Handan tónlistar

Berglind María Tómasdóttir

 

Fyrirlestur, fluttur í Listaháskóla Íslands, 2. febrúar 2018

 

Góðan dag.

Ég ætla að fjalla um verk mín og vinnuaðferðir, í samhengi við þverfaglega nálgun á sviði tónlistar, sem hefur verið nefnd nýja fagið. Ég mun gera stuttlega grein fyrir bakgrunni mínum og áhrifavöldum, fjalla um fyrri verk sem og þau verk sem ég hef unnið að síðastliðin misseri hugmyndafræðilegan bakgrunn þeirra og vinnsluaðferðir.

Bakgrunnur minn er í klassísku hljóðfæranámi, ég lærði flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, hélt áfram námi við Konunglega danska konservatoríið í Kaupmannahöfn hvaðan ég útskrifaðist árið 2001. Þá tóku við sjö ár þar sem ég starfaði sem tónlistarmaður á Íslandi. Það þýddi auðvitað alls kyns, sem er veruleiki flestra tónlistarmanna, alls kyns tónleikar, stöðugt meira af nýrri tónlist og listrænni stjórnun á því sviði. Einnig hellingur af menningarstjórnun og mikið af útvarpsþáttagerð, nánar tiltekið þrjú ár í fullu starfi á Rás 1 sem ritstjóri og umsjónarmaður síðdegisþáttar sem hét Hlaupanótan. Ég gegndi líka stöðu framkvæmdastjóra Sumartónleika í Skálholtskirkju og var framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna til að eitthvað sé nefnt.

Hér eru nokkur dæmi eða sýnishorn af því sem ég gerði á þessum árum, eða öllu heldur nokkur dæmi um þau útgefnu hljóðrit sem standa eins og minnisvarði um þann tónlistarflutning sem átti sér stað á þessum árum. Hvernig skrásetjum við tónlistariðkun? Er tónlist hlutur?

 
Dæmi 1: Þorkell Sigurbjörnsson, Columbine

 

Dæmi 2: Njúton, Roto con moto eftir Hlyn Aðils Vilmarsson

 

Dæmi 3: Berglind Tómasdóttir, Icelandic Flute Music

 

Kaflaskil urðu árið 2008, þegar ég hóf doktorsnám við Kaliforníuháskóla í San Diego í flutningi samtímatónlistar. Þar byrjaði afstaða mín gagnvart eigin tónlistiðkun að breytast og ég hóf að taka markviss skref í átt að því að vera skapandi tónlistarmaður. Í dag skilgreini ég mig sem flytjanda og tónskáld, stundum segist ég vera skapandi tónlistarmaður (sem er pínu problematískt því það getur líka falið í sér ákveðinn dóm gagnvart öðrum; eru þá hinir ekki skapandi?), stundum segi ég þverfaglegur tónlistarmaður og í enn þrengri ramma gæti ég skilgreint mig út frá Nýja faginu eða the New Discipline sem ég tala meira um hér á eftir.

Hvað er það að vera skapandi tónlistarmaður? Kannski er það að vera skapandi fyrst og fremst að spyrja spurninga, nýja fagið — heiti á einhverju sem alltaf hefur verið til, kannski ættum við að tala um gamla fagið — við vitum jú að fram á 19. öld voru tónlistarmenn allt í senn tónskáld og flytjendur.

Í doktorsnámi mínu við Kaliforníuháskóla í San Diego byrjaði ég að teikna sem hljómar eins og eitthvað sem er léttvægt og skiptir litlu máli, en skipti í raun öllu máli. Þessar teikningar notaði ég eins og skor, fékk félaga til að spila út frá þeim með mér, að búa til tónlist út frá þessum myndum. Myndirnar voru ekkert endilega vel til þess fallnar að nota sem skor, en allt byrjar þetta einhvern veginn, sem segir auðvitað allt, allt byrjar þetta einhvern veginn. Ég man eftir því að hafa heyrt konu sem í dag er virðulegt tónskáld lýsa því hvernig hún varð að leggja fiðluna á hilluna þegar hún byrjaði að vinna með skapandi hætti að tónlist þá um tvítug að aldri. Hvernig fiðlan, sem hún þekkti eingöngu sem verkfærið sem hún þurfti að æfa sig á til að ná fram ákveðinni fullkomnun, stóð í veginum fyrir því að hún gæti unnið með skapandi hætti að tónlist. Það var þá sem klukkuspilið og önnur tilfallandi hljóðfæri komu sterk inn.

Þegar þetta er tilfellið — hvað er þá að í tónlistarnámi?

Nóg um það, ég ætla að spóla nokkuð hratt yfir sögu. Í stuttu máli: Nám í umhverfi þar sem nægur tími, rými og skapandi samfélag er til staðar getur skipt sköpum. Að hafa tíma til að hugsa er ef til vill það dýrmætasta sem til er. Hvað er það sem þú ert að reyna að segja í tónlist? Af hverju skiptir það máli? Fyrir hvern?

Þetta eru mikilvægar spurningar sem ég vona að þið hafið tíma og rými í ykkar námi til að hugsa út í.

Eins og ég sagði ykkur hér áðan þá er aðalefni þessa fyrirlesturs að varpa ljósi á verk mín sem flytjandi og tónskáld með þverfaglegar áherslur og sem beintengjast inn í hugmyndafræði sem kennd er við nýja fagið. Því langar mig að byrja á að sýna ykkur brot úr verki sem var tímamótaverk á mínum ferli. Fyrsta verkið þar sem ég staðsetti mig sem höfund, samt er tónlistin ekki eftir mig utan kadensunnar. Þetta verk er klárlega hægt að greina sem póstmódernískt uppgjörsverk: póstmódernískt, því í því ægir saman ótal stílbrigðum fortíðar og í því felst líka ákveðið andsvar við módernisma og afleiðum hans. Verkið samanstendur af eftirfarandi þáttum: Undirspili með Rússnesku fílharmóníunni að flytja Konsert fyrir flautu og strengi í G-dúr eftir W.A. Mozart. Hljóðrás sem ég tók upp í hljóðveri sem inniheldur flautuleikinn, þannig að þetta er í raun karókí-Mozart. Verkið inniheldur jafnframt videó þar sem ég spegla mig í ímyndum sem við finnum svo oft í kynningarefni klassískrar tónlistar og í karókí. Þarna má sjá mig í skóginum, þarna er ég og sólsetrið og svo framvegis. Og svo er þetta performans í rými þar sem ég er læf, en samt passíf, það er að segja ég er á staðnum, flytjandi á sviði sem fylgist með en tekur ekki annan þátt utan að vera á staðnum. Og svo er það kadensan.

 

Dæmi 4: Berglind Tómasdóttir, Mozierto

Þarna kristallast um það bil 20 ára frústrasjón klassíska tónlistarflytjandans sem er staddur í Mozart konsert og notar uppálagt tækifæri til að vera skapandi í kadensunni sem væri líka hægt að kalla fríspil — þessi kadensa er allt í senn hljóðverk, tónlistarflutningur, performans eða gjörningur. Bless klassísk tónlist, sjáumst síðar.

Og nú er tímabært að tala um það sem ég kynnti hér í upphafi sem nýja fagið, eða The New Discipline.

Árið 2016 skrifaði írska tónskáldið og flytjandinn textakorn undir yfirskriftinni the New Discipline án þess að gera sér grein fyrir þeim áhrifum á orðræðu um nýja tónlist sem textinn hefur haft. í textanum — sem er í form eins konar manifesto — eða stefnuyfirlýsingar — gerir hún grein fyrir tónlistariðkun sinni sem tónskáld og flytjandi þar sem allir miðlar liggja undir, og í hverri, þ.e.a.s. iðkuninni, áherslan er ekki síst á þá líkamlegu nærveru sem lifandi tónlistarflutningur hefur í för með sér, við flytjendur eru líkamar á sviði. Svona hljóðar fyrsta málsgrein yfirlýsingar Jennifer Walshe:

The New Discipline” is a term I’ve adopted over the last year. The term functions as a way for me to connect compositions which have a wide range of disparate interests but all share the common concern of being rooted in the physical, theatrical and visual, as well as musical; pieces which often invoke the extra-musical, which activate the non-cochlear. In performance, these are works in which the ear, the eye and the brain are expected to be active and engaged. Works in which we understand that there are people on the stage, and that these people are/have bodies.

Þetta er ekki eitthvað sem Jennifer Walshe fann upp á — þeas iðkunin sem slík, þrátt fyrir að vera höfundur þessa hugtaks eða skilgreiningar. Á bak við þessa skilgreiningu liggur heill heimur af tónlistariðkun sem við gætum rótfest í hreyfingum eins og Dada þriðja áratugarins, Fluxus-stefnunni sem blómstraði á sjöunda áratugnum og síðast en ekki síst þeim geira sem er skilgreindur sem tilraunatónlist sem er í raun kannski alls ekki geiri heldur nálgun, þar sem uppleggið er rannsóknarlegs eðlis og útkoman er óviss.

Lagt er upp í leiðangur þar sem útkoman getur verið alla vega og oft alls ekki aðalatriðið. Í þessu samhengi væri hægt að nefna marga til sögunnar en látum nægja að nefna þau John Cage og Pauline Oliveros sem voru frumkvöðlar á svo marga vegu á þessu sviði, í kjölfarið hefur fjöldi fólks komið að sem hefur haft djúpstæð áhrif á framvindu tónlistar sem staðsett er á mörkum listgreina.

Meiri tónlist, aftur til ársins 2012.

Verkið I’m an Island eftir mig tekur alls um hálftíma í flutningi og er unnið út frá rannsóknum um íslenskan hljóðheim. Í verkinu vann ég með þemu sem hafa verið skilgreind sem lýsandi fyrir íslenskan hljóðheim, eða kannski öllu heldur: hugmynd mín var að vinna eingöngu með tónlistarlegar og menningarlegar klisjur sem tengjast efninu, þannig notaði ég samstígar fimmundir óspart, ég notaði melódiku sem tilvísun í íslenska indietónlist eða krútttónlist og bjó til lög í anda þjóðlaga. Stefin eða minnin birtust líka í sviðsetningunnim, búningurinn er tilvísun í búning íslensku fjallkonunnar, reykur og vindvél skapaði þjóðlega en dularfulla stemmningu. Verkið samanstendur af nokkrum sjálfstæðum verkum og því kannski réttara að tala um show eða sýningu heldur en tónverk.

 

Dæmi 5: Berglind Tómasdóttir, brot úr I'm an Island

Næst beini ég sjónum að tveimur verkum þar sem um skapandi samvinnu milli mín og tónskálds hefur verið að ræða. Og í báðum tilfellum er sannlega unnið með líkamann í rýminu, í formi kóreógrafíu og fleira. Fyrra verkið sem ég sýni ykkur var skrifað fyrir mig af Carolyn Chen og dekkar sögu flautunnar hvorki meira né minna. Tónefnið er allt tekið úr þekktum verkum fyrir flautu og er því um eins konar flautumósaík að ræða. Þegar ég, árið 2011, fór þess á leit við Carolyn að semja fyrir mig verk hófum við samtal um eðli hljóðfærisins, helstu flautubókmenntir — í stuttu máli hvernig hljóðfærið blasti við mér, eins og sambandi mínu við það hafði verið háttað fram að því. Carolyn lét sér ekki nægja að skrifa nótur, heldur útbjó hún — í samvinnu við mig — dans sem þið sjáið upptöku af hér á eftir.

En fyrst orð Carolyn um verkið og titilinn:

"Clark Kent is not a disguise. Clark is who I am, while Superman is what I do."

Medieval poet Eustache Deschamps suggested that the flute led a double life -- as a soft, indoor instrument, as well as a loud, military one, played with bagpipes and trumpets.

Britney Whitney Clark Kent Is Not a Disguise is a dance-dance concerto for flute and orchestra on tape, exploring the history and identity of flute and flutist. When we first talked about a piece, Berglind spoke of her *ambivalent [or ever-evolving?]* relationship with historical repertoire and its enduring connection to the identity of the flute as an instrument as well as the identity of the classically-trained flute virtuoso. The piece began with my conviction that Berglind's secret identity is a pop star, and that this identity is in fact connected to the music of the past. The work was to trace out these connections, motivically and spiritually.

 

Dæmi 6: Caroline Chen, Britney Whitney Clark Kent Is Not a Disguise

Annað verk frá svipuðum tíma eftir tónskáldið Clinton McCallum, verkið Twinzies, samið 2011 og 2012, frumflutt í febrúar 2012.

Þetta verk var samið fyrir mig og söngkonuna Leslie Leytham og var einnig unnið út frá samtölum okkar og hugmyndum um samvinnu. Twinzies er verk um það að deila, eða með orðum Clints: Twinzies is a piece about sharing. Það sem gerir þetta verk gífurlega sérstakt í mínum huga er að mánuði eftir frumflutning þess varð ég ólétt af tvíburum.

Tilviljun?

Meðfylgjandi er texti Clints um verkið. Hér má greina mjög svipaðar áherslur og hjá Jennifer Walshe og fleiri tónskáldum sem staðsetja sig innan Nýja fagsins - eða á mörkum listgreina - það er ekki farið fram á að flytjandi leiki, heldur er þetta spurning um að vera — þannig kallast þetta á við gjörningalist, frekar heldur en leiklist.

 

Dæmi 7: Clinton McCallum, Twinzies

Það er einmitt þetta gefandi samtal sem ég lít á sem lykilforsendu fyrir því sem ég hef kosið að kalla hér skapandi samvinna. Að flytjandi og tónskáld eigi samtal þar sem farið er yfir hugmyndir og útfærslur prófaðar og þróaðar á jafningagrundvelli.

Tvö síðustu dæmin sem mig langar að deila með ykkur hér í dag eru verkin Herberging og Konsert fyrir horn, Lokk og rokk, hvor tveggja eftir mig og sem ég kem einnig að sem flytjandi. Það fyrra er verk af væntanlegri plötu sem inniheldur tónlist fyrir flautu og rafhljóð. Árið 2016 hóf ég vinnslu við verkefni sem síðar fékk nafnið Herberging. Verkefnið samanstendur af þremur verkum sem samin eru upp úr hljóðrituðum flautuhljóðum sem ég vann með í tölvu. Verkin þrjú eru mjög lauslega byggð upp og því um eins konar rafspuna að ræða. Ég tók síðan upp flautuspuna við öll verkin í hljóðveri og er nú með verkin tilbúin til útgáfu. Þetta verk stendur mitt á milli spuna og saminnar tónlistar, tónlist sem að hluta er samin í rauntíma og rannsakar þannig mörkin milli spuna og saminnar tónlistar.

 
Dæmi 8: Berglind Tómasdóttir, Herberging

 

Lokaverkið sem ég tala um hér í dag er Konsert fyrir horn, Lokk og rokk, samið að beiðni RÚV fyrir hátíðina Deilt með tveimur sem fór fram í októberlok í Hafnarhúsinu og var send út beint á Rás 1 og ruv.is. Hátíðin var jafnframt undir minni listrænu stjórn.

Verkið var unnið upp úr samvinnu við tónskáldin og flytjendurna Hafdísi Bjarnadóttur og Bergrúnu Snæbjörnsdóttur en á um 40 mínútna löngum tónleikum fluttum við verk eftir hver aðra á áðurnefnd hljóðfæri. Við nálguðumst tónlistina að hluta til eins og popphljómsveit, það er að segja við unnum út frá fyrirframgefnum hugmyndum hverrar annarra — en margt af því sem sem gerðist í því spunaferli endaði jafnframt í lokaútgáfum verkanna. Þannig má segja að þetta verk kanni líka mörk spuna og fyrirfram skráðrar tónlistar eða spuna sem tónsmíðaaðferð.

Verkið er í þremur köflum, og eltir þannig klassíska konsertformið, hratt, hægt og hratt, og það er hornið sem gegnir ákveðnu einleikshlutverki.

 

Deilt með tveimur - tónleikar #3

Berglind María Tómasdóttir, Hafdís Bjarnadóttir, Bergún Snæbjörnsdóttir.

Dæmi 8: Konsert fyrir Horn, Lokk og rokk. (verkið hefst á 26:00)

 

Takk fyrir að hlusta. / Thank you for your attention.