ÞRÆÐIR - Tölublað 3 - apríl 2018

Um höfunda:

 

Atli Ingólfsson

Atli Ingólfsson nam tónsmíðar í Reykjavík, Mílanó og París og bjó lengi í Bologna og starfaði við list sína.  Hann býr nú í Reykjavík, semur tónlist og kennir jafnframt hljómfræði og tónsmíðar.  Verk hans eru mörg og af öllu tagi. Atli er prófessor í tónsmíðum við LHÍ.

 

Berglind María Tómasdóttir

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir, erkitýpur og tónlist sem samfélagslegt fyrirbæri. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Árið 2014 lauk hún doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.

 

Einar Torfi Einarsson

Einar Torfi Einarsson er tónskáld og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann nam tónsmíðar í Reykjavík, Amsterdam, Graz, og lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá háskólanum í Huddersfield undir leiðsögn Aaron Cassidy. 2013-2014 gegndi hann rannsóknarstöðu við Orpheus Institute í Belgíu. Tónlist hans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um alla Evrópu og unnið til verðlauna í Hollandi og Austurríki. Undanfarið hafa verk hans lagt áherslu á tilraunakennda nótnaritun þar sem mörk tónlistar og myndlistar eru könnuð.

 

Halldór Úlfarsson

Halldór Úlfarsson nam myndlist við finnsku myndlistarakademíuna og síðar vöruhönnun við deild sem nú er við Aalto háskóla, hann útskrifaðist þaðan árið 2008 með verkefni sitt dórófóninn, raf-akústískt strengjahljóðfæri sem hann hefur unnið með síðan. Við Listaháskólann hefur Halldór rekið verkstæði Hönnunardeildar og jafnframt verið aðjúnkt við Vöruhönnun, kennt sem stundakennari í Myndlistardeild og ásamt Þráni Hjálmarssyni þróað þverfaglega námskeiðið "Hljómur sem efniviður" sem hefur verið hýst af Tónlistardeild LHÍ. Þessa stundina er Halldór í doktorsnámi við háskólann í Sussex í Bretlandi undir leiðsögn Þórhalls Magnússonar og Chris Kiefer. Halldór býr í Grikklandi og stefnir á að læra grísku á næstu árum.

 

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson

Hróðmar I. Sigurbjörnsson lauk prófi í tónsmíðum frá Tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984 þar sem tónsmíðakennarar hans voru Þorkell Sigurbjörnsson og Atli Heimir Sveinsson. Hann stundaði framhaldsnám í tónsmíðum hjá hollenska tónskáldinu Joep Straesser við Konservatoríið í Utrecht í Hollandi þaðan sem hann lauk prófi 1988. Frá haustinu 1988 hefur hann unnið sem tónskáld og kennari í tónsmíðum og tónfræðum. Hann gegnir nú stöðu lektors og fagstjóra í tónsmíðum og tónfræðum við tónlistardeild LHÍ. Hróðmar hefur samið verk fyrir einleikshljóðfæri, ýmsar kammersamsetningar, kóra, hljómsveitarverk, konserta og óperu auk tónlistar fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.

 

Þráinn Hjálmarsson

Þráinn Hjálmarsson er tónskáld og stundakennari við LHÍ og MÍT. Tónlist Þráins hefur verið leikin víða um heim af ýmsum tilefnum af hópum og flytjendum á borð við CAPUT, Basel Sinfonietta, BBC Scottish Symphony Orchestra, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Vertixe Sonora, Nordic Affect, Athelas sinfonietta, Kammersveit Reykjavíkur auk fjölda annarra. Þráinn fer með listræna stjórn tónleikaraðarinnar Hljóðön, í Hafnarborg, tónleikaröð tileinkaðri samtímatónlist.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 3