Tónlistarskóli FÍH: Tildrög, stofnun, þróun og áhrif

[1]

Sigurður Flosason

Tónlistarskóli FÍH – Tónlistarskóli Félags íslenskra hljómlistarmanna. Er ekki eitthvað bogið við þetta nafn? Er nafnið ekki hreinlega þversögn til að byrja með? Getur verið að stéttarfélag tónlistarmanna reki skóla? Er ekki hlutverk stéttafélaga að vernda hagsmuni félagsmannanna og halda samkeppni í skefjum – ekki að skapa hana? Það er sama hvar ég er staddur í heiminum á meðal atvinnutónlistarmanna, kennara eða skólafólks – alltaf rekur viðstadda í rogastans yfir þessari sérkennilegu stöðu mála á Íslandi; að stéttarfélag tónlistarmanna reki þar tónlistarskóla! Mér vitanlega á þetta sér enga hliðstæðu í heiminum.

En hvernig bar þetta til? Fyrst er að geta þeirrar grunnstaðreyndar að Félag íslenskra hljómlistarmanna, sem upprunalega hét Félag íslenskra hljóðfæraleikara, var á sínum tíma einkum stofnað til þess að koma íslenskum hljóðfæraleikurum að á skemmtistöðum þar sem innfluttar hljómsveitir réðu ríkjum. Þetta var árið 1932 og við komum aftur að þessari staðreynd eftir augnablik en fyrst skulum við spóla áfram um nokkur ár.

Árið 1956 tók Félag íslenskra hljómlistarmanna hið sögufræga félagsheimili og skemmtistað Breiðfirðingbúð við Skólavörðustíg á leigu. Félagsmenn sáu ofsjónum yfir því sem þeir töldu vera ofsagróða veitingamanna í bænum og ákváðu því að reyna að reka skemmtistað sjálfir! Hin bjartsýna og bláeyga hugmynd félagsfoyrstunnar var sú að með þessu myndu rýrir sjóðir félagsins gildna eins og hendi væri veifað. Á fundi í aðdragandanaum stakk einn félagsmanna, fiðlu- og saxófónleikarinn Þorvaldur Steingrímsson, upp á því að félagið gæti líka rekið tónlistarskóla í Breiðfirðingabúð. Sennilega hefur hann hugsað sem svo að nýta mætti húsnæðið enn betur og mennta áhugasama nemendur á daginn. Svo virðist sem öllum viðstöddum hafi fundist þetta þjóðráð, þó svo að enginn stuðningur opinberra aðila væri fyrir hendi við slíka starfsemi.

Skólinn var rekinn um sex mánaða skeið veturinn 1956 til -57 og var Þorvaldur skólastjóri. Það er skemmst frá því að segja að tónlistarskólareksturinn stóð alls ekki undir sér og kannski gerði skemmtanahaldið það ekki heldur. Í öllu falli fór Breiðfirðingabúðarævintýrið lóðbeint á hausinn og stappaði nærri því að jarða félagið endanlega. Það kostaði félagsstjórnina ýtrustu þrautsegju, útsjónasemi og samningalipurð um nokkurra ára skeið að koma félaginu aftur á réttan kjöl.

Þó svo að rekstur fyrsta Tónlistarskóla FÍH hafi verið sú kollsteypa sem raun bar vitni lifði skólahugmyndin áfram í hugum forsvarsmanna félagsins. Einhver neisti hafði kviknað sem ekki vildi slokkna og í ársbyrjun 1973 var aftur farið að tala um endurreisn Tónlistarskóla FÍH á félagsfundum. Menn voru sammála um að hefja undirbúning þó svo að félagið stæði illa fjárhagslega – enda gerðist lítið til að byrja með. Vorið 1975 tóku gildi ný lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Samkvæmt þeim stóðu ríki og sveitarfélög sameiginlega undir kennslukostnaði með aðferðinni króna á móti krónu. Þetta styrkti þá skóla sem fyrir voru í landinu og varð til þess að tónlistarskólum fjölgaði umtalsvert á næstu árum. Í kjölfarið varð sú sprenging sem leiddi til landslagsins sem við þekkjum í dag – þar sem rúmlega 80 tónlistarskólar eru starfandi á landinu.

Nýju lögin urðu FÍH-liðum hvatning til að gera alvöru úr skólaáformunum. Árið 1977 var samþykkt á aðalfundi að hefja undirbúining að nýjum Tónlistarskóla FÍH fyrir alvöru. Leit hófst að hentugu húsnæði og árið 1979 var keypt önnur hæðin að Brautarholti 4 og skólinn tók svo til starfa haustið 1980. Hitann og þungann af undirbúiningi húsnæðis og skólastarfs báru verðandi skólastjóri Sigurður I. Snorrason, Snorri Örn Snorrason, yfirkennari klassískrar deildar frá upphafi til 2015 og síðast en ekki síst félagsformaðurinn Sverrir Garðarsson. Sverrir var í krafti embættis síns talsvert starfandi innan Alþýðusambands Íslands en alþýðumenntun og endurmenntun starfandi tónlistarmanna voru honum ofarlega í huga.

Í upphafi var boðið upp á þrjár námsleiðir; klassíska deild, jazzdeild og fullorðinsfræðsludeild. Klassískt tónlistarnám var auðvitað vel þekkt hér á landi en hinar tvær brautirnar voru nýjungar. Fullorðinsfræðsludeildin starfaði reyndar aðeins um tveggja ára skeið og einungis í formi fyrirlestra og hóptíma. Deildin komst í rauninni aldrei almennilega á legg. Hún ber samt skýrt vitni þeirri gömlu hugsjón félagsforystunnar að mennta starfandi tónlistarmenn og almenning, sem og að gefa fólki sem ekki átti þess kost að sækja nám til útlanda möguleika á menntun. Fólk á ýmsum aldri sótti reyndar hinar deildirnar tvær og því má segja að þær hafi líka mætt hugmyndafræðinni sem lá að baki skólaum; menn vildu lyfta, hjálpa og styðja. Fullyrða má að þessi göfuga hugsun hafi verið undirstaðan undir þeirri framsæknu og óhefðbundnu ákvörðun stéttarfélags að reka tónlistarskóla.

Lítum nú til baka og rifjum upp að baráttan við að koma Íslendingum í störf útlendinga á skemmtistöðum var rótin að stofnun félagsins árið 1932. Til þess að fylla þau störf þurfti þjóðin auðvitað að eiga hæft fólk á öll hljóðfæri í ýmsum stílum. Við áttum á þeim tíma reyndar nokkra mjög góða einstaklinga en hins vegar alls ekki marga. Ég er nokkuð viss um að eymt hefur eftir af þessari hugsun frá fjórða áratuginum í fyrstu skólaatrennunni árið 1956 og jafnvel líka þegar komið var fram undir 1980 – að skólanum sem við þekkjum í dag; að styrkja og fjölga í okkar stétt!

Þegar litið er til baka blasir við að stóra fréttin við stofnun Tónlistarskóla FÍH árið 1980 var jazzdeildin, en þá varð í fyrsta sinn mögulegt að sækja menntun á sviði þeirrar tónlistar hér á landi. Sú ákvörðun að bjóða upp á þetta nám átti eftir að hafa ótrúleg áhrif annarsvegar á íslenskt tónlistarlíf og hinsvegar á almenna þróun íslenskra tónlistarskóla og framboð tónlistakennslu á landinu, en meira um síðar.

Í upphafi voru kennarar jazzdeildarinnar ekki margir, enda höfðu fáir menntast erlendis á þessu sviði. Lykilkennari fyrstu árin var Vilhjálmur Guðjónsson en hann hafði verið í fjarnámi við Berklee College of Music í Boston og síðan dvalið þar sumarlangt og náð að ljúka stórum hluta kjarnanáms skólans. Vilhjálmur kenndi jazzhljómfræði, tónheyrn og útsetningar, að mestu byggt á Berklee fræðunum, af smitandi orku og áhuga. Jón Múli Árnason kenndi jazzsögu og miðlaði henni á sinn einstaka hátt upptendraður af eigin ástríðu fyrir málefninu. Samspil, grundvallaratriði í öllu rytmísku tónlistarnámi, var einnig í boði og í því samhengi minnist ég á fyrstu árunum sérstaklega Karls heitins Sighvatssonar og Reynis Sigurðssonar. Þó að teoríukennarar jazzdeildar væru ekki fleiri en tveir í byrjun var þetta í rauninni allt sem þurfti; grunnur í jazzhljómfræði, tónheyrn, útsetningum og sögu var neistinn sem kveikti í heilli kynslóð forvitinna ungmenna sem ruddust inn um þröngan ganginn sem leiddi inn í iðnaðarhverfisíbúðina sem nú var allt í einu orðin tónlistarskóli. Sá sem hér ritar var í þessum ungmennahópi.

Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég rak augun í auglýsingu í Morgunblaðinu við morgunverðarborð foreldra minna, líklega í ágústmánuði 1980, þá sextán ára gamall. Ég hafði verið nemandi í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og var líklega búinn með eitt ár í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ég sá þessa augýsingu og vissi um leið að þetta var það sem ég hafði verið að bíða eftir. Ég var byrjaður að fikta við að spila jazz og orðinn forfallinn hlustandi. Mér finnst ennþá ótrúlegt að foreldrar mínir hafi strax fallist á að ég ætti ekki bara að vera í einum tónlistarskóla heldur tveimur! Og mikið er ég þakklátur fyrir þeirra örlæti og víðsýni á því augnabliki því hún mótaði alla mína framtíð.

Námið við FÍH-skólann varð strax eftirsótt og vinsælt. Klassíska deildin gekk ágætlega en þar sem jazznámið var hvergi annarsstaðar í boði var eðlilegt að það hefði meira aðdráttarafl. Þannig gerðist það á næstu áratugum að klassíska deildin minnkað hægt og rólega og varð á endanum að næstum engu. Jazzdeildin stækkaði hinsvegar og oftast komust færri að en vildu.

Aðstæður skólans bötnuðu til muna við flutninga í Rauðagerði 27 haustið 1989. Þar voru keyptar eignir bílainnflytjandans Ingvars Helgasonar en áður hafði súkkulaðiverksmiðjan Amor verið rekin á sama stað. Árið 2004 var tekin í notkun viðbygging og salur endurnýjaður. Í viðbyggingunni voru meðal annars stór hópkennslustofa, æfingarými hljómsveita og hljóðver. Við þessar aðgerðir batnaði aðstaðan stórkostlega.

Fyrsti skólastjóri FÍH skólans var Sigurður Ingvi Snorrason. Hann vann ötullega að stofnun skólans og starfaði til 1988 en þá tók núverandi skólastjóri, Björn Th. Árnason, við en í hans tíð stækkaði skólinn og aðstæður bötnuðu mjög. Vilhjálmur Guðjónsson var, eins og áður segir, fyrsti yfirkennari jazzdeildar. Stefán S. Stefánsson tók við af honum árið 1985, nýútskrifaður frá Berklee með bakkalárgráðu upp á vasann. Stefán starfaði til árins 1989 en þá tók undirritaður við keflinu, einnig nýkominn úr námi og leiddi jazzdeildina til ársins 2017 eða í 28 ár – þangað til að efri hluti rytmískrar deildar skólans sameinaðist Tónlistarskólanum í Reykjavík í Menntaskóla í tónlist (MÍT) árið 2017. Í millitíðinni hafði starfstitillinn breyst í að vera aðstoðarskólastjóri og yfirmaður rytmískrar deildar. Snorri Sigurðarson tók við því starfi árið 2017 og gegnir því nú þegar þessi orð eru rituð.

Hægt og rólega stækkaði námsframboð jazzdeildarinnar, einkum í tengslum við fjölgun menntaðra kennara sem komu heim frá námi, margir úr hópi fyrstu nemenda skólans. Á meðal kennslugreina skólans á ólíkum tímum, auk hljómfræði, tónheyrnar, sögu og annarra grunnfaga, voru hljóðtækni (upptökur og hljóðstjórn), tölvutækni (tölvunótnaritun), atburðastjórnun, snarstefjun eða spunatækni, hlustun, lestur og stjórnun. Þá hefur samspil verið þungamiðja í kennslu skólans frá upphafi. Hér verður ekki rakin öll  þróun kennsluframboðs fjögurra áratuga en ef stiklað er á stóru, þá verður stofnun rytmískrar kennaradeildar FÍH skólans árið 1997 að teljast afdrifaríkur atburður, jafnvel sá afdrifaríkasti.

Kennaradeild Tónlistarskóla FÍH átti sér tvær fyrirmyndir. Annars vegar var horft til hljóðfærakennaranáms Tónlistarskólans í Reykjavik en hins vegar, og kannski enn frekar, var litið til rytmískra kennaradeilda Norrænna háskóla, einkum í Danmörku og Svíþjóð. Þar voru námslínur þar sem lögð var áhersla á að allir nemendur öðluðust grunn á algengustu hljóðfæri rytmískrar kennslu – gítar, bassa, hljómborð, trommur, handslagverk og söng. Þeir væru því fyrst og fremst sérhæfðir í rytmískri samspilskennslu á mjög breiðum grundvelli, en gætu einnig kennt grundvallartök á áðurnefnd hljóðfæri, helstu bóklegar greinar og auðvitað á sitt eigið hljóðfæri. Aukahljóðfæra- og samspilskennsla af þessu tagi varð þungamiðja í kennaranámi FÍH skólans en einnig lærðu nemendur kennslufræði, stjórnun, tónsmíðar, útsetningar, tónheyrn, hljóðtækni og tölvutækni svo eitthvað sé nefnt.

Stefnt var að því að búa til fjölhæfan, rytmískan tónlistarkennara sem gæti gert margt, meðal annars hafið rytmískt starf einn og óstuddur í litlum tónlistarskóla. Námið var tveggja ára viðbót við það sem fyrir var í FÍH skólanum en vel má rökstyðja að fyrirliggjandi nám skólans hafi náð langt inn á háskólastig. Enginn vafi er á að kennaradeildin var á háskólastigi þó engin væri viðurkenning opinberra aðila og alls enginn fjárstuðningur úr neinni átt. Kennaradeildin var hreinlega hugsjónastarf sem stjórnendur FÍH skólans lögðu út í. Það er í rauninni ekki fráleitt að tengja þessa fjárhagslega gölnu hugmynd við upphafshugsjónir skólans frá 1956; að deila þekkingu, lyfta standard og hjálpa þeim sem vilja bæta við sig með námi hér innanlands; að útbreiða fagnaðarerindið! Nemendur kennaradeildarinnar voru flestir um tvítugt þegar þeir hófu nám. Sumir voru þó eldri, þaulreyndir starfandi tónlistarmenn, eins og til dæmis Jóhann Ásmundsson bassaleikari Mezzoforte. Hann er lýsandi dæmi um eitt af því sem félagsforysta sjötta áratugar síðustu aldar sá líklega fyrir sér að Tónlistarskóli FÍH gæti gert; að endurmennta og styrkja starfandi tónlistarmenn.

Tíu hópar fóru í gegnum kennaranámið á þeim 19 árum sem deildin starfaði. Um 70 nemendur hófu nám og 43 útskrifuðust. Margir þeirra eru mjög virkir kennarar í dag og sumir skólastjórnendur. Óhætt er að fullyrða að þetta fólk hefur haft mikil áhrif með kennslu sinni og stjórnunarstörfum í fjölmörgum tónlistarskólum landsins. Eftir að kennaradeild FÍH skólans fór að útskrifa nemendur hafa verið stofnaðar rytmískar deildir í fjölmörgum tónlistarskólum og eru fyrrum kennaranemar FÍH skólans yfirmenn margra þeirra. Það er skoðun þess sem hér ritar að af mörgu góðu sem FÍH skólinn hefur lagt til þá sé kennaranámið líklega merkilegasta framlagið til þessa. Það hefur í raun breytt landslagi tónlistarkennslu á landinu.

Deildin starfaði til árisns 2016 en nú hefur námið flust um set yfir í Listaháskóla Íslands. Þar á það að sönnu heima og nú hillir loks undir að nemendur geti fengið bakkalárgráðu í rytmískri tónlistarkennslu á Íslandi, 40 árum eftir að kennsla hófst í Brautarholti 4.

Nemendafjöldi FÍH skólans var í byrjun rúmlega 100 nemendur, fór fljótlega í 150 en mest upp í 250. Það er því ekki óvarlegt að áætla að meðalnemendafjöldi hafi verið um 200 nemendur á ári þegar litið er yfir þessa fjóra áratugi sem skólinn mun hafa starfað í vor. Nemendur hafa dvalið mislengi í Tónlistarskóla FÍH, eins og öðrum tónlistarskólum. Sumir voru bara eitt ár en fimm til sex ár voru heldur ekki óalgeng. Sá sem lengst hefur verið til þessa var í fimmtán ár. Ef við gefum okkur að meðallengd námstíma í skólanum hafi verið þrjú ár getum við giskað á að tælega 3.000 nemendur hafi numið við skólann í lengri eða skemmri tíma. 173 hafa útskrifast en fjölmargir hafa farið nálægt því og í rauninni menntast talsvert mikið án þess að ljúka lokaprófi af neinu tagi.

Það er ekki hægt að halda fyrirlestur um skólamál árið 2019 án þess að minnast á kynjamál. Dyr FÍH skólans hafa ávallt verið opnar báðum kynjum og öllum tekið jafn vel. Stúlkur hafa verið í miklum meirihluta söngnema en lengst af fáar í öðrum greinum eins og því miður er landlægt í bæði rytmísku námi og störfum víðast hvar í heiminum. Þó hefur stúlkum fjölgað á síðustu árum í skólanum, einkum á trommur og er það gleðiefni. Af 173 útskrifarnemum í hljóðfæraleik eða söng eru 42 konur eða um 24%. Úr kennardeild hafa útskrifast 15 konur af 43 nemendum eða um 35%. Þetta gæti verið betra en það gæti sannarlega verið miklu verra.

Í skólanum hafa leiðir margra legið saman. Þar kynntust til dæmis meðlimir starfandi hljómsveita dagsins í dag á borð við Moses Hightower, Agent Fresco og AdHd. Stór hluti af hljómsveitinni Hjaltalín var líka við nám í skólanum með Sigríði Thorlacius í broddi fylkingar. Gröndalssystkynin Ragnheiður og Haukur uxu úr grasi í skólanum sem og bræðurnir Guðjónsson, Óskar og Ómar. Meira og minna öll íslenska jazzsenan er menntuð í skólanum. Þar má meðal annarra nefna Jóel Pálsson, Einar Scheving, Samúel J. Samúelsson, Hilmar Jensson, Davíð Þór Jónsson og Ara Braga Kárason, auk flestra meðlima Stórsveitar Reykjavíkur. Þekkastur þeirra sem hafa útskrifast af klassískri braut er hljómsveitarstjórinn og tónskáldið Daníel Bjarnason. Á fyrstu árum skólans, áður en útskriftir hófust, stunduðu nám við skólann áberandi jazztónlistarmenn undanfarinna áratuga, s.s. Tómas R. Einarsson, Skúli Sverrisson, sá sem hér ritar, Eyþór Gunnarsson og aðrir meðlimir hljómsveitarinnar Mezzoforte. Í eldri poppheiminum mætti m.a. telja upp ýmsa meðlimi hljómsveita á borð við Sálina hans Jóns míns og Ný-Danskrar, auk meirihluta þeirra einstaklinga sem verið hafa í framvarðasveit hljóðvera- og hljóðritunarbransans.

Þessir 3000 nemendur skólans, hvort sem þeir stöldruðu stutt eða lengi, hafa á liðnum áratugum komið við í öllum kimum rytmískrar tónlistar á Íslandi. Oftar en ekki eru þeir stór hluti hljómsveita og auk þess starfandi á fjölmörgum öðrum sviðum íslensks tónlistarlífs. Ég leyfi mér að fullyrða að Tónlistarskóli FÍH hafi lyft standard í rytmískri tónlist íslensku þjóðarinnar. Fyrir tilkomu skólans voru fáir góðir hljóðfæraleikar í boði á ýmis hljóðfæri. Nú er sú mynd allt önnur. Það er sama hvort við tölum um jazztrompetleikara eða popptrommara – það er nóg til. Standardinn er hár og fjölbreytnin er mikil. Allt byggir þetta á þeirri sérkennilegu staðreynd að það kom fram hugmynd á fámennum fundi árið 1956 og henni var fylgt eftir af alúð og áhuga í gegnum kynslóðir og áratugi. Íslenskt tónlistarlíf á Félagi íslenskra hljómlistarmanna sannarlega mikið að þakka!

Tónlistarskóli FÍH hefur breytt íslenskri tónlistarsögu með afgerandi hætti. Námskrá í rytmískri tónlist sem nú er kennt eftir víða um land, hefði aldrei orðið til ef ekki væri fyrir frumkvöðlastarf FÍH skólans. Rytmískt kennaranám Listaháskóla Íslands hefði heldur ekki orðið að veruleika. Íslenskar hljómsveitir, hvort heldur er á sviði jazz- eða popptónlistar, væru líka allt öðruvísi en þær eru í dag og almennur standard rytmískrar tónlistar væri umtalsvert lægri. Bæði tónlistin og tónlistarnámið væru með allt öðrum hætti.

Hver er þá lokapunktur þessa litla erindis? Jú, það var algerlega galin hugmynd þegar Félag íslenskra hljómlistarmanna stofnsetti tónlistarskóla á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur árið 1956. Nú, 63 árum síðar, hefur sú hugmynd borið ríkulegan ávöxt, ávöxt sem félagaforkólfana gat ekki órað fyrir, þó bjartsýnir væru fram úr hófi. Galnar hugmyndir eru góðar!

---

[1] Upphaflega flutt sem fyrirlestur á Hugarflugi, ráðstefnu Listaháskóla Íslands, 15. febrúar 2019.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda