Tónlistariðkun sem hugleiðing – Spuni sem rannsókn

Úlfar Ingi Haraldsson

Eftirfarandi texti er byggður á erindi sem ég flutti á svæðisþingi tónlistarskólanna hrunárið mikla, nánar tiltekið september 2008. Það er áhugavert að koma að þessum hugleiðingum aftur um leið og maður veltir fyrir sér viðhorfum, nýjungum og þróun í tónlistarkennslu á undanförnum áratug. Það er ekki ætlunin að gera einhverskonar úttekt á stöðunni eins og hún kann að vera í dag heldur fyrst og fremst nota tækifærið til að undirstrika mikilvæg atriði er lúta að andlegum og persónulegum þroska í tengslum við nám og tónlistariðkun.

Mig langar til að fjalla hér um efni sem hefur ekki fengið sérlega mikla umfjöllun eða athygli í okkar venjubundna tónlistaruppeldi en þó má segja að á síðustu árum hafi átt sér stað vitundarvakning og áhugi farið vaxandi á þýðingu tónlistarspuna af ýmsu tagi í hinu almenna starfi tónlistarskólanna. Frá upphafi hefur Tónlistarskóli FÍH haft sérstöðu í þessu sambandi enda upphaflega stofnaður með það að markmiði að sinna sérstaklega spunatónlist sem aðrir skólar höfðu veitt litla eða enga athygli og á ég hér aðallega við djasstónlist. Síðar hefur námsframboðið þróast og innan FÍH skólans er nú snert á flestum þeim þáttum er tengjast tónlistarspuna hvort sem er með tilliti til hinna ýmsu skilgreindu tónlistarstíltegunda sem byggja á spuna eða annarra frjálsari aðferða.

Nú má líklega segja að í flestum skólum sé kominn einhver vísir að tónlistarstarfi sem tengist djass eða dægurtónlist og þá um leið hefur spuni er tengist viðkomandi stíl orðið viðfangsefni nemenda og kennara. Fyrir slíkt starf er til töluvert af góðu kennsluefni, sérstaklega erlendu efni en þó líka eitthvað af efni á íslensku. Hér er ekki ætlun mín að fjalla um tónlistarspuna út frá ákveðnum tónlistarstílum heldur beina sjónum almennt að möguleikum tónlistarspuna í okkar almenna klassíska tónlistarnámi, þá bæði í einkatímum og samspili. Spurningin varðar það hvernig finna megi leið til að gera spuna að virkum þætti í námsferli nemenda og rækta þann þátt meir en gert hefur verið með hefðbundinni áherslu á túlkun þegar nemendur kljást við hin ýmsu verk tónbókmenntanna. 

Áður en að ég kem sérstaklega að spuna og þýðingu hans fyrir þroska á sjálfstæðri, gagnrýnni og skapandi hugsun þá langar mig fyrst til að fjalla almennt um þá nálgun sem ég tel farsælli í kennslu en þá sem oft hefur verið mest áberandi í umfjöllun um tónlist og tónlistarnám. Það sem hefur oft verið mest áberandi er áhersla á tækni og túlkun, og eitthvað sem stundum mætti líkja við hálfgerða íþróttamennsku með tilheyrandi keppnum og verðlaunum. Farsælli nálgun tel ég vera að leggja áherslu á þýðingu tónlistarnáms og tónlistariðkunar sem andleg og persónuleg rækt fyrir einstaklinginn frekar en að kennslan mótist að svo stórum hluta af áherslu á túlkunar- og tæknilega getu. Hvað á ég nákvæmlega við með þessu? – Með þessu á ég við að kennslan opni meira fyrir afgerandi nýjungar sem miða að því að rækta hæfileika nemandans í stærra, persónulegra og markvissara samhengi.

Almennt séð höfum við oft heyrt talað um tónlistarnám sem gott fyrir þroska einstaklingsins og að nemendum sem stunda tónlist gangi gjarnan betur í almennu námi o.s.fr. Tónninn í slíkri umræðu, sem sérstaklega kemur upp á yfirborðið í kjarabaráttu, hefur mótast af því að finna einhver praktísk, sjáanleg, bein rök fyrir ráðamenn, rök sem undirstrika á sinn hátt að það sé þess virði að styðja við og styrkja starf tónlistarskólanna. Við vitum þó að það er svo margt sem gerist í slíku námsferli og mjög mörg af þeim jákvæðu áhrifum sem þetta ferli hefur í för með sér er erfitt að mæla og meta.

Hvernig mætti sjá fyrir sér aukna áherslu á hinn „andlega”/persónuþroskaþátt tónlistarnámsins?

Eitt af því sem skiptir miklu máli í þessu sambandi er að finna leiðir til að rækta með nemendum forvitni, áhuga og væntumþykju fyrir hljóðheiminum í víðum skilningi. Þetta má gera með markvissri hlustun þar sem notaðar eru fjölbreyttar aðferðir til að fá nemanda til að tengjast viðfangsefninu, hafa skoðun, sjálfstæði og byrja snemma á því að þroska hæfileika til heilbrigðrar gagnrýni sem byggist á innsæi og þekkingu.  Hér mætti ímynda sér markviss tóndæmi með hljóðritunum eða að kennari spili brot fyrir nemandann með það fyrir augum að leggja fyrir viðkomandi fyrirframákveðna og krítíska spurningu sem hvetur til þess að nemandinn sé ávallt virkur/meðvitaður gagnvart viðfangsefninu. Höfuðmáli skiptir að kennari eigi í músíkölskum samræðum við nemandann og umgjörðin sé ekki ávallt samkvæmt hefðbundnum hlutverkum nemanda og kennara.

Það mætti sjá fyrir sér að það hefðbundna efni sem kennarar eru að nota í sinni kennslu væri líka uppspretta fyrir sjálfstæðari leik eða útfærslu á ýmsum tæknilegum áskorunum þar sem t.d. ákveðin vandamál eru einangruð og þau síðan tekin fyrir meira í spuna samhengi, þ.e. einfaldlega að leika sér með viðkomandi hryn eða mótíf og ná valdi yfir því á þann hátt sem nær lengra en það að geta spilað viðkomandi augnablik í verkinu eingöngu þegar það er í ákveðnu samhengi og á ákveðnum hraða. Í þessu sambandi eru etýður oft ágætis efni/uppspretta og man ég eftir að hafa heyrt haft eftir miklum hljóðfærasnillingi fyrri alda sem nefndi að etýður ætti t.d. að læra það vel að þær gætu verið spilaðar algjörlega utan að og af slíku valdi að það lægi beint við fyrir hljóðfæraleikarann að fara að spila í kringum upprunalega efnið og nota það sem innblástur fyrir áframhaldandi spunaleik. Með slíkt að leiðarljósi þá mundi ég telja að þroskaðir og lengra komnir nemendur yrðu t.d. mun meira meðvitaðir um eðli og tilgang verkefna. Nemendur yrðu líka færari og óhræddari við að greina sértæk vandamál og um leið nýta betur þann tíma sem lagður er í æfingar. Ekki er óalgengt að æfingatími tónlistarnema snúist mestmegnis um lestur og tækni þar sem óhóflegum endurtekningum er beitt til að „hjakkast“ í gegnum erfiðleikana. Það mætti sjá fyrir sér að æfingatíminn snerist miklu meira um að greina og leita sértækra lausna á tæknilegum vandamálum og að innlegg kennarans snerist að mestu leiti um að blása nemanda í brjóst og hvetja slíka greiningu og leit. Um leið tel ég að með slíkri nálgun eigi sér stað þjálfun í að takast á við ýmis annarskonar vandamál tilverunnar í víðari skilningi.

Annað atriði sem mér finnst mikilvægt varðandi áhersluna á tónlist sem „andlega” iðkun er hvernig þolinmæði, sjálfsagi og einbeiting verða ekki eingöngu nauðsynleg karaktereinkenni til að takast á við áskoranir og vandamál tónlistarinnar heldur verða hreinlega mikilvæg markmið í sjálfu sér og karaktereinkenni sem ættu að vera ræktuð markvisst í gegnum tónlistina. Við skulum muna að það var ekki tilviljun eða til skemmtunar sem Plato taldi að tónlist væri ein fárra listgreina sem ætti sess í fyrirmyndarríkinu. Tónlist gat að hans mati einfaldlega gert manneskjuna betri og samfélagið fallegra. Ég gæti haldið áfram að telja upp margvíslegar leiðir til að rækta dygðirnar í gegnum tónlistariðkun en tel að það sem hér hefur komið fram gefi næga hugmynd um hvert ég er að fara. 

Ef við tökum spuna sem mikilvægan hluta af almennu tónlistarnámi í því samhengi sem reifað er hér að ofan þá er ein fyrsta spurningin sú hvort hin hefðbundna áhersla á túlkun og tækni sé í andstöðu við ýmsar nýjar hugmyndir um skapandi tónlistarstarf? Ég tel svo ekki vera eða réttara væri að segja að ég tel að þannig þurfi það ekki að vera. Við höfum verið að sjá ýmsar jákvæðar breytingar eiga sér stað í námsframboði og uppbyggingu tónlistarnáms og ég tel það einungis tímaspursmál hvenær spuni verður orðinn mun virkari þáttur í öllu námi tónlistarfólks. Það sem styður mig í þessari trú er einfaldlega vitneskjan um hvernig hlutirnir hafa verið að þróast akkúrat núna á síðustu 2-3 áratugum hérna heima á Íslandi. Við tónlistardeild Listaháskóla Íslands hefur spunanámskeið verið hluti af reglubundnum námskeiðum deildarinnar allt frá stofnun, ásamt því að fléttast inn í fjölbreytt námskeið og samvinnuverkefni af ýmsum toga. Það segir sig sjálft að þróunin hefur orðið sumpart hraðari erlendis sérstaklega í þeim löndum þar sem fjölmenningarsamfélög eru meira áberandi. Þar mætir hin klassíska vestræna tónritunarhefð fjölbreyttum áhrifum úr tónmenningu annarra menningarsvæða þar sem tónlistin er oftar en ekki bundin munnlegri geymd eða leikin af fingrum fram.

Í okkar hefðbundnu klassísku tónlistarkennslu í dag þá sé ég spuna fyrst og fremst koma inn í myndina sem aðferð til að rannsaka og þekkja hefðbundin viðfangsefni betur. Spuni er líka ákaflega áhrifamikil leið til að vinna með og þroska músíkalska tilfinningu ásamt því að örva hæfileikann til að greina og örva sjálfstæða gagnrýna hugsun. Fleiri tækifæri munu skapast fyrir nemendur til að taka þátt í samspili þar sem reynir á getu þeirra og hæfileika til móta sína eigin rödd í spuna því ekki má gleyma því að spuni er tónsmíðaaðferð þar sem hugmyndir eru skapaðar og mótaðar í augnablikinu frábrugðið hinu hefðbundna módeli þar sem hugmyndir fara gjarnan í gegnum margvíslegar og flóknar síur í huga tónskáldsins. Í framsækinni tónlist síðustu sextíu ára má þó sjá ákveðna þróun þar sem heimur spunatónsmíða og ritaðra tónsmíða er farinn að mætast bæði hvað áferð og efnistök varðar. Á ákveðnum tímapunkti má jafnvel sjá hvernig spuni varð eiginlega rökrétt framhald af oft ótrúlega flóknum hugarheimi módernistanna þar sem mörgum þótti niðurstaðan verða æði keimlík og menn fóru að spyrja sjálfan sig hvaða þýðingu það hefði að vera að rita niður alla flækjuna þegar sá möguleiki var kominn að láta hreinlega góðan flytjanda spinna ákveðið efni af fingrum fram – samkvæmt misgrófri grafískri forskrift eða textalýsingu.

Í mínum huga er áríðandi að nemendur kynnist margvíslegum nálgunum í tónlist og ekki bara fyrirfram viðurkenndum tónlistarstílum í viðkomandi samfélagi. Þetta þýðir að nemendur eiga á skapandi hátt að vera takast á við listir hljóðheimsins í víðum skilningi frekar en að móta viðhorf sitt og sjálfsmynd með því að hugsa um sjálfan sig (ímynd sína) í samhengi við ákveðinn stíl eða flokka sig niður á einhvern hátt. Í versta falli snýst þvíumlíkt upp í sjálfhverfan hroka þar sem listin fær fyrst og fremst það hlutverk að þjóna einhverskonar narsisískum tilhneigingum manneskjunnar. Ég teldi heillavænlegra að tónlistarfólk sæi sjálft sig frekar í ákveðnu þjónustuhlutverki, þ.e. að þjóna eða helga sig hugarheimi tónlistarinnar í öllum sínum fjölbreytileika. Um leið er slíkt þjónusta við fegurðina og það besta sem býr í manneskjunni, hinum stórfenglega skapandi krafti. 

The creative process is a spiritual path. This adventure is about us, about the deep self, the composer in all of us, about originality, meaning not that which is all new, but that which is fully and originally ourselves.[1]

 

---

[1] Stephen Nachmanovitch, Free Play – Improvisation in Life and Art (New York: Jeremy P Tarcher, 1993)

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 1

Tölublað 2

Til höfunda

Tölublað 2

Um höfunda

HÖFUNDUR

Úlfar Ingi Haraldsson

ÞRÆÐIR 2.tbl 31. mars 2017