Stafrænt samtal um barnatónleikhús

Elín Gunnlaugsdóttir og Atli Ingólfsson

Elín og Atli tóku tal saman í stuttu kennsluhléi. Þegar talið barst að barnaóperum kom í ljós að hvorugt þeirra gat látið staðar numið þegar þurfti að slíta samræðunum. Það varð því úr að færa samskiptin inn í opna skrá á netinu og halda áfram þar. Það sem á eftir fer er afrakstur þeirra samskipta og stendur því nokkurn veginn mitt á milli þess að vera samtal og bréfaskipti.

Atli:
Við vorum að ræða um barnaóperur á kaffistofunni um daginn. Þegar stóð til að ég semdi barnatónleikhúsverk hér um árið dró ég upp dálítinn lista yfir helstu markmið mín.[1] Ég stóð náttúrulega ekki við þetta allt saman, en svona leit hann út:
1) Hljóð eru hluti af atburðum og framvindu verksins. 2) Áheyrendur taka að vissu marki þátt í að fást við heimspekilegar spurningar, svo sem eins og „hvers vegna getum við ekki drukkið sand?” eða „til hvers eru blóm?” 3) Ákveðin áhrif frá ævintýrum og sjónhverfingum og talsverð áhrif frá sirkússýningum. 4) Rannsókn á samblöndun skynsviða (t.d. litur hljóða eða hljómur hugtaka). 5) Söguþráður sem virðist opinn og þróast ekki línulega heldur breiðir úr sér í allar áttir. 6) Samtal ólíkra byggingarvídda (rytmi hefur áhrif á texta, hreyfingar á tónlist, tónlist á ljós o.s.frv.). 7) Í stað þess að vera strangt til tekið persónur eru leikararnir sýndir sem safn möguleika í samspili hver við annan. 8) Söngur og önnur auðgripin og sefjandi tónlist er mikilvæg en er hluti af því sem áhorfendur uppgötva, þetta eru ekki fyrirframgefin umgjörð verksins. 9) Áhorfendur taka dálítinn þátt í tónlistarflutningnum. 10) Sterk áhrif farsa og hátíðahalda. Hið kómíska og hið heimspekilega eru mjög gefandi blanda. Visst hátíðaryfirbragð hjálpar við að halda athygli áhorfenda.
Ég held það örli ekki á 9. lið í verkinu, en heldurðu að þú mundir skrifa undir svona manifestó?

Elín:
Ég veit ekki alveg hvort ég skrifa undir allt sem stendur þarna en margt. Ég held t.d. að leikurinn sé sterkur þáttur í upplifun barna, þá á ég við það að leika sér. Ég hélt lengi að söguþráðurinn skipti miklu máli en þegar ég skrifaði verkið Drekinn innra með mér var sagan ekki beint línuleg frásögn heldur var drekinn tákn fyrir tilfinningar barnsins og segja má að sagan hafi verið sett saman af stuttum frásögnum sem skýrðu þessar tilfinningar. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að það yrði erfitt að halda athygli barnanna en okkur sem stóðum að þessu tókst að halda henni allan tímann. Börnin hlustuðu mjög vel! Vitanlega var margt annað en tónlistin sem hélt þeim við efnið eins og myndir sem varpað var á tjald og dans.
Það er því gott að það sé mikið um að vera, dálítið fjör eins og þú nefnir í þriðja lið.
Mér finnst líka gaman þegar ég er að skrifa fyrir börn að vinna með hljóðheim 20. og 21. aldar, en reyni að blanda því saman við tónheim sem þau þekkja. Mér finnst það beinlínis skylda okkar sem skrifum fyrir börn að vanmeta þau ekki eða eins og þú segir í textanum um Annarleik: ,,Við erum sannfærð um að börn eigi rétt á alvarlegum listaverkum sem hæfa þeirra skynræna og vitsmunalega þroska.”[2]
Í raun fylgir því mikið frelsi að skrifa fyrir börn, þau koma yfirleitt ekki með neinar fyrirfram gefnar skoðanir á tónleikana. Þau upplifa og rannsaka.

Atli:
Já, einmitt, ekki að tala niður til þeirra. Ég er þó svo sem ekki viss um að alltaf þurfi að hafa mikið fjör. Mér leist nokkuð vel á hugmyndina að Buchettino hjá Societas Raffaello Sanzio. Það var barnaleikrit þar sem börnum var boðið að skríða inn um göng, þar komu þau í rými með kojum og teppum, lögðust í rúmin og leikari las fyrir þau grípandi sögu. Aðalatriðið er einhver sterk upplifun, hvort sem hún kemur frá hljóðinu, sögunni, leiknum, umhverfinu eða hvað það nú er. Hún getur semsé verið innileg án þess að það séu læti.

Elín:
Það er sennilega rétt. Það þarf ekki endilega að vera fjör. Upplifunin skiptir máli.

barnaopera-mynd_1.jpg

Mynd 1: Play Alter Native, Gautaborg, 2012: Anna Forsell og Niclas Fransson með börnum úr Oscar Fredriksskolan

Atli:
En má ég leiða talið örlítið á ská: Hefurðu séð Fílinn Babar eftir Poulenc? Nú eða Pétur og úlfinn eftir Prokofiev? Hvernig finnst þér það leikhús?

Elín:
Ég ólst upp við að hlusta á Pétur og úlfinn eftir Prokofiev svo væntanlega hefur verkið haft einhver áhrif á mig! Í verkinu tekst höfundi að sameina mjög vel það að segja ævintýri og svo að kenna börnum að þekkja sinfóníuhljómsveitina. Mér finnst þetta gott verk en það þarf samt ekki endilega að skrifa fleiri í þessum anda! Britten skrifaði svo verkið Hljómsveitin kynnir sig sem er með svipað markmið: Það að kynna sinfóníuhljómsveitina.
Ég held að ég hafi heyrt Fílinn Babar en man ekkert sérstaklega eftir því verki. En það að segja sögu með sögumanni og hljómsveit eða litlum hljóðfærahópi finnst mér skemmtilegt á margan hátt. Tónlistin er þá notuð til að dýpka söguna og tónskáldið hefur mjög mikið frelsi hvað varðar stíl og annað. Flytjendur eru allir vel þjálfaðir tónlistarmenn og sögumaðurinn væntanlega leikaramenntaður. Það er í raun erfiðara að skrifa verk þar sem börn eru líka flytjendur og þá verður að skilgreina vel það sem þau gera.
Annmarkar við svona tónlistarævintýri er að börnin verða dálítið passívir hlustendur. Þess vegna held ég að það gæti verið gaman að reyna að sameina þetta að gera tónlistarævintýri þar sem börnin eru virkir þátttakendur í sögunni og sögumaðurinn eins konar leikstjóri eða verkstjóri.

Atli:
Heyrðu, í Play Alter Native dreymdi okkur um dálítið lifandi þátttöku, en það átti reyndar við um börnin sem fluttu verkið: Við vildum að þau lærðu músíkina vel, en að á sviði væru þau mikið til óþjálfuð. Ég man eftir einu skipti sem stúlka gekk ákveðin inn á sviðið á kolröngum tíma, stóð þar stutta stund og labbaði svo út hin rólegasta. Þetta var ljómandi fínt atriði! Það væri gaman að halda lífi í leiknum bæði hjá áhorfendum og flytjendum. Þrautþjálfuð börn?...Æ, til hvers þá að vera með börn á sviðinu. Mér finnst það ekki áhugavert.

Elín:
Hvað finnst þér annars um svona verk eins og þau sem þú nefndir að ofan?

Atli:
Hér er ég mjög tvístígandi og stundum þoli ég ekki þessi verk. Þú hittir nefnilega naglann á höfuðið að börnin verða svo hlutlaus í hlustun, en líka frá leikrænu sjónarhorni þá finnst mér mjög pirrandi að hljóðfærin séu þarna bara til að búa til einhverjar hljóðrænar skrípamyndir af því sem textinn er búinn að segja. Þetta er afleitt leikhús, en hefur svo sem sannað sig á tónleikum. Þessi verk mega alveg vera til, en reynum nú að vinna eitthvað betur úr þessari aðstöðu, áhugasöm börn –  bestu hlustendur sem hugsast getur – færir hljóðfæraleikarar og leikarar. Augnablikið verður einhvern veginn ekki lifandi ef það er bara lesin bók, varpað myndum á skjá og spilaðir hermitónar.
Hugsanlega er það líka spurningin um erindi þessara verka sem plagar mig. Er það virkilega efni í listaverk að kenna börnum að þekkja muninn á óbói og fiðlu?

Elín:
Þetta er mjög róttæk afstaða! Mér finnst þetta form eiga alveg rétt á sér. Hermitónlist hefur verið til lengi og hefur ekki bara verið notuð í barnamúsík og mér finnst ekkert að því að nota hana til að koma sögunni á framfæri. Eitt af eldri hermitónlistarverkum sem ég man eftir eru Árstíðirnar eftir Vivaldi og ég held að það séu ekki allir tilbúnir til að kalla það verk ,,hljóðrænar skrípamyndir“. Texti verksins er reyndar ekki lesinn um leið í hermitónlist svo áheyrandinn hefur þá væntanlega meira frelsi til túlkunar. En það að segja sögu á þennan hátt getur verið ofnotað eins og allt sem virkar vel. Það þarf ekki heldur að segja sögu bara með eins konar hermitónlist. Saga dátans eftir Stravinsky er gott dæmi um það. Það verk er skrifað fyrir fullorðna og það hvernig sagan er sögð gæti alveg virkað í verki fyrir börn.
Margir skrifa líka barnaóperur en ég er ekki mjög hrifin af því formi. Þegar mér bauðst að skrifa barnaóperu skrifaði ég heldur söngleik. Mér finnst nefnilega gaman að blanda saman töluðum texta og tónlist. Og mér finnst alltaf dálítið skrítið þegar fólk fer að syngja venjuleg samtöl. Saga óperunnar er líka mjög karllæg og því fannst mér skipta máli að aðalpersónan í söngleiknum væri áræðin og uppátækjasöm stúlka. Það er líka hægt nota röddina á svo miklu fjölbreyttari hátt en bara í söng.

Atli:
Það er rétt hjá þér að sungin samtöl eru nokkuð sem börn eiga líkast til erfitt með. Þetta plagar auðvitað óperuna: Textinn er svo óskaplega hægur.

Elín:
Já, og hvað finnst þér um barnaóperur?

Atli:  
Kannski er barnaópera, hugtakið sjálft, bara þversögn. Þær sögulegu ástæður sem gátu af sér óperuna og þróun formsins í þrjár aldir eru býsna langt frá því að minna á eitthvað barnslegt. Ég er hins vegar talsmaður þess að nota óperuhugtakið í sem víðustum skilningi þannig að við ættum kannski bara að leggja upp í ferð til að uppgötva hvað í ósköpunum þetta orð gæti þýtt.
Það er að vissu leyti frelsandi að kalla þetta bara tónleikhús fyrir börn og nota ekki óperuhugtakið (við tókum þá ákvörðun við kynningu á Annarleik). Og kannski finna bara upp eitthvert form.
Þér finnst ég róttækur í afstöðu til tónlistar sem hljóðskreytir frásagnir með því að „tákna“ efni þeirra, en sjáðu til, er þetta ekki óvirðing við skynsemi okkar og bara kjánalegt að segja eitthvað og reyna svo að segja það aftur með tónum? Þar geri ég engan greinarmun á fullorðnum og börnum...en auðvitað má grínast með þessu.

elin-ai_mynd2.jpg

Mynd 2: Úr söngleiknum Björt í sumarhúsi (2015) eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta eftir Þórarin Eldjárn (mynd © Alda Villiljós)

Elín:
En varðandi tónlistarævintýrin þá hafa barnatónleikar SÍ verið dálítið eins og þú lýsir hér að ofan. Hverju myndir þú vilja breyta þar? Sinfóníuhljómsveit Íslands er ansi öflug stofnun og hefði möguleika á að vera í fararbroddi í nýrri tónlist fyrir börn eða eigum við kannski að segja í tónsköpun með börnum sem virkum hlustendum og þátttakendum. Já, og svo auðvitað líka Íslenska óperan.

Atli:
Barnatónleikar SÍ eru áhugavert fyrirbæri og eru líklega mikilvægur þáttur í markaðssetningu hljómsveitarinnar því foreldrarnir sem mæta læra að meta hljómsveitina, bera fyrir henni virðingu og verða smám saman góður pólitískur grunnur sem svona apparat þarf á að halda. Ég skil það vel. Svo hef ég á öðrum stað varið hugmyndina um snobb, það er bara ágætt eldsneyti fyrir listina og því af hinu góða. Ég hugsa að börnin fái ekki mikla leikhúsupplifun út úr þessu, en gleymum þó ekki að gott hljóðbað í boði sinfóníuhljómsveitar snertir sálina, og líka litlu sálirnar...þar með er ég kannski að segja að sinfóníutónleikar fullnægi hugsanlega betur mörgum skilyrðum góðs leikhúss en barnaópera.
Ætli mín niðurstaða sé ekki sú að það sé mikilvægt að fá nýja hlustendur á öllum aldri til að upplifa þennan galdrahljóðheim sem sinfóníuhljómsveit er, það sé því ágætt að bjóða upp á barnatónleika. Kannski er gott að svona fyrirbæri reyni ekki að vera annað en það er. Sinfóníuhljómsveit er afar ósveigjanleg á að líta, hæpið að það geti orðið að góðu leikhúsi. Hún ætti sennilega að einbeita sér að því að leiða börn inn í ævintýri hljóðsins. Ég held það sé það sem virkar í sýningum eins og Maximús Músikus t.d. En svo það sem á að heita barnatónleikhús er auðvitað eitthvað annað.

Elín:
Mér finnst tónleikhús skemmtilegt hugtak og hef meira að segja notað það um eitt verk sem ég gerði. Í hugtakinu felst mikið frelsi og það er einmitt það sem tónlist fyrir börn og með börnum snýst um. Frelsi. Börnum finnst yfirleitt tónlist ekki skrýtin, ég held að þau hafi í raun ekki forsendur til þess. Það erum frekar við fullorðna fólkið sem setjum listir í ákveðnar skúffur. Kannski eru barnatónleikar SÍ því líka tónlistaruppeldi fyrir hina fullorðnu. Gera þá áhugasama um ýmsar gerðir af sinfónískri tónlist og því líklegri til að styðja hennar ágæta starf. Ég er kannski komin í hring hérna...
Ég held að við megum heldur ekki gleyma okkur í því að gera bara tónlist fyrir börn heldur verðum við líka að gera hana með börn sem þátttakendur í huga.

Atli:
Nú erum við að nálgast sameiginlega stefnuskrá: „Ekki tónlist fyrir börn heldur tónlist á börn.“ Hvernig líst þér á?

Elín:
Ég er ekki viss um að ég skilji alveg hvað þú átt við en það skýrist kannski þegar við byrjum.
En varðandi stefnuskrá, þar mætti standa:
Tónleikhús ætlað börnum ætti að miða að því að börn taki að einhverju leyti þátt í verkinu, bæði sem flytjendur og áheyrendur.

Atli:
Ég á við að maður prjónar ekki peysu fyrir barn heldur á það. Barnið á ekki að horfa á peysuna heldur að ganga í henni. Og þannig á verkið að vera:
Tónleikhús ætlað börnum á að umlykja þau eins og peysa og vera jafn áþreifanlegt og satt og hún. Má líka stinga.

Elín:
Peysan má þá væntanlega líka vera mjúk! Höldum áfram með prjónaskapinn. Þegar barnið sér einhvern prjóna þá langar það líka stundum til að prófa sjálft.
Tónleikhús ætlað börnum ætti að miða að því að vekja forvitni og löngun þeirra til að skapa eigin verk út frá því sem þau upplifa.

Atli:
Ég áttaði mig á því að mér þykir tónleikhús fyrir börn mjög áhugaverð leið til að tala til fullorðinna, eiginlega bara átylla til að vera frjálsari eða beinskeyttari í tali, rétt eins og trúðsnefið. Ef það er eitthvað varið í þetta þá erum við auðvitað að tala jafnt til fullorðinna sem barna, því þessi börn sem sjá sýninguna eru fullorðnir framtíðarinnar. Sjáðu Lewis Caroll, H.C. Andersen, de Saint-Éxupery eða Lindgren, þetta lifir innra með manni, eins og fræ sem berast inn um glugga barnssálarinnar og dafna og þroskast fram á fullorðinsár. Ergo:
Tónleikhús ætlað börnum ætti að vera fyrir fullorðna.

Elín:
Ég er sammála. Þannig er líka góður kveðskapur ætlaður börnum. Fullorðnum leiðist ekki yfir honum. Börn þurfa ekki heldur endilega að skilja allt strax. Stundum er líka gaman að skilja þýðingu einhvers dögum eða jafnvel vikum seinna. Hver kannast ekki við að hafa lært t.d. vísu sem barn og hefur skilið hana á sinn hátt á þeim tíma en leggur svo allt annan skilning í hana seinna meir.
Tónleikhús ætlað börnum má vera dálítið flókið. Börnin þurfa ekki að skilja allt strax.

Atli:
Heyr, heyr! Ef skynrænt viðmót verksins er sannfærandi eiga börn auðvelt með að finna sinn eigin skilning. Þar er engin stíf rökvísi að þvælast fyrir þeim. Ég sagði þér manstu frá sögunni um manninn sem stal Þingvallavatni. Þegar barn sagði að það væri ekki hægt útskýrði ég mjög sannfærður að maður setti bara krók í það og drægi burt á bílnum og sú skýring var tekin fullkomlega góð og gild svo sagan gæti haldið áfram. Og þannig er nú blessaður veruleikinn hjá okkur fullorðnum, það er margt sem við ekki skiljum en við látum eins og ekkert sé og höldum fram veginn:
Tónleikhús ætlað börnum þarf að vera óraunsætt til að vera satt.
Ég hef ekkert á móti raunsæjum sögum...finnst bara leikhúsið krefjast stærri veruleika en það, ég er að tala um eins konar handanraunsæi (sem sagt ekki skrumskælingu eða súrrealisma eða einhvern öðruvísisma). Skýringin á því hvernig á að stela stöðuvatni er rökrétt, bara ekki raunrétt. Sagan um úlfinn sem dulbýr sig sem ömmu er rökrétt en ekki raunsæ, þannig eru góð ævintýri.
En látum þetta líka gilda fyrir tónmálið. Ef það er of línulegt og fyrirsjáanlegt erum við að afneita galdri leikhússins. Þannig að það sem þú segir um nýrra og eldra tónmál tek ég undir en ástæður þess eru leikhúslegar og ekki þær að mér beri skylda til að kynna börn fyrir einhverju tilteknu tónmáli.

Elín:
Þegar ég segi að það sé skylda okkar að kynna nýtt tónmál fyrir börnum þá á ég við að listin endurspegli samtímann. Það má líka alveg gera tilraunir í tónlist sem ætluð er börnum! Stundum finnst mér tónlist í barnaverkum, hvort sem það eru leikverk eða önnur verk, vera full af klisjum. Verum dálítið djörf! Við megum ekki heldur gleyma að leika okkur. Börn læra og upplifa í gegnum leik. Leyfum þeim að rannsaka og uppgötva hluti í tónlistinni sem við berum á borð fyrir þau. Oft þegar við erum að semja tökum við okkur allt of alvarlega, stundum er allt í lagi að sleppa tökunum og bara leika sér!
Tónleikhús ætlað börnum á ekki að taka sig of alvarlega. Það er allt í lagi að bara vera og leika sér.

Atli:
Satt segirðu með klisjurnar, en það er jú listræn skylda okkar hvort sem er að forðast klisjur. Og þetta með að uppgötva...eru börn og fullorðnir ekki í nákvæmlega sömu stöðu hvað það varðar? Fullorðnir geta ekki gert ráð fyrir að vita eitthvað meira um tónlistina okkar en börnin, en eru samt stundum fordómafyllri.
Ég skynja í orðum þínum um „að taka okkur alvarlega“ búi hugmyndin um tónskáldið sem þarf að bera ábyrgð á tugmilljóna sviðsetningu og reynir því að „falla í kramið“ því það tekur sig alvarlega í viðskiptum...og þorir þá kannski engu. Listræn alvara er annað, þar er leikur, tilraun, áhætta, ógn, gleði:
Tónleikhús ætlað börnum rífur sundur veruleikann af sama sakleysi og ákefð og fjögurra ára barn skemmir vekjaraklukku.

Elín:
Eru þetta ekki ágætis lokaorð? Ég er í það minnsta komin með fullt af hugmyndum fyrir næsta verk hvort sem það verður fyrir börn eða fullorðna.

Atli:
Jú, þar mætti ljúka hugleiðingum um innihaldið, en leyfist mér að bæta dálitlu við um kostnað við barnasýningar? Börn nota föt sem eru nokkrum númerum smærri en okkar, ætli það sé þess vegna sem sumir halda að sýningar fyrir börn eigi að kosta mörgum sinnum minna en fyrir fullorðna?
Fjárveitingar til barnamenningar miða oft að því að dreifa sem smæstum upphæðum á sem flesta staði. Þá er eiginlega gengið út frá því að gæði séu ekki eftirsóknarverð heldur magn. En gæði eru yfirleitt dýr og sá sem semur fyrir börn borðar víst jafn mikið og hinn sem semur fyrir fullorðna...

Elín:
Ég er alveg sammála þessu. Þeir listamenn sem sinna barnamenningu eru ekki heldur minni listamenn og eins og ég hef nefnt áður þá gefur það að skrifa tónlist fyrir börn (eða „á börn“) tónskáldinu jafnvel meira listrænt frelsi. Það að skrifa fyrir börn er list og ætti að vera tekið jafn alvarlega og önnur list. Eru það ekki ágætis lokaorð?

Atli:
Sannarlega. Má ég nokkuð taka saman í lokin þessa punkta?

Eftirmáli: ófullgerð og sundurlaus lögmálstafla barnatónleikhússins

  • Það skal ekki samið fyrir heldur á börn
  • Það skal miða að því að börn taki að einhverju leyti þátt í verkinu, bæði sem flytjendur og áheyrendur.
  • Það skal umlykja börnin eins og peysa og vera jafn áþreifanlegt og satt og hún. Má líka stinga.
  • Það skal miða að því að vekja forvitni og löngun barna til að skapa eigin verk út frá því sem þau upplifa.
  • Það skal vera fyrir fullorðna.
  • Það má vera dálítið flókið. Börnin þurfa ekki að skilja allt strax.
  • Það þarf að vera óraunsætt til að vera satt.
  • Það skal ekki taka sig of alvarlega. Má bara vera og leika sér.
  • Það skal rífa sundur veruleikann af sama sakleysi og ákefð og fjögurra ára barn skemmir vekjaraklukku.

​---


[1] Hér er átt við Play Alter Native, sem var frumsýnt í Gautaborg í mars 2012 en síðar sýnt í íslenskri þýðingu sem Annarleikur í Hafnarborg í október 2017. Textinn er eftir Finn Iunker og verkið var framleitt af Cinnober leikhúsinu.

[2] Hér er vísað í texta sem Atli sendi Elínu en er ekki birtur hér.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda