Erlendir tónlistarmenn á Íslandi

Áhrif á íslenskt tónlistarlíf 1930-1960

Ásbjörg Jónsdóttir og Þorbjörg Daphne Hall

Inngangur

Í þessari grein verður fjallað um erlenda tónlistarmenn á Íslandi á árunum 1930-1960 og áhrif þeirra á íslenskt tónlistarlíf. Með greininni vörpum við ljósi á mikilvægi þessara tónlistarmanna í uppbyggingu á tónlistarlífi landsins sem var á þessum tíma heldur bágborið miðað við tónlistarmenningu í Evrópu. Hér verður lögð sérstök áhersla á að skoða áhrif erlendra tónlistarmanna á jazztónlistarlíf landsins, sér í lagi á fyrstu áratugum þess. Skilin á milli klassískrar tónlistarsenu og jazztónlistarsenu þessa tíma gátu þó verið óskýr. Hljóðfæraleikarar virtust ekki hafa veigrað sér við að spila bæði klassík og jazztónlist og oft hefur annað ekki verið í boði ef ætlunin var að lifa af tónlistinni einni saman. Á þessum tíma var ekki hægt að mennta sig í jazztónlist hérlendis og þeir sem menntuðu sig í tónlist lærðu þá klassíska tónlist en spiluðu oft jazz – eða dægurtónlist á kaffihúsum og á veitingastöðum á kvöldin.

Tónlistarlíf Íslendinga í upphafi 20. aldar

Þó nokkuð hefur verið ritað um tónlistariðkun Íslendinga á öldum áður og hefur hún ekki verið talin sérstaklega glæsileg. Erlendir ferðalangar hafa sagt frá þeirri tónlist sem þeir upplifðu á ferðum sínum um Ísland og má nefna orð enska grasafræðingsins William Jackson Hooker um messusöng sem eru á þessa leið: „ef þessi einsleiti og ósamhljómi hávaði sem ég heyrði er ég gekk inn á að nefnast söngur“ sem hann sagði frá í ferðaminningum sínum frá 1809. Ári síðar heyrði breski læknirinn Henry Holland fiðluleik á balli í Reykjavík og lýsti því sem „ömurlegu fiðlusargi“.[1] Þetta bendir til að sú tónlistariðkun sem Íslendingar höfðu tamið sér líktist evrópskri tónlist að litlu leyti. Íslenskir menntamenn sem fóru erlendis og kynntust tónlistarmenningu Evrópu urðu um leið mjög meðvitaðir um vanþróað tónlistarlíf á Íslandi. Magnús Stephensen var ötull baráttumaður framþróunnar og upplýsingar en hann var í námi á seinni hluta 18. aldar í Kaupmannahöfn og kynntist þar menningar- og tónlistarlífi borgarinnar. Um leið gerði hann sér grein fyrir því hversu slæmt ástand væri á Íslandi og má segja að hann hafi staðið fyrir mikilvægu umbótastarfi á kirkjusöng á fyrri hluta 19. aldar.[2] Sigurlaug Lamm og Óðinn Melsted hafa fjallað um það hvernig samanburður við „glæsta tónmenningu Evrópubúa“ hafði þær afleiðingar að Íslendingar fóru að líta niður á eigin tónlistarmenningu og lögðu sig fram um að tileinka sér evrópska hefð.[3] Þegar kom að sjálfstæðisbaráttunni þá var lögð áhersla á að byggja upp tónlistarlíf sem stæðist samanburð við Evrópu. Inga Dóra Björnsdóttir útskýrði þetta á þennan veg:

Ef Ísland átti að rísa úr öskutónni þurftu Íslendingar að taka upp nútímalega tónlist, tónlist sem sprottin var upp úr borgaralegri þjóðmenningu Vesturlanda. Hinni gömlu íslensku tvísöngs- og          rímnahefð varð að útrýma með öllu. Rímna- og tvísöngurinn var, að mati þessara manna, [forystumanna á sviði tónlistar á Íslandi á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar] ekki endurhljómur aftan úr glæstri fortíð, heldur tákn um aumt andlegt og menningarlegt ástand íslensku þjóðarinnar. Þessi söngur hefði skemmt tilfinningalíf og fegurðarskyn þjóðarinnar og til að verða frjáls og sjálfstæð nútímaþjóð, þyrftu Íslendingar að komast undan „yfirdrottnun gamals vana“ og tileinka sér hinn nýja tón. Þá fyrst gætu Íslendingar orðið þjóð á meðal þjóða og borið „höfuð hátt og verið menn með mönnum, - einnig í þessum efnum“.[4]

Það er því ljóst að mikið var litið til Evrópu og hins vestræna menningarheims þegar kom að því að byggja upp íslenskt tónlistarlíf. Þegar fram var komið á þriðja áratuginn, og einhverjir erlendir tónlistarmenn höfðu starfað til skamms tíma í Reykjavík, kölluðu bæði Jón Leifs og Páll Ísólfsson eftir því að fá erlenda tónlistarmenn til starfa, til þess að þjálfa Íslendinga svo þeir gætu á endanum staðið á eigin fótum. Jón Leifs telur að „vandfundið mun það land, þar sem tónlistin er skemra komin en á Íslandi“[5] og leggur til eftirfarandi:

Það liggur ein leið til þess að Íslendingar fái veitt sér allar greinar tónlistarinnar, en það er að hingað komi menn, sem sjálfir séu stoð allra framkvæmda, en veiti Íslendingum jafnframt þá kenslu, sem gerir þá síðar meir sjálfa færa til starfanna.[6]

Nokkrir Þjóðverjar dvöldu á landinu á þriðja áratugnum og komu að kennslu og hljóðfæraleik, sér í lagi á skemmtistöðum borgarinnar. Margir töluðu fyrir því að stofna tónlistarskóla og einn þeirra var Halldór Jónasson heimspekingur en hann lagði áherslu á siðbætandi áhrif tónlistar. „Meðal hinna mestu menningarþjóða hefir það altaf verið viður kent, að góð tónlist hafi ekki einungis hressandi og skemmtandi áhrif, heldur verki hún beinlínis mótandi og uppalandi á hugarfar manna og lunderni.“[7] Tónlist var því ekki einungis til skemmtunar heldur hafði hún áhrif á hlustendur og því taldi Halldór mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að öðlast þróaðra tónlistarlíf: „Við þurfum að eignast góða hljómsveit. - Við þurfum að geta útvarpað góðri tónlist. - Við verðum að eignast tónlistaskóla!“[8] Tónlistin hafði tök á því að bæta hlustandann, væri hún góð, en það má svo velta vöngum yfir því hvað höfundur á við með góðri tónlist, en vikið verður að því síðar.

Með Alþingishátíðinni 1930 urðu ákveðin vatnaskil í íslensku tónlistarlífi því þá var píanóleikarinn og hljómsveitarstjórinn Franz Mixa ráðinn til þess að stjórna hátíðarhljómsveitinni en á sama tíma var ráðist í að stofna tónlistarskóla í Reykjavík. Mixa var fenginn til þess að kenna við skólann og honum falið að ráða erlenda kennara, honum og Páli Ísólfssyni, skólastjóra, til stuðnings. Það var þó umdeilt að erlendir tónlistarmenn sæu um hljóðfærakennsluna en Kristján Sigurðsson var einn þeirra sem rökstuddi þetta fyrirkomulag á eftirfarandi hátt:

Þeir, sem vilja halda því fram, að það sé ólíkt óþjóðlegra að sækja kennara til útlanda en að fara utan til náms, gera það af einhverjum athugaverðum ástæðum. Það er ekki mest um það vert, að þeir efnuðu geti stundað nám hjá fullkomnum kennara, heldur þeir efnilegustu. Almenna fræðslan þarf líka að vera á góðum grundvelli byggð, annars er hún einskis virði. Ef við látum okkur á sama standa hverrar þjóðar kennarinn er, ef hann er aðeins starfi sínu vaxinn, meðan erlendrar kennslu er þörf, þá getum við í raun og veru orðið þjóðlegir eftir tiltölulega stuttan tíma og sjálfum okkur nægir, þó að með því sé ekki sagt að öll utanaðkomandi áhrif eigi að
útilokast.[9]

Niðurstaðan var sú að haustið 1930 fékk Mixa til landsins tvo hljóðfæraleikara frá Vínarborg, Karl Heller fiðluleikara og Friedrich Fleischmann sellóleikara.[10] Þessir tveir stöldruðu stutt við en uppfrá 1930 komu fjöldamargir erlendir hljóðfæraleikarar til þess að kenna tónlist en jafnframt til að leika á skemmtistöðum borgarinnar.[11]

Fyrstu erlendu tónlistarmennirnir koma

Árið 1930 opnaði Hótel Borg og telja margir að það hafi verið vendipunktur í sögu jazztónlistar á Íslandi en þar var lifandi tónlist daglega og þangað voru eingöngu ráðnar erlendar hljómsveitir til að byrja með.[12] Fyrsta veturinn lék þar dönsk danshljómsveit undir stjórn fiðluleikarans Eli Donde. Árin 1933 til 1942 voru kölluð „enski áratugurinn“ á Borginni þar sem á þeim árum störfuðu margir enskir hljómsveitarstjórar. Árið 1933 var saxófónleikarinn Jack Quinet ráðinn á Hótel Borg og lék hann þar með hléum í áratug. Árið á eftir var píanóleikarinn Arthur Roseberry ráðinn og árið 1937 var Billy Cook saxófónleikari ráðinn. Á þessum tíma voru líka ráðnar tvær ungverskar hljómsveitir á Hótel Borg, önnur þeirra lék líka á Hótel Birninum í Hafnarfirði og Hótel Ísland réði til sín tríó frá Austurríki.[13]

Þessar ráðningar erlendra hljóðfæraleikara lögðust ekki vel í innlenda hljóðfæraleikara og stofnuðu þeir Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) árið 1932 til að gæta hagsmuna sinna. Þeir vildu stöðva ráðningar erlendra tónlistarmanna, það reyndist ekki auðsótt en að lokum tókst þeim að ná samningum við tvo af stærstu skemmtistöðunum, Hótel Ísland og Hótel Borg um að þeir réðu líka Íslendinga með erlendu hljómsveitunum. Þá var komið á einhvers konar kvótakerfi þar sem ákveðinn hluti hljómsveitarinnar þurfti að vera íslenskur en það var stöðugt deiluefni milli veitingamanna og FÍH hvert hlutfallið ætti að vera.[14] Það var þó fram eftir öllu verið að finna að þessum ráðningum. Árið 1939 var ráðinn tékkneskur fiðluleikari á Hótel Ísland og FÍH hélt þá fund þar sem tillaga var gerð að vinnustöðvun á Hótel Íslandi. Þá skrifaði hóteleigandi grein í Morgunblaðið þar sem hann kynnti þennan fiðluleikara og útskýrði mál sitt á eftirfarandi hátt: „Íslensk hljómlist er svo ung, að varla er von að við eigum ennþá fyrsta flokks hljóðfæraleikara til að leika á kaffihúsum, þá stendur þetta til bóta og hin síðari ár hafa risið upp margir sæmilegir hljómleikamenn. Er nú svo komið, að með hjálp útlendinga eigum við góðar danshljómsveitir.“[15] Eftir að þessum samningum var komið á nutu íslensku hljóðfæraleikararnir þó góðs af og lærðu margt af erlendu hljómsveitarstjórunum og meðleikurum sínum.

Billy Cook kenndi íslenskum saxófónleikurum til að mynda tækni og spuna. Arthur Roseberry hafði líka mikil áhrif á íslenska jazzhljóðfæraleikara,[16] en hann hafði stýrt hljómsveitinni Kit-Cat Dance Band sem lék á ýmsum klúbbum í London og gaf með þeim út nokkrar hljómplötur.[17] Jack Quinet var líka mikill áhugamaður um jazz og setti á fót sinfóníska jazztónleika á Borginni þar sem hann leyfði íslensku hljóðfæraleikurunum að spreyta sig á að spila jazz.[18] Fyrsta upptakan með íslenskum jazzhljóðfæraleikurum átti sér stað á Hótel Borg árið 1943 en á henni spiluðu Þórir Jónsson (víóluleikari og altsaxófónleikari) og hljómsveit hans en Þórir tók við af Jack Quinet þegar hann var kallaður til herþjónustu í breska hernum árið 1942. Í hljómsveitinni voru auk Þóris þeir Sveinn Ólafsson (fiðluleikari og tenór saxófónleikari), Vilhjálmur Guðjónsson (klarínettuleikaru og alt saxófónleikari) og Jóhannes Eggertsson (trommari og básúnuleikari). Þeir höfðu allir spilað með Jack Quinet þegar hann var hljómsveitarstjóri á Borginni.[19] Jón Múli Árnason telur þessa þrjá meðlimi hljómsveitar Þóris vera fyrstu „alvöru“ íslensku jazzhljóðfæraleikara og Vernharður Linnet segir af upptökunni að dæma að þeir hafi verið færir jazztónlistarmenn.[20]

Sveinn Ólafsson byrjaði að spila á tenórsaxófón á Hótel Borg árið 1934 og spilaði þar í 18 ár. Hann hefur þá spilað undir stjórn bresku hljómsveitarstjóranna þriggja; Roseberry, Quinet og Cook.[21] Hér segir Sveinn frá þeim tíma er hann spilaði með Englendingunum á Borginni:

Fram að þeim tíma þótti í rauninni óhæfa að Íslendingar léku fyrir dansi á Borginni, heldur voru það Englendingar, "og fyrstu árin stóð barátta um" -það hvað margir Íslendingar ættu að spila með Englendingunum. Það varð úr, að við spiluðum tveir á móti 5 Englendingum, en á daginn spilaði ég á fiðlu með fimm manna ungverskri hljómsveit, og það var merkilegt að þetta skyldi vera á krepputímunum, ein hljómsveit á eftirmiðdögunum og önnur á kvöldin, alls 12 menn.[22]

Þessi frásögn Sveins varpar ljósi á ýmsa þætti tónlistarlífsins. Í fyrsta lagi, þá veitir þetta innsýn í tónlistarlegt framboð. Auk Sveins, þá voru tólf einstaklingar ráðnir til þess að leika á Borginni og voru þetta tvær ólíkar hljómsveitir sem væntanlega höfðu ólíka tónlist á sínum efnisskrám sem hæfði mismunandi tímum dags. Þetta voru jafnframt stórar hljómsveitir og greinilega mikið í lagt, þrátt fyrir erfiðan efnahagslagan tíma. Í öðru lagi, þá er það ljóst að Íslendingarnir þóttu ekki eins hæfir danstónlistarmenn eins og Englendingarnir sem ráðnir voru á Borgina og er frásögn hóteleigandans sem vísað var í hér að ofan staðfesting á því, en hann reifaði mikilvægi þess að hafa erlenda tónlistarmenn með í hljómsveitunum. Þetta endurspeglar jafnframt þankagang sem átti sér einnig stað erlendis, en í París risu sambærilegar deilur milli franskra hljóðfæraleikara og rekstaraaðila skemmtistaða, því þar vildu skemmtistaðirnir frekar hafa erlenda tónlistarmenn (og þá helst svarta) en franska til þess að leika undir dansi.[23] Deilurnar í Frakklandi voru þó tengdar kynþáttahyggju, en líklegra er að umræður um þjóðerni tónlistarmanna tengdust frekar þekkingu á tónlistinni og hæfni þeirra til þess að flytja hana. Sveinn bendir sjálfur á þetta og dregur fram mikilvægi erlendu tónlistarmannanna við óformlega kennslu þegar saman var leikið í hljómsveitunum.

Á meðan Englendingarnir spiluðu hérna kynntist ég mörgum hljóðfæraleikurum, bæði lélegum og góðum, því það var skipt um menn á 6 mánaða fresti. Mest þótti mér gaman að kynnast Billy Cook, en hann hafði lært hjá Johnny Hopkins, sem spilaði með Duke Ellington, ég lærði mikið af honum.[24]

Rétt eins og Íslendingarnir, þá voru erlendu hljóðfæraleikararnir ekki allir jafn góðir, en áhugavert er hversu oft skipt var um hljóðfæraleikara og má því ætla að nokkuð margir tónlistarmenn hafi komið erlendis frá á þessu tímabili.

Eins og fram kom hér að ofan, þá voru ekki einungis erlendir tónlistarmenn sem komu tímabundið til að spila á skemmtistöðum heldur komu margir til að sinna kennslu. Fyrst um sinn var því meirihluti kennara við Tónlistarskólann í Reykjavík erlendir en fljótlega eftir seinna stríð fóru Íslendingar smátt og smátt að taka við þessum störfum, bæði kennslu við tónlistarskóla og flutning lifandi tónlistar á skemmtistöðum. Um 1960 voru kennarar tónlistarskólans nær allir íslenskir,[25] rétt eins og Kristján Sigurðsson spáði fyrir um í aðdraganda þess að skólinn var stofnaður og fjallað var um hér að ofan.

Tónlistarlífið á þessum tíma var blómlegt miðað við það sem áður hafði verið, þrátt fyrir að á fjórða áratugnum ríkti efnahagslegur óstöðugleiki, líkt og víða annars staðar. Í tónlistarlífinu bar þá mest á lúðrasveitum, kórtónleikum, tónleikum einstakra tónlistarmanna auk þeirra fyrrnefndu hljómsveita sem spiluðu fyrir dansi á skemmtistöðum og kaffihúsum.[26]

Áhrif hersins og setuliðsins

Þegar bandarískir og breskir hermenn komu til landsins (1940-1947) höfðu þeir gríðarleg áhrif á bæjarlíf Reykvíkinga, þá helst á skemmtanalífið en þegar mest var (1943) voru þeir um 50.000 (80% á höfuðborgarsvæðinu).[27] Þá voru Íslendingar 120.000, og einn þriðji þeirra búsettur í Reykjavík sem segir okkur að þeir hafi verið fleiri heldur en Reykvíkingar sjálfir.[28] Það myndaðist meiri eftirspurn eftir skemmtunum og fleiri kaffihús og skemmtistaðir tóku til starfa til að svara þeirri þörf.[29] Hermennirnir höfðu þó ekki bara áhrif á tónlistarlífið í gegnum skemmtanalífið heldur báru þeir einnig með sér jazzplötur, sem var erfitt að nálgast á þessum tíma. Guðmundur Steingrímsson, einnig þekktur sem Papa Jazz minnist þess að það hafi haft gríðarleg áhrif á hann en hann fékk töluvert af jazzplötum gefins frá hermönnunum. Það kveikti strax hjá honum áhugann og var hann síðan virkur flytjandi jazztónlistar.[30] 

Þó svo að sóst hafi verið eftir erlendum áhrifum þegar kom að því að byggja upp tónlistarlíf á Íslandi við upphaf 20. aldarinnar, eins og fjallað var um í upphafi greinarinnar, þá voru ekki öll erlend áhrif jafn eftirsótt. Mikil áhersla var lögð á evrópska eða Vestræna menningu og féll jazztónlistin ekki undir þá skilgreiningu. Sökum uppruna hans hjá svörtum mönnum þá var hann álitinn „barbarískur“ og jafnvel siðspillandi. Ólafur Rastrick hefur fjallað um viðtökur á jazzinum á fjórða áratuginum og sett þær í samhengi við hin siðspillandi áhrif jazzins í alþjóðlegu samhengi.[31] Rifja má upp tilvísun í Halldór Jónasson sem kom fram hér að framan þar sem hann fjallaði um siðbætandi áhrif „góðrar tónlistar“ og má ætla að jazzinn hafi ekki verið flokkaður með henni. Í raun má finna hliðstæðu með jazzinum og rímnahefðinni, en þessar tónlistartegundir voru báðar álitnar barbarískar og ekki líklegar til þess að hefja menningarlíf þjóðarinnar á hærra stig.[32] Andrúmsloftið á stríðsárunum jók ekki á vinsældir jazzins á meðal málsmetandi einstaklinga í samfélaginu því hann var leikinn á skemmtistöðum þar sem konur áttu í samskiptum við hermenn. Því átti tónlistin sinn þátt í „ástandinu“ og um leið í framtíð íslensku þjóðarinnar, sem var í höndum íslenskra kvenna sem tilvonandi mæðra framtíðarinnar. Samskipti þeirra við erlenda hermenn var álitin bjóða heim hættu á mengun á íslenskri menningu og kynþætti.[33] Rétt er að taka það fram að unga fólkið tók þessari tónlistartegund fagnandi og því má segja að viðtökur hafi verið mjög blandaðar.[34]

Þegar stríðinu lauk vildu Bandaríkjamenn fá að hafa herstöðvar til frambúðar í Keflavík og árið 1946 samþykkti Ólafur Thors, forsætis – og utanríkisráðherra að herinn fengi aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir starfslið sem sinnti herflutningum til og frá Evrópu.[35] Þetta hafði í för með sér tækifæri fyrir tónlistarmenn, en hljómsveitir voru gjarnan ráðnar til að spila á „Vellinum“ eins og sagt var. KK–sextett spilaði þar stundum vikulega en Raggi Bjarna söng oft með þeim og minnist þess svona:

KK-sextettinn var til dæmis svo vinsæll á Vellinum að báðir klúbbarnir þar, Offiséra-klúbburinn og Sevilla-klúbburinn, slógust um hann. Kristján gat hreinlega sagt við þá: „Ég vil fá þessa peninga fyrir kvöldið“- og þeir greiddu honum þá umyrðalaust. En vissulega var upphæðin jafnan innan velsæmismarka.[36]

Guðmundur Steingrímsson, Papa Jazz, spilaði líka með KK–sextett á „Vellinum“ og minnist þess með gleði. Hann talaði um að á meðal starfsmanna á „Vellinum“ hafi verið margir færir jazzhljóðfæraleikarar. Þeim fannst dásamlegt að fá að spila með þessum „atvinnuspilamönnum“ eins og hann kallaði þá.[37] Svona lýsir Papa Jazz því þegar þeir fóru að spila á „Vellinum“:

KK bandið kom oft snemma á Völlinn þegar við áttum að spila þar svo við hefðum tíma til að jamma með þessum jazzleikurum. Við stilltum fyrst upp dótinu í okkar klúbbi og fórum í Rec. Hall þar sem bíóið var og jömmuðum með Ameríkönunum áður en við fórum að spila. Það var rosalegt, það var gaman á þessum jazz árum. Þetta voru vinir okkar. Nýr heimur alveg hjá okkur í KK.[38]

Papa Jazz talar einnig um að á meðal þessara manna hafi verið góðir kennarar og að áður en „kaninn“ kom hafi verið fá, ef ekki engin tækifæri til að læra að spila jazz þar sem engir kennarar voru færir í að kenna jazz.[39]

Ég lærði mest af Robert Grauso vini mínum, amerískum hermanni sem spilaði með 519th Air Force Band sem var með 13 manna danshljómsveit sem spilaði í Offíseraklúbbnum, en jazzkombó útúr hljómsveitinni spilaði til skiptis í NCO-klúbbnum og klúbbi fyrir óbreytta. Svo voru líka nokkur lítil kombó sem spiluðu í klúbbnum á virkum dögum og stundum í matsalnum í hádeginu.[40]

KK–sextett spilaði líka í beinni útsendingu í Kanaútvarpinu vikulega, hálftíma í senn. Það kallaði á að bandið væri vel æft og væri duglegt að bæta við nýjum lögum.[41] Það voru ekki bara starfsmenn á „Vellinum“ sem hlustuðu á Kanaútvarpið og raunar var meirihluti þeirra sem hlustuðu Íslendingar en þessar útsendingar hófust árið 1951.[42] Hljómsveitin lék einnig í Kanasjónvarpinu stöku sinnum ef eitthvað sérstakt bar undir.[43] Hermennirnir streymdu líka á skemmtanir þar sem KK–sextett lék, eins og t.d. á Þórscafé á Hverfisgötu, þar spiluðu þeir stundum fjögur kvöld í viku.[44] Það fer ekki á milli mála að það var mikið tónlistarlíf á „Vellinum“ og að setuliðið hafi haft víðtæk áhrif á þróun jazztónlistar í landinu.

Gróska í tónlistarlífinu

Það var mikil gróska í íslensku tónlistarlífi á milli 1945 og 1960, og þá sérstaklega í jazztónlist. Það voru stofnuð blöð og klúbbar helguð jazzi, erlendir jazztónlistarmenn voru fluttir inn til að halda tónleika og fyrstu hljóðfæraleikararnir sem helguðu sig jazzi komu heim úr námi. Hljómsveitir voru fastráðnar á ýmsum skemmtistöðum, oft meira en eitt kvöld í viku. Upp úr 1950 voru til að mynda tíu skemmtistaðir bara í kringum Austurvöll sem buðu upp á lifandi tónlist og dansskemmtanir.[45] Þessi gróska innan jazztónlistarinnar var ekki sjálfgefin og mest dugnaði fárra manna að þakka. Svavar Gests og Tage Ammendrup voru lykilmenn í því að glæða líf í senunni en þeir stóðu fyrir komu erlendra jazztónlistarmanna sem var mikil vítamínsprauta fyrir bæði jazzflytjendur og jazzáhugamenn. Einnig komu þeir báðir að útgáfu og upptökum og stofnun jazzklúbba og jazzblaða svo fátt eitt sé nefnt. Svavar Gests og Kristján Kristjánsson forsprakkar KK–sextetts stunduðu tónlistarnám við Julliard skólann í New York komu heim árið 1947. Þegar þeir komu heim báru þeir með sér ferskan blæ frá Bandaríkjunum. Hljómsveitarútsetningar, hljóðfæri og hljómplötur fylgdu þeim heim.[46] Þar höfðu þeir líka hlýtt á meistara á borð við Earl Hines, Cab Calloway, Paul Whiteman, Louis Armstrong, Duke Ellington og Count Basie.[47]

Saxófónleikarinn Gunnar Ormslev sem kom hingað árið 1946 frá Danmörku og settist hér að hafði mikil áhrif á jazztónlistarsenuna. Gunnar átti íslenska móður en danskan föður.[48] Gunnar spilaði með ýmsum hljómsveitum hér, m.a. KK–sextett og Hljómsveit Björns R. Einarssonar lengst af og vakti mikla athygli fyrir leik sinn. Árið 1957 stofnaði hann sína eigin hljómsveit. Vernharður Linnet segir að af útvarpsupptökum að dæma af hljómsveit Björns og KK sextettinum frá þessum tíma, í kringum 1950 hafi mátt heyra að hann var strax þá einn af betri tenórsaxófónleikurum í Evrópu. Hljómsveitin fékk gullverðlaun sem besta jazzhljómsveitin á Heimsmóti lýðræðissinnaðrar æsku í Moskvu það sama ár.[49]

Fyrstu jazzklúbbarnir stofnaðir og heimsóknir erlendra tónlistarmanna

Í byrjun árs 1947 stofnaði Hljóðfæraverzlunin Drangey jazz-klúbb en Tage Ammendrup rak þá verslun. Tilgangur klúbbsins var að bjóða hingað „erlendum snillingum“ og að kynna jazztónlist fyrir landanum.[50] Þá var Jazzklúbbur Íslands stofnaður 1949,[51] Jazz-klúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 1950 og jazz-klúbbur á Ísafirði, í Vestmannaeyjum, á Akureyri og á Akranesi voru einnig stofnaðir það sama ár. Að lokum var Jazzklúbbur Reykjavíkur stofnaður 17. janúar 1959.[52] Samhliða stofnun þessara jazzklúbba fór koma erlendra tónlistarmanna til tónleikahalds að færast í aukana. Flugsamgöngur höfðu eflaust áhrif á þá aukningu þar sem auðveldara var en áður að komast til og frá landinu. Loftleiðir hóf til að mynda áætlunarflug milli Íslands og Bandaríkjanna árið 1948.[53] Koma Tyree Glenn og Lee Konitz sem komu á vegum Jazzklúbbs Íslands árið 1951 kom t.d. til vegna þess að þeir höfðu verið á tónleikaferðalagi í Svíþjóð og voru á leið til Bandaríkjanna aftur með millilendingu á Íslandi.[54] Áður en Jazzklúbbur Íslands fór að flytja inn erlenda jazztónlistarmenn til tónleikahalds var eitthvað um að einstaklingar stæðu fyrir slíku. Papa Jazz talar um að fyrsta erlenda „hreinræktaða“ jazzbandið hafi haldið hér tónleika í nóvember 1946 á vegum Péturs Péturssonar þular. Það var band enska saxófónleikarans Buddy Featherstonhaugh en þeir héldu hér fimm tónleika, m.a. í Gamla Bíó og Bæjarbíó í Hafnarfirði.[55] Árið eftir ætlaði fyrrnefndur Tage Ammendrup að flytja inn jazzband hins hörundsdökka Rex Stewarts, trompetleikara en búið var að auglýsa tónleikana og eftirvæntingin var mikil meðal jazzáhugamanna.[56] Þá setti dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson bann á innflutning erlendra listamanna, það er þeir fengju hvorki landvistar- né skemmtanaleyfi. Það hafði líka heyrst að hann hefði sagt að viðurkenndum listamönnum væri heimil koma en trúðum bönnuð.[57]  Í kringum þetta spunnust miklar umræður og voru margir mjög ósáttir við þessa niðurstöðu dómsmálaráðherra. Í tímaritið Jazz skrifaði tónunnandi eftirfarandi:

Það ótrúlega er skeð, Rex Stewart fær ekki að koma. Kæra jazzblað, ég má til með að létta af hjarta mínu, og lýsa þeim vonbrigðum, er ég varð fyrir, og allir mínir kunningjar. Það er ótrúlegt að hægt sé að banna hljómlistina, ótrúlegt að hægt sé að kalla það lúxus að leika á hljóðfæri og hlusta á hljómlist. Það er ekki hægt að fá hljóðfæri í hljóðfæraverzlunum, ekki hægt að fá keyptar nótur, ekki hægt að hlusta á góða hljómleika og það eina, sem strákar á mínum aldri geta gert, er að reyna að komast á ball, því á bíó er ekki hægt að fara, vegna þess hve myndirnar eru lélegar. Ég get ekki skilið, að það sé hægt að banna æskulýðnum að sækja hollar skemmtanir eða hlusta á hljómleika, aðeins vegna þess að leikið sé jazz, ég get ekki skilið, hvaða heimild Bjarni Benediktsson hefir til að meina æskulýðnum allrar ánægju.[58]

Þetta varð mikið hitamál en fólk taldi Bjarna hafa sett bannið á vegna þess að Stewart og hljómsveit hans væru hörundsdökkir. Fólki fannst þetta minna á þegar Hitler bannaði Duke Ellington að leika í Þýskalandi.[59] Það var ekki einungis skrifað um þetta í tímarit sem fjölluðu um jazz heldur var víða fjallað um málið. Eftirfarandi grein birtist til að mynda í Þjóðviljanum í „Bæjarpóstinum” sem innihélt innsendar greinar frá lesendum.

Hin fruntalega framkoma Bjarna Benediktssonar gagnvart blökkumannahljómsveit Rex Stewarts hefur vakið mikið umtal og komið róti á hugi unga fólksins. Tónlistarvinur skrifar eftirfarandi bréf, dagsett 11. október: „Í Þjóðviljanum í dag er skýrt frá því að blökkumannahljómsveit Rex Stewarts hafi verið neitað um landvistarleyfi. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum er ég las þetta í blaðinu. Segir blaðið að Bjarni Ben. dómsmálaráðherra hafi bannað hljómsveit þessari að koma hingað til lands. [...] Eg skil ekki að manngarmurinn geri þetta vegna annars en kynþáttahaturs, enda leynir það sér ekki úr því sem komið er. Eg get ekki skilið hvernig Bjarni Ben. getur fengið sig til að banna þessum hljómlistarmönnum að koma hingað, þar sem hann bannaði ekki þeim sem komu á vegum Tónlistarskólans; og ekki nazistum þeim sem hópast hingað um leið og þeim er sleppt úr fangabúðum í Englandi. Það getur líka verið að hann álíti eins og margir aðrir sem ekkert vit hafa á tónlist, að það sé fínt að vera á móti jass. Bjarni Ben hlýtur að hafa talað áður en hann hugsaði. Ekki er það til að spara gjaldeyrinn að banna hljómsveit þessari að koma hingað, þar sem hún fær engan gjaldeyri, hvorki innlendan eða útlendan. Því getur það aðeins verið ein ástæða fyrir því að Bjarni bannar hljómsveit þessari að koma hingað; og ástæðan er — kynþáttahatur.[60]

Það er augljóst að hér er um að ræða einhvers konar mismunun þar sem band Buddy Featherstonehaugh fékk leyfi til að koma árið áður. Því er ekki hægt að tala um að Bjarni Benediktsson hafi bannað þeim að koma vegna þess að hann og aðrir ráðamenn væru á móti jazztónlist. Þetta virðist þó ekki hafa varað lengi þar sem Jazzklúbbur Íslands stóð fyrir því að fyrrnefndir Tyree Glenn og Lee Konitz héldu hér tónleika í desember 1951 en annar þeirra var hörundsdökkur. Þá komu þeir bara tveir og með þeim léku svo íslenskir jazzleikarar á tónleikunum sem haldnir voru í Austurbæjarbíó og þóttu takast mjög vel auk þess sem þeir voru vel sóttir.[61]

Lokaorð

Ljóst er að erlendir tónlistarmenn hafa haft víðtæk áhrif á tónlistarlíf á Íslandi alla 20. öld. Þessi vera var sérstaklega mikilvæg á öndverðri öldinni, þegar tónlistarmenningin tók stakkaskiptum og færðist nær því sem þekktist í Evrópu. Erlendu tónlistarmennirnir bættu upp vanþekkingu innfæddra með kennslustörfum sínum og kynntu landanum fyrir nýjustu straumum og stefnum. Eftir að FÍH var stofnað og þess gætt að Íslendingar fengju að spila með erlendu hljóðfæraleikurunum á skemmtistöðum og dansleikjum er ljóst að það virðist einungis hafa haft góð áhrif á íslenska hljóðfæraleikara. Ekki er hægt að draga ályktun um annað, a.m.k. minnast þeir sem hafa spilað með þeim þess með gleði og telja sig hafa lært heilmikið af þeim. Erlendu tónlistarmennirnir sem hingað komu til að sinna tónlistarkennslu voru ekki síður mikilvægir því þeir undirbjuggu nýja kynslóð hljóðfæraleikara til þess að taka við þessum störfum sem og öðrum störfum innan tónlistarinnar. Ekki má gleyma að nefna erlendu gestina sem komu hingað til tónleikahalds en áhrif þeirra eru mögulega ekki eins augljós en nokkuð ljóst er þó að þeir hafa veitt innblástur og mögulega borið með sér nýja strauma og stefnur.

Heimildaskrá:

Ammendrup, Tage. „Rex Stewart bannað að skemmta á Íslandi“. Jazz 1, tbl. 6 (10. janúar 1947): 3–4.

„Á flugi síðan 1937 | Icelandair“. Sótt 9. maí 2018. https://www.icelandair.com/is/um-okkur/sagan/a-flugi-sidan-1937/.

Árni Matthíasson. Papa Jazz: lífshlaup Guðmundar Steingrímssonar. Reykjavík: Hólar, 2009.

———. Papa Jazz: lífshlaup Guðmundar Steingrímssonar. Reykjavík: Hólar, 2009.

Ástandsbörn, 2017. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/astandsborn/20170707.

Björnsdóttir, Inga Dóra. „Hin karlmennlega raust og hinn hljóðláti máttur kvenna: Upphaf kórsöngs á Íslandi“. Saga XXXIX (2001): 7–50.

„Bréfakassinn“. Jazz 1, tbl. 6 (1. október 1947): 15–16.

Eðvarð Ingólfsson. Lífssaga Ragga Bjarna: söngvara og spaugara. Reykjavík: Æskan, 1992.

Einarsson, Stefán. „Fagurt mál: Nokkrar hugleiðingar“. Skírnir 108, tbl. 1 (janúar 1934): 131–49.

Gunnar Karlsson. Íslandssaga í stuttu máli. 2. útg., endurskoðuð. Reykjavík: Mál og menning, 2010.

Hall, Þorbjörg Daphne, og Ásbjörg Jónsdóttir. „Iceland, 1930-1945“. Í The Oxford history of jazz in Europe, Vol. 2., The Second World War, ritstýrt af Walter van de Leur. New York, NY: Oxford University Press, Forthcoming.

Halldórsdóttir, Guðný. „Minningargrein/Tage Ammendrup“. Morgunblaðið. 20. maí 1995, 113 útgáfa.

Helgadóttir, Herdís. Úr fjötrum: íslenskar konur og erlendur her. Mál og menning, 2001.

Jackson, Jeffrey H. „Making Jazz French: The Reception of Jazz Music in Paris, 1927-1934“. French Historical Studies 25, tbl. 1 (1. febrúar 2002): 149–70. https://doi.org/10.1215/00161071-25-1-149.

„Jazzþáttur“. Morgunblaðið. 21. nóvember 1950, 271 útgáfa.

Jón Múli Árnason. Djass. Reykjavík: Félag íslenskra hljómlistarmanna : Iðnskólaútg, 1985.

———. Djass. Reykjavík: Félag íslenskra hljómlistarmanna : Iðnskólaútg, 1985.

Jónasson, Halldór. „Tónment á Íslandi: Þörf á tónlistaskóla“. Morgunblaðið. 24. desember 1929.

Jónsson, Jakob. „Ísland á krossgötum“. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 18, tbl. 1 (1. janúar 1939): 39–51.

Konráðsson, Þorsteinn. „Íslenzkar kirkjusöngsbókaútgáfur á 16.-20. öld“. Tónlistin 5, tbl. 3–4 (47 1946): 61–61, 67.

Lamm, Sigurlaug Regina. Musik und Gemeinschaft einer Nation im Werden: Die Einführung der Kunstmusik in Island in der Zeit von ca. 1800 bis 1920. S. Academiae Ubsaliensis, 2001.

Leifs, Jón. „Íslenskt tónlistarlíf“. Morgunblaðið. 14. ágúst 1921.

Linnet, Vernharður. „Iceland“. Í The History of European Jazz: The Music, Musicians and Audience in Context, ritstýrt af Francesco Martinelli og Dean Bargh, 264–74. Sheffield: Equinox, 2018.

Óðinn Melsted. Með nótur í farteskinu: erlendir tónlistarmenn á Íslandi 1930-1960. Smárit Sögufélagsins. Reykjavík: Sögufélag, 2016.

Rastrick, Ólafur. „‘Not music but sonic porn’: negative reception of jazz, identity politics and social reform“. Cultural History: Journal of the International Society for Cultural History, Forthcoming.

Sigurðsson, Kristján. Hljómsveit Reykjavíkur: 1925-1931. Reykjavík: Prentsmiðja Jóns Helgasonar, 1931.

„Styr um tékkneskan fiðluleikara á Hótel Island“. Morgunblaðið, 11. janúar 1939.

Svavar Gests. Hugsað upphátt: æviminningar. Reykjavík: Fróði, 1992.

Tónlistarvinur. „Enn um Bjarna Ben. og Rex Stewart“. Þjóðviljinn. 15. október 1947, 235 útgáfa.

Whitehead, Þór. Ísland í hers höndum. Vaka-Helgafell, 2002.

Þorri. „Þá þótti óhæfa að landinn léki fyrir dansi“. Alþýðublaðið. 19. nóvember 1969.

---


[1] Báðar þessar tilvitnanir eru teknar úr Óðinn Melsted, Með nótur í farteskinu: erlendir tónlistarmenn á Íslandi 1930-1960, Smárit Sögufélagsins (Reykjavík: Sögufélag, 2016), 10–11. Þýðing úr ensku koma frá Óðni sjálfum.

[2] Þorsteinn Konráðsson, „Íslenzkar kirkjusöngsbókaútgáfur á 16.-20. öld“, Tónlistin 5, tbl. 3–4 (47 1946): 62.

[3] Óðinn Melsted, Með nótur í farteskinu, 12; Sigurlaug Regina Lamm, Musik und Gemeinschaft einer Nation im Werden: Die Einführung der Kunstmusik in Island in der Zeit von ca. 1800 bis 1920 (S. Academiae Ubsaliensis, 2001), 64–74.

[4] Inga Dóra Björnsdóttir, „Hin karlmennlega raust og hinn hljóðláti máttur kvenna: Upphaf kórsöngs á Íslandi“, Saga XXXIX (2001): 13.

[5] Jón Leifs, „Íslenskt tónlistarlíf“, Morgunblaðið, 14. ágúst 1921, 1.

[6] Leifs, 2.

[7] Halldór Jónasson, „Tónment á Íslandi: Þörf á tónlistaskóla“, Morgunblaðið, 24. desember 1929, 10.

[8] Jónasson, 11.

[9] Kristján Sigurðsson, Hljómsveit Reykjavíkur: 1925-1931 (Reykjavík: Prentsmiðja Jóns Helgasonar, 1931), 58.

[10] Óðinn Melsted, Með nótur í farteskinu, 38.

[11] Rétt er að benda að Óðinn Melsted rekur þessa sögu mjög nákvæmlega í bók sinni, Með nótur í farteskinu, og byggir þessi fyrsti hluti greinar okkar á henni.

[12] Árni Matthíasson, Papa Jazz: lífshlaup Guðmundar Steingrímssonar (Reykjavík: Hólar, 2009), 48.

[13] Óðinn Melsted, Með nótur í farteskinu, 41–42.

[14] Óðinn Melsted, 151–54.

[15] „Styr um tékkneskan fiðluleikara á Hótel Island“, Morgunblaðið, 11. janúar 1939.

[16] Vernharður Linnet, „Iceland“, í The History of European Jazz: The Music, Musicians and Audience in Context, ritstj. Francesco Martinelli og Dean Bargh (Sheffield: Equinox, 2018), 265.

[17] Óðinn Melsted, Með nótur í farteskinu, 226.

[18] Jón Múli Árnason, Djass (Reykjavík: Félag íslenskra hljómlistarmanna : Iðnskólaútg, 1985), 217.

[19] Linnet, „Iceland“, 265; Óðinn Melsted, Með nótur í farteskinu, 224.

[20] Linnet, „Iceland“, 265; Jón Múli Árnason, Djass (Reykjavík: Félag íslenskra hljómlistarmanna : Iðnskólaútg, 1985), 217.

[21] Þorri, „Þá þótti óhæfa að landinn léki fyrir dansi“, Alþýðublaðið, 19. nóvember 1969.

[22] „Þá þótti óhæfa að landinn léki fyrir dansi”.

[23] Jeffrey H. Jackson, „Making Jazz French: The Reception of Jazz Music in Paris, 1927-1934“, French Historical Studies 25, tbl. 1 (1. febrúar 2002): 149–70, https://doi.org/10.1215/00161071-25-1-149.

[24] „Þá þótti óhæfa að landinn léki fyrir dansi“.

[25] Óðinn Melsted, 70,108.

[26] Óðinn Melsted, 49.

[27] Þór Whitehead, Ísland í hers höndum (Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2002), 129.

[28] Viktoría Hermannsdóttir (dagskrárgerðarmaður), Ástandsbörn [útvarpsþáttur] (Reykjavík: RÚV, apríl 2017).

[29] Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum: íslenskar konur og erlendur her (Reykjavík: Mál og menning, 2001), 125.

[30] Árni Matthíasson, Papa Jazz: lífshlaup Guðmundar Steingrímssonar (Reykjavík: Hólar, 2009), 42.

[31] Ólafur Rastrick, „‘Not music but sonic porn’: negative reception of jazz, identity politics and social reform“, Cultural History: Journal of the International Society for Cultural History, Forthcoming.

[32] Jakob Jónsson, „Ísland á krossgötum“, Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 18, tbl. 1 (1. janúar 1939): 40; Stefán Einarsson, „Fagurt mál: Nokkrar hugleiðingar“, Skírnir 108, tbl. 1 (janúar 1934): 132.

[33] Whitehead, Ísland í hers höndum, 164.

[34] Höfundar hafa fjalla nánar um viðtökur á jazzinum og má finna það í Þorbjörg Daphne Hall og Ásbjörg Jónsdóttir, „Iceland, 1930-1945“, í The Oxford history of jazz in Europe, Vol. 2., The Second World War, ritstj. Walter van de Leur (New York, NY: Oxford University Press, væntanlegt).

[35] Gunnar Karlsson, Íslandssaga í stuttu máli, 2. útg., endurskoðuð (Reykjavík: Mál og menning, 2010), 62.

[36] Eðvarð Ingólfsson, Lífssaga Ragga Bjarna: söngvara og spaugara (Reykjavík: Æskan, 1992), 126.

[37] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 122.

[38] Árni Matthíasson, 122.

[39] Árni Matthíasson, 121.

[40] Árni Matthíasson, 120.

[41] Árni Matthíasson, 103.

[42] Árni Matthíasson, 41.

[43] Eðvarð Ingólfsson, Lífssaga Ragga Bjarna, 127–128.

[44] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 111.

[45] Eðvarð Ingólfsson, Lífssaga Ragga Bjarna, 206.

[46] Svavar Gests, Hugsað upphátt: æviminningar (Reykjavík: Fróði, 1992), 130.

[47] Svavar Gests, 125.

[48] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 65.

[49] Linnet, „Iceland“, 267.

[50] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 193.

[51] „Jazzþáttur“, Morgunblaðið, 21. nóvember 1950, 271. útgáfa.

[52] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 193–94.

[53] „Á flugi síðan 1937,“ Icelandair, sótt 9. maí 2018, https://www.icelandair.com/is/um-okkur/sagan/a-flugi-sidan-1937/.

[54] Svavar Gests, Hugsað upphátt, 139.

[55] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 55.

[56] Guðný Halldórsdóttir, „Minningargrein/Tage Ammendrup“, Morgunblaðið, 20. maí 1995, 113. útgáfa.

[57] Árni Matthíasson, Papa Jazz, 2009, 57.

[58] „Bréfakassinn“, Jazz 1, tbl. 6 (1. október 1947): 15–16.

[59] Tage Ammendrup, „Rex Stewart bannað að skemmta á Íslandi“, Jazz 1, tbl. 6 (10. janúar 1947): 3–4.

[60] Tónlistarvinur, „Enn um Bjarna Ben. og Rex Stewart“, Þjóðviljinn, 15. október 1947, 235. útgáfa.

[61] Svavar Gests, Hugsað upphátt, 139–40.