Þrjár Prelúdíur eftir Henri Dutilleux

Edda Erlendsdóttir

Eftirfarandi er uppskrifaður tónleikafyrirlestur sem haldinn var við Tónlistardeild LHÍ, föstudaginn 3. febrúar 2017

Ég ætla að kynna fyrir ykkur franska tónskáldið Henri Dutilleux og flytja eftir hann Þrjár prelúdíur fyrir píanó.
Fyrst er hér dálítið tóndæmi. Þetta er brot úr  hljómsveitarverkinu Timbres, espace, mouvement, ou La nuit Étoilée eftir Dutilleux. Heitið þýðir á íslensku Hljómar, rými og hreyfing eða Stjörnubjört nóttin. Flytjendur eru BBC Philharmonic undir stjórn Yan Pascal Tortelier.

Tóndæmi 1: Timbres, espace, mouvement, ou "La nuit étoilée" eftir Dutilleux

Dutilleux sótti innblástur í samnefnt verk eftir hollenska málarann Vincent Van Gogh.  Um þetta málverk sagði Van Gogh í bréfi til bróður síns: „Þegar ég finn fyrir því sem kalla mætti trúarþörf fer ég út og mála stjörnurnar.“

mynd1-vangogh.jpg

Mynd 1: The Starry Night eftir Van Gogh

Henri Dutilleux fæddist í borginni Angers í Frakklandi árið 1916 og lést í París árið 2013. Ég sá hann oft á tónleikum í París, jafnvel þegar hann var orðinn háaldraður. Tók ég sérstaklega eftir því hvað hann var virðulegur, látlaus og vingjarnlegur. Hann var alltaf mjög vel klæddur, oft í tweedjakka og með litríka hálsklúta. Ég hef heyrt sagt að hann hafi samið allt fram á síðasta dag.

mynd2_dutilleux.jpg

Mynd 2: Henri Dutilleux

Dutilleux fæddist inn í listelskandi fjölskyldu. Faðir hans, sem var bóksali og prentari, spilaði ágætlega á fiðlu og móðir hans lék á píanó. Móðurafi hans var organisti og tónskáld  og langafi hans var listmálari. Það var því oft spiluð kammertónlist á heimilinu. Þannig kynntist Dutilleux verkum fyrir fiðlu og píanó, m.a eftir Cesar Franck, Fauré og Leleu sem tilheyra allir franska rómantíska skólanum. Enn fremur heyrði hann þar í fyrsta sinn fiðlusónötu eftir Debussy sem átti eftir að hafa mikil áhrif á hann.

Á fullorðinsárum varð Dutilleux eitt dáðasta tónskáld Frakka.  Það er oft talað um hann sem klassískasta nútímatónskáld 20. aldar. Hann tilheyrði engum sérstökum skóla en þau tónskáld sem höfðu helst áhrif á hann eru Debussy, Ravel, Roussel, Stravinsky og Bartók. Tónlist hans er mestmegnis atónal og þar fer lítið fyrir áhrifum frá rað- og módaltónlist. Hann sótti gjarnan innblástur í aðrar listgreinar svo sem bókmenntir og myndlist.

Ljóðræna og fínleiki einkenna verk hans. Hann lagði mikla áherslu á form og uppbyggingu en verk hans eru bæði persónuleg og heilsteypt. Hann var perfeksjónisti og endurskoðaði verk sín reglulega. Dutilleux var mjög sjálfstæður, hann fór sínar leiðir og hélt sig alla ævi fjarri hugmyndafræðilegum deilum og valdabrölti sem einkenndi franska tónlistarheiminn á seinni hluta 20. aldar. Þetta sjálfstæði varð þess valdandi að hann naut ekki sérstakrar velvildar þeirra sem mest bar á í tónlistarlífinu.

Henri Dutilleux samdi fá verk þrátt fyrir langt æviskeið. Hann naut þó alla tíð mikillar virðingar á alþjóðlegum vettvangi. Heimsfrægir tónlistarmenn á borð við George Szell, Isaac Stern, Anne-Sophie Mutter, Mstislav Rostropovich og Seiji Ozawa pöntuðu verk hjá honum.

Hann  samdi tvær sinfóníur, nokkur hljómsveitarverk og konserta fyrir fiðlu, sópran og selló. Eitt þekktasta verk hans er sellókonsertinn Tout un monde lointain ( Í fjarlægum heimi). Það er samið árið 1970 fyrir Rostropovich[1].

Dutilleux samdi nokkur kammerverk og einleiksverk, þar á meðal  strengjakvartettinn vinsæla Ainsi la nuit (Þannig er nóttin) og sellóverkið Trois Strophes au nom de Sacher (Þrjár strófur í nafni Sacher). Hér er brot úr þessu verki sem var pantað af Rostropovich og frumflutt af honum árið 1976.

Tóndæmi 2: Trois Strophes au nom de Sacher eftir Dutilleux í flutningi þýska sellistans David Geringas.

Hljómsveitarverkið The Shadows of Time er hugleiðing um missi. Það var samið árið 1995 í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Verkið er tileinkað Önnu Frank og öllum saklausum börnum þessa heims. Það er sérstaklega helgað Dagbók Önnu Frank því hún tengist minningu höfundarins sjálfs um franskt heimili fyrir munaðarlaus börn þar sem öll börnin voru send í útrýmingarbúðir nasista.  Í þriðja kafla verksins sem heitir La Mémoire des Ombres  (Minning skugganna) bætast þrjár barnsraddir við hljóðfærin. Dutilleux talar um þennan kafla sem hjarta verksins og fékk hugmyndina þegar hann heyrði börn kallast á og syngja á leiksvæði í nágrenni við vinnustofu hans. Þetta er mjög áhrifamikið verk og hvet ég ykkur til að hlusta á það, sem og á önnur verk eftir Dutilleux til þess að fá enn betri innsýn í tónheim hans.

Dutilleux  samdi um tíu verk fyrir píanó og er þar fyrst Sónata frá árinu 1946. Hann leit á hana sem eins konar ópus eitt. Hann sagði síðar að á þessum tíma hefði hann verið í ákafri leit að eigin tónsmíðaleiðum. Sú óvissa virðist þó ekki há sónötunni sem er glæsilegt verk og gífurlega vinsælt. Það er oft sagt að í píanóverkunum hafi hugmyndir hans kristallast hvað best og hann hafi síðan getað útfært þessar píanósmíðar fyrir hljóðfærahópa og hljómsveitir. Dutilleux var giftur píanóleikaranum Genivieve Joy og frumflutti hún flest píanóverka hans. Ég man vel eftir henni því hún kenndi kammertónlist við Tónlistarháskólann í París þar sem ég lærði. Ég get ímyndað mér hvað það hefur verið stórkostlegt fyrir tónskáldið að hafa við hlið sér svo frábæran píanista.

Dutilleux samdi Þrjár Prelúdíur fyrir píanó á árunum 1973 til 1988.  Um þær segir hann meðal annars: „Ég vil þokkafullan píanóleik, ekki tilfinningaþrunginn en frekar eins og glitrandi demant.“ Í þessum verkum spilar hann á möguleika hljóðfærisins til hins ýtrasta. Allt hljómborðið fær hlutverk í sterkum andstæðum í öllum regnbogans litum, sem litróf pedalsins tengir saman. Ákveðnar lykilnótur og endurteknir hljómar í alls kyns tilbrigðum og spegilmyndum ganga eins og rauður þráður í gegnum verkin. Dýnamíkin er hárfín og mjög nákvæm þar sem brotnir hljómar renna upp og niður, sundur og saman, milli handanna. Ég hafði  kennt þessar prelúdíur nokkrum sinnum og hugsaði oft um hvað væri gaman að læra þær einhvern tíma. Þegar mér bauðst að halda einleikstónleika á Myrkum Músíkdögum fann ég loksins tækifæri til þess að koma því í verk. Ég flutti þær á Myrkum Músíkdögum í Hörpu í sömu viku og Henri Dutilleux átti aldarafmæli, sem bar upp á 22. janúar 2016. Þetta var frumflutningur verkanna á Íslandi.

Mig langar nú að segja í fáum orðum frá minni reynslu af nútímatónlist sem flytjandi.  Ég hef ætíð spilað mikið af nýrri tónlist eða módernískri tónlist samhliða því að spila klassísk verk og helst vil ég blanda þessu saman á tónleikum.

Á fyrstu einleikstónleikunum mínum á Kjarvalstöðum 3. janúar 1981 stefndi ég saman Vínarskólunum tveimur með Schubert ásamt Schönberg, Webern og Alban Berg. Ég man hvað mér fannst spennandi að læra verkin frá seinni Vínarskólanum, einkum Drei Klavierstücke op. 11 eftir Schönberg, sem samið er 1909. Þar var sérstaklega 3. kaflinn sem gerði kröfu um tæknilega nálgun sem var gerólík því sem ég hafði áður kynnst. Hann er mjög róttækur og villtur. Verkið í heild sinni ruddi braut nýjum aðferðum í tónsmíðum og opnaði fyrir mér nýjan heim og nýtt  tónmál. Nokkrum árum seinna fékk ég tækifæri til að spila Kammerkonsert eftir Alban Berg fyrir fiðlu, píanó og 13 blásara ásamt Einari G. Sveinbjörnssyni fiðluleikara og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta var frumflutningur á Íslandi og var flutt í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Albans Bergs. Ég var marga mánuði að læra þetta krefjandi verk og á þessum tíma kenndi ég við Tónlistarháskólann í Lyon og notaði lestarferðirnar milli París og Lyon til að lesa og læra verkið. Þessar lestarferðir sem stóðu í ellefu ár kenndu mér svo sannarlega að það er hægt að læra verk án þess að vera alltaf við hljóðfærið.

Annað ævintýri var að æfa fyrstu Sónötuna eftir Pierre Boulez sem ég flutti á Myrkum Músíkdögum árið 1991. Það var einnig frumflutningur á Íslandi. Þá var eins og ég væri einfaldlega komin á aðra plánetu og eftir það fannst mér ég fær í flestan sjó.  Þetta var eins og einskonar frelsun frá klassískri píanótækni og opnaði sjóndeildarhringinn upp á gátt. Í framhaldi þess flutti ég Twine eftir Magnus Lindberg og eftir að hafa spilað það nokkrum sinnum á tónleikum lét ég það gott heita. Þetta verk var einum of krefjandi tæknilega og jafnvel líkamlega. Ég þekki Magnús ágætlega, hann er skemmtilegur maður en hér fannst mér ég ekki uppskera í samræmi við erfiðið.  Maður verður auðvitað fyrst og fremst að hafa gaman af því að æfa og spila nýja tónlist og reyndar alla tónlist.

Nú á seinni árum hef ég spilað frekar rómantísk og klassísk verk en svo kom þessi dásemd, Þrjár Prelúdíur eftir Dutilleux, upp í hendurnar á mér. Ég byrjaði að læra þær þegar ég var að rísa upp eftir stóran hjartauppskurð og þótt ég gæti varla staulast um gat ég setið tímunum saman og æft Dutilleux. Hann fylgdi mér allt bataferlið og tónlistin hans varð mín heilun.  Þarna fannst mér fyrirhöfnin margfalt endurgoldin í tónlistinni. Takk herra Dutilleux!

Ég mun nú flytja Prelúdíur hans. Þessi flutningur minn er frá tónleikum á Myrkum Músikdögum í janúar 2016 sem teknir voru upp af Ríkisútvarpinu.                                                         

Tóndæmi 3: Prelúdía nr. 1, D’ombre et de silence (Skuggar og þögn), 1973 

Tóndæmi 4: Prelúdía nr. 2, Sur un même accord (Á sama hljómi), 1976

Tóndæmi 5: Prelúdía nr. 3, Le jeu des contraires  (Leikið með andstæður), 1988 

---

[1] Sæunn Þorsteinsdóttir lék þetta verk með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2011.

 

 

 

 

 

 

 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda