Hugleiðingar um flata nútíð

[1]

Atli Ingólfsson

Hafa lesendur ekki tekið eftir því að nokkrar breytingar eru að verða á sjálfri staðsetningu tónlistarinnar í heiminum?[2] Á það þá ekki líka við um þýðingu hennar? Þannig tala margir sem um málið fjalla og það er hvorki duttlungafull ágiskun né óskhyggja sem hér býr að baki. Þetta er tilraun til að skilja og lýsa orðnum hlut, breytingum sem verða ekki stöðvaðar.

Þetta er þó vissulega nokkuð sem ennþá er erfitt að ná utan um. Hvernig getur það verið að sá veruleiki sem við ólumst upp við sé gufaður upp? Var Telefunken skápurinn þá ekki eins eilífur og hann leit út fyrir að vera?[3]

Líklega eigum við ekki annarra kosta völ en að stíga skrefið inn í þetta nýja landslag og reyna að fóta okkur. Ég held að mannsandinn hafi oft áður tekist á við hliðstæðar sviptingar. Kannski var það bara gott að þetta breyttist því annars var lífinu eiginlega lokið þarna fyrir framan hljóðskápinn.

Þetta er allt að breytast, en það er ekki auðvelt fyrir neinn að átta sig fyllilega á því hvar við stöndum. Það veit barnið svosem ekki heldur þegar það fæðist. Eigum við að þora þessu?

Tónskáldið Pierre Boulez var á langri starfsævi einn skarpasti talsmaður og hugsuður nýrrar tónlistar og setti ávallt fram af mikilli nákvæmni hugmyndir sem voru þó oftast langt í frá óumdeilanlegar. Á einum stað ræðir hann tónverk fyrir slagverkshjóðfæri, þau þeirra sem ekki spila tiltekna tóna heldur gefa bara frá sér margvísleg hljóð. Hann telur að þessi tónverk megi að vísu smíða haganlega en að þau geti aldrei orðið jafn áhugaverð og tónverk með tónum; það vanti sem sagt eitt lag af upplýsingum sem á einhvern hátt gerðu verkin dýpri.

Það er nokkuð langt síðan ég las þetta – enda búinn að gleyma hvar það stóð[4]. En ég man að mér fannst ég skilja þetta. Þetta var eðlileg afstaða nútímatónskálds sem hafði lagt svo mikla vinnu í að endurhugsa og þróa tón-málið, finna leiðir til að byggja sterk form úr þeim tólf tónum sem sagan lagði upp í hendurnar á okkur.

Smám saman sótti þó að mér einhver efi. Var það virkilega svo að eitthvað vantaði í tónverkið bara af því þar voru ekki venjulegir tónar, bara hljóð?

Við erum stundum svo rígbundin einhverjum kreddum og sannarlega ekki einfalt að losa um þær. Mér kemur í hug atriði úr kvikmynd eftir Taviani bræður, Il sole anche di notte.[5]. Þar er einsetumaður sem lifir meinlætalífi í leit sinni að guði. Hann er svo ólánsamur að gullfalleg stúlka leitar skjóls í húsi hans, verður honum holdleg freisting og er raunar nokkuð ágeng. Þar sem hún lætur vel að honum hrópar hann í örvinglan og skelfingu yfir hinni  óumflýjanlegu synd: „Ég held að djöfullinn hafi sent þig!“ Þá svarar hún honum ofurblíðlega með þessum orðum sem í einu vetfangi núllstilla veruleikann og allar merkistikur hans. Hún segir: „Jafnvel þótt svo væri, hvað með það?“

Ef við snúum nú aftur að orðum Boulez má segja að á sama hátt hafi vaknað hjá mér þessi díabólíska spurning: Engir tónar? Og hvað með það? Hvaða trúarsetningu væri storkað með því?

Tja, reyndar snertum við hér á einslags trúarsetningu sem var lífseig á síðustu öld. Þeirri að tónverkið fæli í sér tiltekinn röklegan strúktúr, heim innri samsvarana, úrvinnslu á gefnum forsendum, einhverja ræðu sem átti að tala til hins upplýsta hlustanda. Og hinn upplýsti hlustandi átti fyrir sitt leyti að grípa þessa ræðu og skynja í samhengi við önnur verk og tónlistarsöguna. Sérhvert verk átti samkvæmt þessu að vera í samtali við önnur verk og söguna, og tónarnir voru tæki til að gefa því nauðsynlega dýpt og röklegt samhengi. Ég kalla þetta stundum mýtuna um hina upplýstu hlustun. Það er rétt að taka fram að hún er alls ekki afsprengi nútímatónlistarinnar heldur er hún arfur frá rómantíska tímanum: Það er einhvern tíma í byrjun 19. aldar sem verður til sú hugmynd að tónverkið feli í sér opinberun einhvers sértæks sannleika[6]. Hlustandinn átti að leggja sig eftir þessu og reyna að skilja verkið.

Mögulega var hann einhvern tíma til þessi hlustandi sem greip verkið og heyrði í gegn um það framrás sögunnar, innra samhengi og frjókorn framtíðar. Ég veit það ekki. Eitt er víst að ég er löngu hættur að gera ráð fyrir honum í minni vinnu. Núið er svona nokkurn veginn flatt og ég get engan veginn vitað hvaða sögulegu tengingar verða til í huga hlustandans. Mozart er jafn nálægur og Bítlarnir, Bach og Bacharach, Stockhausen og Ellington eða Kraftwerk eða Dufay.

Jæja, við vorum að tala um tónverk án tóna svona til gamans. Vissulega mætti segja að í þannig verki séu minni upplýsingar á einhverju sviði, en þýðir það endilega minni dýpt? Það gætu verið því meiri tíðindi á einhverju öðru skynsviði – ekki í tónum heldur hljóðlit, styrk, hreyfingu eða geðhrifum, svo dæmi séu nefnd.

Sagan hefur oft áður fært okkur algera uppstokkun á merkingu: Töpuðust ekki dýrar upplýsingar við það þegar tónskáld hættu að stilla saman margar sjálfstæðar raddir og fóru að leggja meira upp úr hljómagangi, eins og gerðist á 17. öld? Reyndar, en þó er ekki hægt að segja að músíkin hafi orðið eitthvað fátækari fyrir það. Upplýsingarnar, dýptin, merkingin, færðust bara yfir á annað svið. Ætli listrænt gagnamagn sé kannski fasti, eins og stærðfræðin mundi kalla það? Er það kannski móttökutækið og ekki sendirinn sem stjórnar því?

Það er nefnilega þannig að þegar ég spurði „hvað með það?“ var það alls ekkert díabólískt. Ég hef gert mér grein fyrir því að þessi veruháttur tónlistarinnar sem 20. öldin birtir – hið hefðbundna konsertform, hin upplýsta hlustun, sjálfur tónleikasalurinn, flytjandinn, já meira að segja hljóðfærin – þetta er allt tiltölulega nýtilkomið, og í sögunni hefur tónlist oft breytt um eðli og staðsetningu, og inntak. Hún hefur verið kveðskapur, dans, tilbeiðsla, rannsókn, skemmtun, skúlptúr, ræða, eintal, herhvöt, menntun, drama, galdur...hvað fleira? Það var bara rétt nýskeð að hún lenti þarna uppi á pallinum og allir gapandi af aðdáun í kring.

Það má vera að þeir sem kenna tónlist tali of lítið um þetta, en hvernig á að segja það?

Í dag kemur meira en 90% af þeirri tónlist sem við heyrum úr litlum kössum eða töppum og ég gæti giskað á að merkingarmyndun þess sem ég smíða fari eiginlega öll fram utan tónleikasalarins. Þá má spyrja hvort málið er ekki komið úr höndum þeirra sem flytja tónleika og semja tónlist fyrir þá. Það er ekki lengur til einhver einn opinber farvegur fyrir tónsköpunina.

Ég hef velt því fyrir mér hver munurinn er á stöðu tónhöfundarins sem gengur inn í skilgreint málumhverfi tónanna og hins sem stendur hér án leiðbeininga. Mér eru minnisstæðir tónleikar fyrir margt löngu þar sem Bruno Canino lék fjöldann allan af tilbrigðum við stef eftir Diabelli[7]. Höfundarnir voru margir og allir bjuggu þeir í Vín eða nærsveitum um 1824, fæstir nokkrum kunnugir í dag. Allir kaflarnir voru áheyrilegir, músíkalskir, jafnvel snjallir og það hefur verið höfundunum fullkomlega eðlilegt að leggja sitt af mörkum, þetta kunnu þeir. Það var næstum eins og umhverfið og stíllinn skrifaði þetta fyrir þá.

Það er annað uppi á teningnum í dag. Spyrjum annarrar barnslega díabólískrar spurningar: Hvers vegna skyldi ég segja eitthvað (í tónlist)? Þessir Vínarbúar þarna hefðu verið fljótir að svara því: Af því ég kann það – Þeim fannst þeir jú vera að segja eitthvað. Ástæðan – innri ástæða – býr einhvern veginn í sjálfu tónmálinu. En í dag hefur heldur þykknað í svarinu. Verð ég ekki að hafa góða ytri ástæðu til að láta frá mér tónverk á annað borð? Fylgir þessu ekki meiri listræn ábyrgð? Það er ekki hægt að framselja þýðinguna til tónmáls eða hefða. Hún skal öll vera í því sem við gerum.

Eða á hinn bóginn, tómhyggjan[8]: Já, þetta er komið úr okkar höndum. Gerum bara eitthvað, menningin tekur ekki eftir því, það er öllum sama og það skiptir ekki máli.

Það stóð nú kannski til að ég gæfi einhverja hugmynd um mín eigin viðbrögð við þeim aðstæðum sem að ofan greinir en ég ætla að mestu að víkja mér undan því. Hengjum bara nokkur orð hér aftan við[9].

Ég nota að vísu oftast tóna í verkunum – hljóðfærin eru jú flest með þeim ósköpun gerð að það koma úr þeim tónar – en iðulega ímynda ég mér að ég sé einmitt að vinna með þessi tónlausu slagverkshljóðfæri sem um var rætt. Tónarnir eru auðvitað mikilvægir en tónsmíðin reiðir sig ekki um of á samhengi þeirra, eða einhverja tiltekna ræðu eða tjáningu sem í þeim felst. Hún miðar frekar að heildarmynd sem leitar handan tónanna. Mikið hljómaði þetta nú uppskrúfað. Má ég reyna aftur?

Ég leita sem sagt ekki að þeirri tjáningar- eða sköpunardýpt sem kynni að felast í margslunginni tónabyggingu. Sem fyrr getur er hætta á að í hljóðheimi okkar daga fari þvílík dýpt dálítið forgörðum. Ég leitast frekar við að verkið búi yfir þeim einfaldleika en um leið margræðni sem einkennir mýtuna, að verkið sé á einhvern hátt tær gjörð, athöfn – kannski mætti segja ritúal – sem opnað getur margvíslegar tengingar í huga viðtakandans. Ef hún er ekki ræða má segja að hún leitist ekki eftir að vera persónuleg. En hún er samt ekki ópersónuleg heldur yfirpersónuleg.

Kannski mætti segja að með tímanum hafi tónlist mín orðið fátæklegri til þess að verða á sinn hátt dýpri. Ekki veit ég hvernig til hefur tekist. Hugsanlega er hún bara fátæklegri en ekkert dýpri. Þá segi ég bara: Hvað með það?

----


[1] Greinin byggir á framsöguerindi á umræðum um stöðu tónlistarinnar sem RÚV og Listahátíð í Reykjavík stóðu fyrir á Kjarvalsstöðum árið 2009. Þar sem þurfa þótti var textanum snarað á ritmál og beint til lesenda í stað hlustenda.

[2] Erindið er tíu ára gamalt. Eflaust mætti í dag segja að breytingar „séu orðnar“.

[3] Nú má vera að yngri lesendur þekki ekki fyrirbærið. Átt er við húsgagn á stærð við smáan skenk sem hýsti stórt útvarpstæki í öðrum endanum og plötuspilara í hinum, með hátölurum neðan við báða.

[4] Því miður tókst ekki að grafa heimildina upp við vinnslu greinarinnar, en vafalaust er um að ræða einhverja greinanna sem birtust í safnritinu Points de repère, París 1981.

[5] „Sólskin, jafnvel að nóttu“ á íslensku. Myndin byggir á smásögunni Föður Sergius eftir Tolstoj.

[6] Gott dæmi um þvílíkar hugmyndir er að finna í skáldsögu eftir Wilhelm Heinrich Wackenroder, Herzensergiessungen eines kunstliebenden Klosterbruders frá 1797.

[7] Um fimmtíu tónskáld tóku þátt í útgáfu sem nefnd var Vaterländischer Künstlerverein, og samdi hver og einn sín tilbrigði við stef eftir Diabelli.

[8] Tómhyggja er annað orð yfir níhilisma (sjá e. nihilism).

[9] Þar sem greinin er frá 2009 vísar höfundur einkum í þau verk sín sem þá voru nýleg, t.d. Trust Me fyrir klarinett, víólu og píanó (2002), Is Anybody There, fyrir klarinett og strengjasveit (2004), Orchestra B fyrir hljómsveit (2002), Orgoras Speaks fyrir tvö klarínett og sextett (2009) eða Elsku Borga mín fyrir kór (2009).

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Tölublað 1

Tölublað 2

Tölublað 3

Tölublað 4

Til höfunda

Tölublað 4

Um höfunda