunum las þáverandi vígslubiskup, sr. Sigurður Sigurðarson, upp úr viðeigandi erindum úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar á undan hverjum þætti. Þessir sjö kvartettar Haydns, sem eru byggðir á samnefndu hljómsveitarverki, voru meðal þeirra fáu strengjakvartetta Haydns sem Jaap hafði ekki hljóðritað. Flutningur þeirra á Skálholtshátíð var því ekki aðeins tillaga um tónleikaprógramm við þetta tækifæri, heldur voru þar einnig áform um frekari hljóðritanir og útgáfu á strengjakvartettum farin að búa um sig.

Tóndæmi 1: Haydn kvartett Op. 9 nr. 2,  3. Adagio - Cantabile, Upptaka frá Skálholti 2004

Tóndæmi 2: Haydn kvartett Op. 17 nr. 5, 1. Moderato Frá Skálholti 2004

Árið 1997 hélt Bachsveitin í sína fyrstu og einu tónleikaferð til útlanda fyrir frumkvæði og hvatningu Jaaps, nánar tiltekið til Frakklands. Bækistöð hópsins í ferðinni var sumardvalarstaður Schröder hjónanna, 14. aldar kastalinn Les Murs við þorpið Méreau í Cher héraði. Tónleikar voru haldnir á nokkrum stöðum í nágrenninu, m.a. dómkirkjunni í Bourges og Abbaye de la Prée. Við það tækifæri voru Sjö orð Krists eftir Haydn aftur flutt, en þá var Rut Ingólfsdóttir komin inn í hópinn á fiðlu og Svava tók við víóluhlutverkinu. Sú skipan kom næst við sögu í tveimur hljóðritunum með Bachsveitinni á tónlist frá 17. öld þar sem nokkur verk voru einungis flutt af tveimur fiðlum, víólu og sellói. Eftir þessar þreifingar var kvartettinn formlega stofnaður 2003. Upphaflega átti hann að heita Ultima Thule. En eftir að í ljós kom að finnsk þungarokkshljómsveit hét því nafni þá varð úr að taka upp nafnið Skálholtskvartettinn. Þetta ár hljóðritaði kvartettinn sína fyrstu plötu, einmitt Sjö orð Krists á krossinum eftir Haydn, sem kom út hjá Smekkleysu nokkrum árum seinna.

Sumarið 2004 var síðasta sumar Helgu Ingólfsdóttur sem stjórnandi Sumartónleikanna. Það ár kom Skálholtskvartettinn fyrst fram með þessu nafni. Kvartettinn varði nokkrum dögum við æfingar í Les Murs, hjá Jaap og Agnesi, og hélt auk þess tónleika í kirkjunni í Mereau, bænum sem Les Murs tilheyrir. Og um sumarið hélt kvartettinn sína árlegu tónleika í Skálholti. Skálholtskvartettinum var boðið að halda tvenna tónleika á Haydn hátíð í í Fertöd í Ungverjalandi sem fram fór m.a. í Esterhazy höllinni þar sem Joseph Haydn dvaldi árum saman þegar hann var í þjónustu prinsins Nikolaus Esterhazy.

Mynd 3: Skálholtskvartettinn í Esterházy höllinni í Fertöd í Ungverjalandi 2004

Á hátíðinni flutti kvartettinn annars vegar Strengjakvartetta op. 9 nr. 2 og op.17 nr. 5 eftir Haydn og op. 32 nr. 6 eftir Boccherini í Esterhazy höllinni og hins vegar Sjö orð Krists á krossinum, op.51, eftir Haydn í kirkjunni í Fertőszéplaki, en þar starfaði Haydn sjálfur sem organisti.

Nokkrum dögum fyrir Haydnhátíðina hélt kvartettinn tónleika í ráðhúsinu í Ljubljana í Slóveníu, en víóluleikarinn Svava Bernharðsdóttir bjó í borginni á þeim tíma. Þessi ferð varð upphafið að viðameiri starfsemi heldur en var fyrirséð, og við félagarnir í kvartettinum tókum  þar ákvörðun um að við myndum setja tónleika- og hljóðritunarverkefni með Skálholtskvartettinum í forgang í bili, þar sem við áttuðum okkur á hve mikils virði þessi samvinna við Jaap gæti orðið, og gáfum því í mesta lagi 4-5 ár. En það reyndist öðru nær. Þetta varð aðeins byrjunin á ævintýri sem stóð í tvo áratugi. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður og eiginmaður Rutar Ingólfsdóttur, ferðaðist oftast með kvartettinum. Dagbókarfærslur Björns, sem eru aðgengilegar á bjorn.is[7], reyndust einstaklega hjálplegar til að rifja upp tímasetningar í starfsemi kvartettsins með því að nota leitarvélina og slá inn nafni Jaaps og Skálholtskvartettsins. 

Tóndæmi 3: Boccherini kvartett op 32 nr. 6, Minuetto Upptaka frá Esterházy 2004

Tóndæmi 4: Haydn kvartett Op. 17 nr. 5, 3. Adagio Frá Esterházy 31.8.2004

Tóndæmi 5: Þáttur úr Haydn 7 orðum Krists, op.51, (etv. Sitio, Sonata V) í Fertöd 2004

Mynd 4: Skálholtskvartettinn í kirkjunni í Fertőszéplaki í byrjun september 2004

Árið 2005 tók greinarhöfundur við listrænni stjórn Sumartónleika í Skálholtskirkju eftir 30 ára öflugt frumkvöðlastarf Helgu Ingólfsdóttur. Kvartettinn kom nú reglulega fram á tónleikum í Skálholti og stóð þannig undir nafni. Fyrstu árin voru það helst verk Haydns, Boccherinis og Mozarts sem voru á efnisskrá kvartettsins. Í byrjun júlí 2005 hélt kvartettinn tónleika á tónlistarhátíð í Provence í Suður-Frakklandi sem tónlistaráhugamaðurinn, athafnamaðurinn og verktakinn Ármann Ármannsson stóð fyrir árlega um nokkurt skeið. Seinna um sumarið hljóðritaði kvartettinn verk eftir bræðurna Joseph og Michael Haydn og tvo síðustu kvartetta Boccherinis, op. 64 nr. 1 og 2 eftir að hafa leikið efnisskrána á tónleikum. Boccherini náði aðeins að klára fyrsta kvartettinn og einn kafla af öðrum, sem áttu að mynda safn sex kvartetta eins og hefðin var. Þessar hljóðritanir hafa ekki enn verið gefnar út.

Mynd 5: Skálholtskvartettinn í kirkjunni í Mereau 2005

 

Tónleikahljóðrit

Eins og nærri má geta voru fjölmargir tónleikar með leik Jaaps og samstarfsfólks á Íslandi hljóðritaðir. Fyrst og fremst voru það hljóðritanir á vegum RÚV, sem stóð vaktina með töluverðum myndarskap á Sumartónleikum í Skálholti gegnum áratugina. Þessar hljóðritanir ættu að vera aðgengilegar þeim sem hafa áhuga á að bera sig eftir þeim, og má fullyrða að áhugavert efni sé þar að finna sem vert er að rannsaka. Það gerðist líka oft að Halldór Víkingsson hljóðritaði tónleika sem voru haldnir um sama leyti og hljóðvershljóðritanir fyrir hljómdiska Smekkleysu og Musica Omnia stóðu yfir. Þar að auki stóð samstarf Sumartónleika við Stúdíó Sýrland í um eða yfir fimm ár frá 2009, og hljóðritaði Sýrland alla tónleika hátíðarinnar á því tímabili.  Jafnvel voru sömu efnisskrár hljóðritaðar tvisvar ef þær voru fluttar tvisvar. Þetta samstarf var að frumkvæði Sveins Kjartanssonar í Sýrlandi sem var á þessum tíma að stofna námsbraut í hljóðupptökum í samvinnu við Tækniskólann og þar þurfti að veita nemendunum næg tækifæri til að fá reynslu og leiðsögn frá leiðbeinendum á vettvangi. Þetta er töluvert viðamikið safn hljóðritana með fjölmörgum Íslenskum og erlendum flytjendum, þar af að sjálfsögðu með Jaap Schröder og Skálholtskvartettinum, sem geyma mikilvægar heimildir til framtíðar. Þau tóndæmi sem fylgja þessari grein eru hvorki RÚV hljóðrit né hljóðversupptökur heldur eru hér valin dæmi frá lifandi flutningi á tónleikum í Skálholti, en einnig frá Haydn hátíðinni í Esterhazy höllinni í Fertöd í Ungverjalandi. Tóndæmin eru valin til að gefa lifandi og raunveruleg dæmi um persónuleika og túlkun Jaaps. En augljóslega eru þessar hljóðritanir langt frá því að vera hnökralausar, enda er þeim fyrst og fremst ætlað að leyfa hlustendum að upplifa stemninguna og heildarsvipinn.

Mynd 6: Í stofunni í Les Murs vorið 2006. Hinn sellistinn er Marc Vanscheeuwijck

Árið 2006 voru liðin 250 ár frá fæðingu Mozarts. Snemma um vorið hittist kvartettinn á sumarsetri Schröderhjónanna, Les Murs, æfði og hélt tónleika í nálægum bæ, Massay. Auk kvartetta Mozarts var fluttur á tónleikunum strengjakvintett Boccherinis op. 40 nr. 2 í D-dúr, þar sem belgíski sellóleikarinn og tónlistarfræðingurinn Marc Vanscheeuwijck var gestur hópsins. Marc er prófessor í háskólanum í Oregon í Eugine, þar sem Jaap starfaði árum saman sem gestakennari. Í Skálholti um sumarið var sama verk Boccherinis flutt, en í það skiptið var gestur hópsins franski sellóleikarinn Bruno Cocset sem síðar kom við sögu sem annar sellóleikari kvartettsins í C-dúr kvintett Schuberts. Það sumar flutti Skálholtskvartettinn þrjá kvartetta eftir Mozart í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal.

Í desember 2006 tók Skálholtskvartettinn þátt í sérstakri nágrannahátíð í tilefni af opnun tónleikastaðarins Orgelpark í Gerardbrandtstraat við Vondelpark í Amsterdam. Tónleikastaðurinn var stofnaður í afhelgaðri kirkju frá byrjun 20. aldar. Jaap og Agnes höfðu búið í sömu götu frá 6. áratugnum. Þar ríkti traust samband milli nágrannanna og forsvarsmönnum Orgelpark var umhugað um að nábýlið yrði sem uppbyggilegast.

 

Schubert

Þótt Jaap væri kominn á níræðisaldur þá hafði hann óþrjótandi kraft til að auka við sig þekkingu og miðla reynslu. Eftir að kvartettinn hafði einbeitt sér mestmegnis að Haydn og Boccherini fór Jaap að koma með hugmyndir um að snúa sér að 19. aldar tónlist áfram út frá sögulega upplýstri nálgun. Hann hafði þá þegar hljóðritað nokkra geisladiska með kammerverkum með píanói eftir Schubert, Scumann og Mendelsohn fyrir Musica Omnia útgáfufyrirtækið í Boston með Atlantis Trio.[8] Sumarið 2007 fór tónlist Schuberts því að heyrast á tónleikum kvartettsins. Kvartettinn flutti strengjakvartett í a-moll, Rósamundu, bæði í Napoli og Capri á Ítalíu auk Skálholts.

Árið 2008 skipulagði Jaap tónleikaferð kvartettsins um Niðurlönd. Í mars hélt kvartettinn tónleika í Amsterdam, Kampen, Venray, Groningen og Pieterburen. Í þeirri ferð flutti kvartettinn mismunandi tónleikaprógrömm á flestum stöðunum, þ.m.t. Sjö orð Krists eftir Haydn og Rósamundu-kvartett Schuberts. Um sumarið hélt kvartettinn einnig þrenna tónleika á Mallorca. Í leiðinni undirbjó kvartettinn flutning á C-dúr strengjakvintett Schuberts sem hann flutti svo um sumarið með sellóleikaranum Bruno Cocset sem gesti.

Á árunum 2009 og 2010 ferðaðist kvartettinn á nokkra staði í Frakklandi, bæði til Normandi, nánar tiltekið í Varengeville nálægt bænum Eu, og til Valloise í frönsku ölpunum. Síðasta tónleikaferð kvartettsins utan Íslands var haustið 2012 til Boston og Newhaven þar sem hann hélt tónleika í Boston College og Yale háskóla, m.a. í samstarfi við American Baroque Orchestra.

Tóndæmi 6: Haydn kvartett Op. 20 nr. 5, Adagio Upptaka frá Skálholti 2007

Mynd 7: Skálholtskvartettinn á útisviði á Capri sumarið 2007

Eftir að starfsemi Skálholtskvartettsins var orðin svona viðamikil, kom Jaap á samstarfi kvartettsins við Musica Omnia útgáfuna í Boston, sem Peter Watchorn sembal- og orgelleikari stýrir, um að gefa út helstu strengjakvartetta Schuberts, kvintettinn í C-dúr og hugsanlega fleiri verk. Jaap sá fyrir sér að það myndi verða sitt síðasta stóra hljóðritunarverkefni. Eftir að vera búinn að hljóðrita flesta strengjakvartetta Haydns, Mozarts, Boccherinis, Beethovens og fleiri frumkvöðla strengjakvartettformsins með Quartetto Esterhazy og Smithsonian Quartet, og nýlegar Haydn- og Boccherini hljóðritanir með Skálholtskvartettinum lá það beinast við að taka Schubert fyrir sem næsta höfuðtónskáld strengjakvartettformsins og meðhöndla verk hans út frá sambærilegri fagurfræði, aðferðum og túlkun. Jaap hafði enn næga orku, forvitni og skýrar hugmyndir og fyrirætlanir um hvernig kammerverk Schuberts gætu hljómað á sannfærandi hátt frá sjónarhorni fyrstu áratuga 19. aldar. Hljóðritanir á strengjakvintettinum í C-dúr og kvartettþættinum í c-moll fóru fram sumarið 2010. Næstu þrjú sumur voru síðan fimm helstu kvartettar Schuberts hljóðritaðir. Upptökunum 2010 og 2011 stýrði Peter Watchorn listrænn stjórnandi Musica Omnia utgáfunnar, en seinni árin tók Hildigunnur Halldórsdóttir við upptökustjórn. Hún hafði bæði spilað með Bachsveitinni og gjarnan komið fram sem gestur með Skálholtskvartettinum. Sem fyrr var hljóðupptakan unnin af Halldóri Víkingssyni. Haustið 2015 voru einnig tekin upp tvö strengjatríó eftir Schubert og tvö önnur tríó, annars vegar eftir Haydn og hins vegar Boccherini, með það fyrir augum að gefa þau út hjá Musica Omnia.

Mynd 8: Í Skálholtskirkju 2009

Tveir diskar komu út af þessari röð. Strengjakvintett í C-dúr og kvartettþáttur í c-moll annars vegar, þar sem Bruno Cocset sellóleikari lék með kvartettinum[9] (2012) og G-dúr strengjakvartettinn [10] (2014) hins vegar. Báðum þessum hljómdiskum fylgja upplýsingar á ensku og íslensku. Fjórir kvartettar Schuberts þ.m.t. bæði Rosamunda og Dauðinn og stúlkan bíða útgáfu og eins efnisskrárinnar með strengjatríóum eftir Haydn, Boccherini og Schubert. Auk Schubert verkanna kom út hjá Musica Omnia útgáfunni kvintett Mozarts fyrir klarinett og strengjakvartett sem Skálholtskvartettinn hljóðritaði með Owen Watkins árið 2012 í Boston.[11]

Jaap var kominn á slíkt flug um þetta leyti að hann áformaði jafnvel að takast á við Brahms og Bruckner í framhaldinu og sumarið 2013 var Adagio úr strengjakvintett eftir Bruckner m.a. flutt á tónleikum kvartettsins í Skálholti.

Tóndæmi 7: Schubert kvartett í C-dúr Op. 161, 2. Andante un poco moto, Skálholti 31.7.2010

 

Önnur verkefni

Mynd 9: Hópurinn sem flutti og hljóðritaði Stabat mater eftir Boccherini á Sumartónleikum í Skálholti 2005, frá vinstri: Eyjólfur Eyjólfsson, tenór, Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Marta Guðrún Halldórsdóttir, sópran, Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðluleikari, Jaap Schröder, Dean Ferrell, víólóneleikari, Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari og Sigurður Halldórsson.

Auk starfsins með Skálholtskvartettinum og Bachsveitinni tók Jaap þátt í ýmsu tónleika- og námskeiðahaldi og hljóðritunum á Íslandi. Hann stjórnaði flutningi Kammersveitar Reykjavíkur á öllum Brandenburgarkonsertum Bachs árið 1998, bæði tónleikum og hljóðritunum. Hann kenndi einnig á námskeiðum, m.a. á Sumartónleikum í Skálholti og  á vegum Barokksmiðju Hólastiftis. Þar og víðar héldum við tveir einnig tónleika sem dúett, og lékum þá verk frá 17. öld á Ítalíu.

Mynd 10: Jaap Schröder ásamt greinarhöfundi á tónleikum í Hóladómkirkju árið 2012

Hérlendis lék Jaap ekki einungis með þeim sem þegar eru nefndir. Auk þeirra má nefna Martial Nardeau flautuleikara, Hildigunni Halldórsdóttur fiðluleikara, Bruno Cocset sellóleikara, Peter Watchorn semballeikara, Mörtu Guðrúnu Halldórsdóttur sópran, Eyjólfi Eyjólfsson tenór, Dean Ferrell viololone- og bassaleikara, Balasz Kakuk barytóngömbuleikara og fleirum og fleirum.

Mynd 11: Með Jaap og ungverska barytongömbuleikaranum Balazs Kakuk sumarið 2006

 

HIP

Hreyfingin um upprunamiðaðan flutning, eða HIP (Historically Informed Performance), þar sem Jaap Schröder fór með leiðandi hlutverk lungann af starfsævi sinni, tók fyrst og fremst á barokktónlist og svo endurreisnar- og miðaldatónlist. Hreyfingin miðaði að því að flutningur tónlistar væri trúr þeim tíðaranda, nálgun og stíl sem ríkti þegar tónlistin varð til. Stór þáttur í stefnu hreyfingarinnar var að nota hljóðfæri sem líktust sem mest þeim sem notuð voru þegar tónlistin var frumflutt. Í tilfelli strengjahljóðfæranna skipti þá til að mynda máli fyrir hljóm og karakter verkanna hvernig strengir voru notaðir, hvers konar bogar og hvernig strengirnir voru stillir. Þessi atriði, í bland við aðrar bakgrunnsrannsóknir á samfélagslegum þáttum á hverjum stað og hverjum tíma, reyndust alveg jafn mikilvæg fyrir listræna útkomu eins og skrifleg fyrirmæli tónskáldanna, nefnilega nóturnar.

HIP hreyfingin á rætur til síðari hluta nítjándu aldar. Uppruni hennar tengdist Arts and Crafts hreyfingunni kringum William Morris (1834-96) gegnum svissnesk-ættaða Frakkann Arnold Dolmetsch (1858-1940).[12] Fjölskylda hans rak píano-, orgel- og harmóníumverslun og verkstæði í Le Mans. Dolmetsch flutti ungur til Englands og varði starfsævinni í að endurhanna, endurgera og þróa hljóðfæri að hætti fyrri tíma, rannsaka tónlistina sem þau tilheyrðu og þjálfa sig í hljóðfæraleik á þau hljóðfæri. Hugmyndafræði Arts and Craft hreyfingarinnar var meðal annars sú að hver listamaður byggi yfir heildstæðri þekkingu og færni í öllum þáttum þeirrar greinar sem hann stundaði og hefði djúpstæðan skilning á henni til að vera raunverulega fær um að framkvæma alla þætti vinnunnar, allt frá hugmynd yfir í hönnun, handverk, framleiðslu og markaðssetningu. Þetta var í vissum skilningi andstæða þess sem iðnbyltingin boðaði, þar sem sérhæfing varð meiri og meiri.

Segja má að þessar andstæður hafi kristallast í mismunandi afstöðu tónlistamanna á 20. öld til upprunamiðaðs flutnings. Gildi og mikilvægi þeirrar nálgunar er í grunninn fólgið í því að túlkun tónlistarinnar taki mið af þáttum sem viðkoma samfélagslegum og efnislegum aðstæðum og þekkingu á hverjum tíma og hverjum stað, öðrum en sjálfum nótunum sem endurspegla misþróað kerfi nótnaskriftar. Með því stuðlar frumkvæði flytjandans við að rannsaka viðfangsefnið að upplýstri afstöðu og sannfæringu í túlkun. Að sama skapi er forðast að láta túlkunina um of ráðast af persónulegum stíl flytjendanna, til dæmis út frá annari tónlist af verkaskrá þeirra, almennt viðtekinni tísku, eða að láta eigin persónu yfirskyggja tónlistina sjálfa.

Tvær heimsstyrjaldir á fyrri hluta 20. aldar höfðu að líkindum sín áhrif á að trufla þróun þessarar nálgunar, sem og annara afsprengja Arts and Crafts hreyfingarinnar. Stríðsástandið varð frekar til þess að auka sérhæfingu og fjöldaframleiðslu þegar á heildina er litið heldur en ekki. Það varð líka mikil umbreyting á ýmsum hljóðfærum, hljóðfærahópum og leiktækni á þessum tíma sem færði þau fjær þeirri mynd sem hentaði gömlu tónlistinni. Sem dæmi var það til dæmis óhugsandi þegar leið á 20. öldina að setja saman drengjasópran, blokkfautu, fjórar básúnur og sembal saman í hóp, sem hefði verið fullkomlega eðlilegt að gera á sautjándu öld hvað jafnvægi í hljóðstyrk varðaði. Þá var oft gripið til þess að endurskrifa gömlu verkin til að fella þau að nýjustu tísku. Hljómsveitir og kórar voru orðin margfalt stærri, sem kallaði á gjörbreyttar lausnir í flutningi tónlistarinnar. En eftir stríðið birtist kynslóð Jaaps Scröders; Harnoncourt, Leonhart, Gardiner, Bruggen, Hogwood og fleiri, og tók upp þráðinn. Þeirra afstaða var gjarnan sú að þær breytingar sem verið var að gera, og gerst höfðu á hljóðfærum og flutningsaðferðum, þjónuðu ekki verkum gömlu meistaranna. Þær væru ekki aðeins til að draga úr gæðum tónlistarinnar og áhrifum, heldur væru oft smekklausar og jafnvel siðlausar og ósæmilegar.

Sem betur fer náðu stríðin ekki að stöðva Dolmetsch og hans fólk. Hann lifði fram að seinna stríði og lánaðist að fleyta arfleifð sinni áfram til næstu kynslóða innan fjölskyldunnar og á heiður af því að endurvekja gömlu hljóðfærafjölskyldurnar gömbur, lútur og blokkflautur auk sembalsins, og stuðla að almennri notkun þeirra, langt út fyrir hreyfinguna um upprunamiðaðan flutning.

Tónhæð og stilling hljóðfæranna er töluvert atriði þegar kemur að nálgun samkvæmt upprunamiðuðum flutningi. Tónhæðin sem varð almenn í barokktónlistinni er A415, þótt tónhæðin hafi vissulega verið misjöfn milli staða og tímabila, og stillikerfin eru fjölmörg eftir eðli, tímabili og uppruna tónlistarinnar, svo sem Píþagórísk stilling fyrir miðalda- og endurreisnartónlistina, meðaltóns-stillingar (meantone) fyrir 17. öld og ýmsar vel-tempraðar stillingar eins og Werkmeister og Valotti.[13]

Vitað er að tónhæðin fór hækkandi frá síðari hluta 18. aldar frá u.þ.b. A420 (sem var tónhæð tónkvíslar sem Leopold Mozart átti) og upp í ca. A432 í upphafi 19. aldar og áfram upp í 440 og þar yfir á 20. öld. Til hagræðingar var tónhæðin A430 ákveðin fyrir tónlist frá klassíska tímabilinu, þannig að klassísk blásturshljóðfæri eru yfirleitt smíðuð með það í huga og fortepiano hljóðfærin sem notuð eru í tónlist Mozarts, Haydns, Beethovens, Schuberts og samtímamanna þeirra eru stillt þannig. Samkvæmt þessari venju starfaði Skálholtskvartettinn og notaði sömu hljóðæri og með Bachsveitinni en með aðra boga sem hæfðu klassíska tímanum og stilltu strengina upp um hér um bil kvarttón. Strengirnir eru í meginatriðum eins, enda voru þeir gerðir á sama hátt öldum og árþúsundum saman. Það var ekki fyrr en eftir 1910 sem stálstrengir komu til sögunnar.

Að líkindum er markverðasta framlag Jaaps Schröders að finna í túlkun hans á tónlist síðari hluta 18. aldar og byrjun þeirrar 19., sem sagt klassíska tímabilinu. Hann sérhæfði sig í strengjakvartettum í um 40 ár, með Quartetto Esterhazy, Smithsonian String Quartet og Skálholtskvartettinum, og starfaði einni meðal annars sem konsertmeistari með Christopher Hogwood í hljóðritunum á öllum sinfóníum Mozarts, og leiddi ótal tónleika og hljóðritanir Concerto Amsterdam út frá upprunamiðuðum flutningi.

Jaap vann mjög meðvitað með ítónun út frá hreinum stillingum, sem strengjakvartett getur náð þar sem ekkert hljóðfærið er fast í stillingu í sama skilningi og semball eða píanó. Það er hægt að stilla hvern hljóm hreinan með strengjakvartett á sama hátt og sönghóp á meðan hljóðfærahópur sem inniheldur sembal eða píanó getur aðeins breytt innbyrðis stillingu með því að stilla allt hljómborðið upp á nýtt. Aðferð Jaaps gekk út frá því að krómatík miðist við díatónískan ramma þar sem krómatískt hálftónstónbil hefur allt aðra virkni heldur en enharmónískt hálftónsbil. Það opnar nýjar víddir að nýta sér þessa hugsun og að stilla hrein tónbil út frá hljómfræðilegri stöðu hvers tóns, sérstaklega þríundir, auk þess að nýta sér mismunandi hljóðblöndun eða jafnvægi á tónstyrk. Annað einkenni á flutningi Jaaps var einstök tilfinning fyrir tímasetningum og tempóum sem má heyra mjög skýrt t.d. í hægu þáttum kvartetta Haydns. En umfram allt, hvað sem líður öllum upprunamiðuðum flutningshefðum, var stíll og leikmáti Jaaps sérlega persónulegur og byggðist ekki eingöngu á rannsóknum á samtímaheimildum frá 17. og 18. öld. Jaap var klárlega af franska fiðluskólanum, sem kristallaðist í mýkt og sveigjanleika. Hann nefndi oft fyrrverandi félaga sinn í Hollenska strengjakvartettinum, víólu- og fiðluleikarann Paul Godwin[14], sem sterkan áhrifavald. Paul þessi stýrði vinsælli salonhljómsveit sem Jaap lék mikið með þegar hann var að byrja að hafa atvinnu af fiðluleik.

 

Nótna- og bókasafnið

Það má nærri geta að á langri starfsævi öðlaðist Jaap víðfeðma yfirsýn yfir tónbókmenntir 17. og 18. aldar. Og öll hans gríðarlega reynsla endurspeglast í viðamiklu sístækkandi nótna- og bókasafni. Hann komst aldrei í hörgul með góðar hugmyndir fyrir tónleikaprógrömm. Sumartónleikar í Skálholti bjuggu óhindrað að þessari auðlind og var eflaust mikilvægur liður í hve lengi samstarf hans stóð við hátíðina. Jaap kom því svo þannig fyrir að aðgengi að þessum brunni fyrir íslenska tónlistarmenn og tónlistarfræðinga yrði áfram til staðar eftir sinn dag. Hann gaf Skálholtsstað stóran hluta safns síns árið 2006 í tilefni af 950 ára afmæli biskupsstólsins. Hann valdi nóturnar sérstaklega út frá því hvernig tónlist hann hafði oftast tekið þátt í að flytja á Íslandi og hvað myndi helst nýtast tónlistarhópum hér, svo sem verk fyrir kammersveitir, strengjakvartetta, kvintetta og fleiri samsetningar í þeim anda.

Safnið hefur að geyma jafnt útgefnar nótur eftir þekkt tónskáld sem og raddskár og handskrifaðar raddir af verkum minna þekktra tónskálda sem Jaap hafði sjálfur útbúið til flutnings. Einnig er fjöldi fræðirita í safninu og gagnrýndum útgáfum af raddskrám. Ekki hefur enn gefist færi á að skrá safnið og gera aðgengilegt, en það nýttist þó Sumartónleikum í Skálholti sem ríkuleg auðlind á meðan það var geymt í hillum í biskupshúsinu. Vegna breytinga á nýtingu húsakosts og viðhaldsvinnu þurfti að pakka safninu niður, og bíður það þess að vera skráð og gert aðgengilegt.

 

Félagsveran

Jaap var fjölskyldumaður, og allt frá því að Bachsveitin hittist undir hans stjórn fyrst, og áfram í verkefnum Skálholtskvartettsins varð stemningin ávalt þannig að hópurinn breyttist í eina stóra fjölskyldu, enda buðu aðstæðurnar oft upp á það. Á Sumartónleikum í Skálholti er rými fyrir nánustu aðstandendur flytjenda, sem voru oft að verja dýrmætum sumarfrítíma til tónlistariðkunar. Og ekki var aðbúnaður í Les Murs í Frakklandi síður til þess fallinn að skapa slíka stemningu. Oft voru Stefanía konan mín og börnin okkar með í för, þannig að við fengum öll að kynnast Jaap og njóta samvista við þennan einstaka persónuleika og kynnast eiginkonu hans, dætrum, tengdasonum og barnabörnum. Einnig kynntumst við fjölmörgu fólki frá ólíkum stöðum sem Jaap hafði unnið með yfir langan feril og deildu áhuga og lífsgildum með honum.

Fyrir hljóðfæraleikara eins og mig sem var frekar stutt kominn á ferlinum var það augljóslega einstakt lærdómsferli að fá að njóta reynslu Jaaps og vinna með honum að tónleikahaldi og hljóðritunum af þeirri stærðargráðu sem raunin varð. Jaap var óþrjótandi uppspretta fróðleiks, húmors og lífsgleði. Örlæti Jaaps var takmarkalaust, og ástríða hans fyrir því að miðla þekkingu sinni var hrífandi og bráðsmitandi. Íslenskt tónlistarfólk og tónlistarlíf hlaut ríflegan skerf af þeirri auðlind.

Hann var agaður og skipulagður og var alltaf kominn nokkrum skrefum á undan hinum; búinn að kryfja allt til mergjar í því sem verið var að vinna að hverju sinni. Þar að auki streymdu óhindrað frá honum nýjar hugmyndir að framtíðarverkefnum sem áfram urðu oft að verða að veruleika alveg framá níræðisaldur.

Jaap var mér einstök fyrirmynd. Ekki aðeins í tónlistarlegu tilliti heldur á allan hátt sem manneskja og kær vinur. Fyrir utan það hvað hann var vandaður persónuleiki og traustur, þá varpaði hann ljósi á ótal lykilatriði í sambandi við tónlist sem áralangt tónlistarnám mitt hafði lítið sem ekkert snert á. Hann fletti beint og óbeint ofan af ýmsum mýtum og ranghugmyndum sem höfðu síast inn hjá mér. Hann lét sína persónu aldrei standa í vegi fyrir verkunum sem hann vann að hverju sinni heldur var sönn og allt að því barnsleg forvitni og áhugi á viðfangsefninu ávalt drifkrafturinn. Hann hafði engan áhuga á að setja sjálfan sig sem hljóðfæraleikara og listamann í forgang heldur var tónlistin sjálf alltaf í sviðsljósinu. Hann rannsakaði jarðveginn sem tónskáldin uxu upp úr og skoðaði bæði samfélagslegar og persónulegar aðstæður þar sem verkin urðu til. Hann kynnti sér stíl og verklag, hvernig hljóðfærin voru og leitaði uppi sem nákvæmasta mynd af því hvernig leikið var á þau. Þessi nálgun er nú orðin frekar regla en undantekning þegar um er að ræða tónlistarmenn sem einbeita sér að upprunamiðuðum flutningi, enda er hún nú orðin viðtekin.

Sem frumkvöðull í upphafi varð Jaap að vera mjög einarður í afstöðu sinni og hann hafði síður en svo alltaf meðbyr. Það er auðvelt að skilja þessar aðstæður hlusti maður á flestar hljóðritanir frá sjötta til áttunda áratugnum á tónlist 17. og 18. aldar. Það er einkar heillandi hve hann fékk að njóta þessarar einlægni og forvitni allt þar til yfir lauk, alltaf eins og barn sem var að uppgötva eitthvað nýtt. Framundir nírætt var hann enn að endurskoða eigin aðferðir og tækni. T.d. fann hann út frá heimildum að fiðlubogar voru á ákveðnu tímabili barokksins mun styttri en áður hafði almennt verið talið. Þá kom hann sér upp slíkum boga og tileinkaði sér nýja tækni án vandræða.

2015 var síðasta árið sem Jaap kom til Íslands til að spila. Þá kom Skálholtskvartettinn fram á Sumartónleikum í Skálholti, á nítugasta og fimmta afmælisári Jaaps. Sama haust kom hann svo aftur í Skálholt til að hljóðrita strengjatríó eftir Schubert, Haydn og Boccherini. Þetta var að líkindum síðusta hljóðvershljóðritun sem Jaap tók þátt í. Áætla má út frá gögnum Sumartónleika í Skálholti að tónleikarnir sem Jaap lék á hér á landi hafi verið talsvert yfir hundrað talsins, þar af um níutíu á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Jaap kom síðast til Íslands í stutta hemsókn sumarið 2017. Hann hélt alla tíð góðum tengslum við samstarfsfélaga sína og vini á Íslandi sem höfðu smám saman bæst við þann stóra hóp sem Jaap hafði kynnst og unnið með bæði austan hafs og vestan.

---

[1] Bach Cantatas Website, sótt mars 2020, https://www.bach-cantatas.com/Bio/Harnoncourt-Nikolaus.htm

[2] Listi hljómplatna skrifaður af Jaap Schröder.

[3] Smithsonian Chamber Music Society, Artists, viðtal við Jaap Schröder, sótt í mars 2020,

https://www.smithsonianchambermusic.org/about/artists/jaap-schroder

[4] Musica Omnia katalógur, sótt mars 2020, https://www.musicaomnia.org/artist/the-atlantis-trio/

[5] Kolbeinn Bjarnason, Helguleikur (Reykjavík: Sæmundur, 2018)

[6] Smithsonian Chamber Music Society, Artists, viðtal við Jaap Schröder, sótt í mars 2020,

https://www.smithsonianchambermusic.org/about/artists/jaap-schroder

[7] https://www.bjorn.is/dagbok/

[8] Musica Omnia katalógur, sótt mars 2020,

[9] Musica Omnia katalógur, sótt mars 2020,

https://www.musicaomnia.org/release/schubert-in-skalholt-i/

[10]Musica Omnia katalógur, sótt mars 2020,

 https://www.musicaomnia.org/release/schubert-in-skalholt-ii/

[11] Musica Omnia katalógur, sótt mars 2020,

 https://www.dolmetsch.com/Dolworks.htm

[13] Með mismunandi stillikerfum er átt við innbyrðis afstöðu tónanna. Flest nútímahljóðfæri með fasta stillingu, t.d. píanó, eru í tempraðri stillingu. Þá eru einungis áttundirnar hreinar og öll hálftónsbil höfð nákvæmlega jafnstór.  Tónhæð er á hinn bóginn sú tíðni sem miðað er við. Þá er nótan A oftast notuð, og miða flestir við tíðnina 440 herz nú á tímum.

[14] Yannick Reinartz, „Paul Godwin - Eine Symphonie in Jazz“, sótt mars 2020,

https://grammophon-platten.de/page.php?77