Lokkur

Berglind María Tómasdóttir

 

Hér að neðan er viðtal Berglindar Maríu Tómasdóttur við Berglindi Tómasdóttur. Þær eru ein og sama manneskjan, og einnig sama manneskjan og sú sem skrifar þessi inngangsorð. Viðtalið fjallar um verkefni sem ég hef unnið að um nokkurt skeið og hverfist í kringum hljóðfæri sem nefnist Lokkur.

Fyrir mér er Lokkur lykill að heimi, menningarumræðu, pólitík og nýjum hljóðheimi þrátt fyrir að þetta síðastnefnda hafi verið hálfgert aukaatriði hingað til. Þegar ég leik á Lokkinn er ég að sviðsetja menningararf eins og meðal annars þjóðfræðingarnir Bryndís Björgvinsdóttir og Valdimar Tr. Hafstein hafa fjallað um í skrifum sínum.[1]

Ástæðan þess að ég set fram hugleiðingar og skráningar á verkum sem ég hef þegar unnið að í kringum Lokkinn – í formi viðtals við mig sjálfa – er til að undirstrika sviðsetninguna sem verkefnið hverfist um. Ég ákvað að leyfa viðtalinu að vera með nokkuð frjálslegum blæ, þannig að á köflum gæti það komið lesendum nokkuð spánskt fyrir sjónir. En þannig gæti það einmitt undirstrikað eðli og tilvist Lokksins sem gáskafullrar en gagnrýninnar tilraunar til að undirstrika þá fantasíu sem umlykur hugmyndir okkar um menningararf.

 

BM: Já, komdu sæl Berglind Tómasdóttir og velkomin.

BT: Já, sæl Berglind María og takk fyrir að taka á móti mér.

BM: Mig langar að byrja á að spyrja þig um uppruna hljóðfærisins Lokkur.

BT: Já þegar þú spyrð mig um uppruna Lokksins þá gæti ég í raun farið í tvær áttir. Ég gæti sagt þér frá því hvernig ég þróaði hugmyndina um hljóðfæri sem grundvallast á hugmyndinni um hjól sem hljóðgjafa; hljóðfæri sem gæti drónað út í eitt eða framkallað stöðugan tón sem hljómar auðvitað ómótstæðilega í eyrum flautuleikara sem eðli málsins samkvæmt er takmarkaður af eiginn andardrætti. Hins vegar gæti ég sagt þér frá hljóðfærinu Lokkur sem uppgötvaðist nýverið meðal afkomenda Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku ...

BM: Bíddu, áttu við að hljóðfærið sé gamalt?

BT: Já og nei. Það fer eftir því hvernig á málið er litið. Ef ég segi já, þá segi ég þér söguna um hljóðfærið Lokk sem uppgötvaðist nýlega meðal afkomenda Vestur-Íslendinga í Kanada. Hljóðfærið er sett saman úr rokki og langspili og má leiða líkur að því að hljóðfærið hafi orðið til fyrir tilviljun eins og svo margar góðar uppfinningar. Rokkurinn hafi þannig gengið í endurnýjun lífdaga þar sem ekki var lengur þörf á hefðbundinni notkun hans, þar sem lítið fór fyrir sauðfjárrækt í Vesturheimi og hvað þá ullarvinnslu. Það voru einkum konur sem léku á Lokkinn og fyrir því eru til traustar heimildir.

BM: Hvernig heimildir?

BT: Nú, til dæmis þessi fallega trérista sem sýnir kvenmann leika á Lokk.

Mynd 1: Lokkur. Soffía Sæmundsdóttir, 2015, trérista. 

BM: En þetta er trérista eftir Soffíu Sæmundsdóttur myndlistarmann, gerð árið 2015.

BT: Já, það kann að vera. Þetta er hins vegar heimild engu að síður — heimild um menningararf sem ber að varðveita. Trúverðug heimild því tréristur eru jú ljósmyndir síns tíma og eins og menningarfræðingurinn Susan Sontag segir í bók sinni Um þjáningu annarra um ljósmyndir:

Í þeim var veruleikinn skrásettur —  óvefengjanlega, með þeim hætti að engin frásögn, sama hversu óvilhöll hún var, gat gert eins — þar eð það var vél sem sá um skrásetninguna. Og þær voru til vitnis um veruleikann — þar eð einhver hafði verið á staðnum til að taka þær.[2]

Það má því segja að þetta sé eins konar veruleiki— hvort hann er uppspuni frá rótum skiptir ekki máli í þessu samhengi því menningararfur er hvort eð er alltaf sviðsettur eins og sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm bendir á. Ég geri orð listamannsins Pierre Huygue, sem vinnur mikið með sviðsetningu hefða og heima, að mínum:

…ég hef ekki áhuga á að búa til skáldskap. Það sem ég hef áhuga á er að draga upp raunveruleika, útbúa aðstæður, byggja upp heim og skrásetja hann.[3]

Ef við vinnum út frá þessari hugmynd skiptir sannleikur í sjálfu sér engu máli. Við getum því vel ímyndað okkur að einu sinni hafi verið konur í Vesturheimi sem hugsuðu til heimalandsins og léku á Lokkinn, kváðu og sungu um heimahagana. Þarna er hún komin — kvennamenning fyrri tíma, tónlist kvenna sem við getum notið í dag. Eins og fræðimaðurinn Katelin Parsons talar um í grein sem hún ritaði árið 2013 í Lögberg-Heimskringlu sem er dagblað samfélaga Íslendinga í Vesturheimi[4] þá eru afar haldlitlar upplýsingar til um hljóðfæraeign Íslendinga fyrr á öldum og um sum hljóðfæri – eins og gígjuna – höfum við ekkert nema ritaðar heimildir. Þetta stafar fyrst og fremst af almennu viðhorfi gagnvart þessum hljóðfærum á sínum tíma, þau voru ekki álitin alvöru hljóðfæri og voru til að mynda ekki talin með í skráningum sem fóru fram á vegum Danaveldis. 

Því legg ég áherslu á hina góðu tréristu sem við eigum af konunni sem leikur á Lokkinn, ef ekki hefði verið fyrir þessa mynd, hefðum við aldrei getað ráðist í smíði og endurvakningu hljóðfærisins.

BM: Fyrr í viðtalinu sagðir þú að hægt væri að svara spurningu minni með já eða nei. Nú hefur þú útskýrt fyrra svarið en ekki það seinna og því spyr ég: En hvað ef þú segir nei?

BT: Eins og ég sagði: Það fer eftir því hvernig á málið er litið. Það má kannski segja að þetta sé nýtt hljóðfæri með gamla sál — óður um gamalt hljóðfæri, tilbrigði við menningararf. Ef um gamalt hljóðfæri er að ræða þá væri til dæmis ekki úr vegi að halda sýningu með sagnfræðilegu ívafi sem ég og gerði á vegum Listahátíðar í Reykjavík árið 2015 þegar Lokkurinn var frumsýndur með tónleikum og sýningu í Árbæjarsafni. Og þar sagði í kynningartexta:

Kynnt verður til sögunnar nýtt en þó gamalt hljóðfæri, ríkt af sögu en þó snautt; allt eftir því hvernig á málið er litið. Uppruna þess má rekja til Íslendingabyggða í Vesturheimi, en hljóðfærið, sem gengur undir nafninu lokkur, er eins konar afsprengi langspils og rokks. Konur munu einkum hafa leikið á lokkinn, ef til vill vegna skyldleika við gamla góða spunarokkinn sem gekk í endurnýjun lífdaga með tilkomu lokksins, fjarri heimahögum og íslenskri ull.[5]

Sýningin var opnuð með tónleikum í Smiðshúsi á safninu þar sem ég frumflutti eigin tónsmíðar auk verka fyrir Lokk og rödd eftir Karólínu Eiríksdóttur og Þórunni Grétu Sigurðardóttur. Með því að panta verk hjá þessum frábæru tónskáldum vildi ég upphefja hljóðfærið í feminísku samhengi, þarna voru nútímakonur að semja fyrir kvennahljóðfæri fyrri tíma og það var ákveðin sviðsetning í sjálfu sér. Á sýningunni sem stóð út sumarið 2015 var áðurnefnd trérista til sýnis en hægt var að kaupa veggmynd og póstkort með myndinni í safnbúð Árbæjarsafns. Svona eins og maður gerir, ekki satt? Svo var þarna einnig myndband með viðtölum við Guðmund Stein Gunnarsson tónskáld og Katelin Parsons fræðimann en bæði hafa þau komið að rannsóknum á menningu Vestur-Íslendinga með einum eða öðrum hætti. Myndbandinu var ætlað að veita sýningunni trúverðuglegan blæ en í viðtölunum tala þau um menningu Vestur-Íslendinga og koma svo lítillega inn á Lokkinn í því samhengi.

 

 

Myndband 1: Viðtöl við Katelin Parsons og Guðmund Stein Gunnarsson

Sýningin var vissulega óræð, sjálfri fannst mér það ákveðinn hápunktur að minnst var á hana í kvöldfréttum RÚV þar sem Einar Þorsteinsson fréttamaður flytur fréttina líkt og hverja aðra frétt. Og fréttaflutningur er trúverðugt form í sjálfu sér — fréttamenn eru eins konar boðberar sannleikans.

Myndaband 2: Fréttir RÚV um sýninguna Lokkur á Listahátíð í Reykjavík 2015

BM: En upplifir þú ekki að þú sért að skrökva að fólki?

BT: Ég viðurkenni að slík augnablik hafa átt sér stað. En þá vísa ég í orð mín hér að ofan um afstæði sannleika í samhengi við menningararf. Ég kýs að ræða það ekki nánar hér enda hef ég meiri áhuga á að segja þér frá aðkomu minni að Norrænum músíkdögum síðastliðið haust í Hörpu en þar var þátttaka mín og Lokksins tvíþætt. Annars vegar frumflutti ég í félagi við Caput Konsert fyrir Lokk og hljómsveit eftir Guðmund Stein Gunnarsson tónskáld og hins vegar sviðsettum við málþing um uppruna og tilvist Lokksins. Með mér í pallborði voru tónskáldin Guðmundur Steinn og Karólína Eiríksdóttir sem bæði hafa skrifað fyrir hljóðfærið og töluðu í því samhengi á þinginu. Og þarna var líka Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur sem eins konar boðberi fræðilegrar skynsemi. Þessu öllu stýrði Elísabet Indra Ragnarsdóttir af miklum myndarskap. Málþingið í heild er aðgengilegt hér — það er Hallveig Rúnarsdóttir sem syngur með mér í verki Karólínu í upphafi þings.

 

 

Myndband 3: Norrænir músíkdagar: Málþing um uppruna og tilvist Lokksins

BM: En af hverju að tala um þetta? Að koma upp um verkefnið?

BT: Í lít á það sem góða leið til að staðsetja verkefnið og skapa umræðu um menningararf og þá helgislepju sem oft tíðkast í kringum hana. Það er rétt að það komi fram að kveikjan að verkinu var ríkjandi menningarstefna í íslenskri pólitík á árunum 2014-2015  sem snerist um löngu úreltar hugmyndir um þjóðmenningu og þjóðernisrómantík sem kann að hafa verið falleg, í það minnsta kosti krúttleg, á 19. öld en er stórhættuleg nú tveimur öldum síðar.

BMT: En nú hefurðu fengið gagnrýni fyrir að vinna gegn eiginn málstað — að verk þitt megi allt eins skilja eins og einmitt óð til þjóðernisrómantíkur sem þú segist vera að gagnrýna?

BT: Ég gæti nefnt skort á menningarlæsi sem ástæður misskilnings. Jú, og kannski það að ég geng einfaldlega ekki nógu langt í að draga upp afkáralega mynd af upphafningu einhvers sem við túlkum sem menningararf. Blanda af naívisma og kaldhæðni er eitthvað sem mikið er af í menningu okkar tíma, mér skilst að um metamódernisma sé að ræða. Birtingarmyndir hans eru til dæmis karakterar eins og Borat, Bruno og Ali G. sem runnir eru undan rifjum breska leikarans Sacha Baron Cohen. Fyrir mér er þetta augljóst.

BM: Framtíð Lokksins — hvernig sérðu hana fyrir þér?

BT: Það sem er á döfinni nú er að þróa tónmál hljóðfærisins enn frekar og þannig auka vægi hljóðfærisins sem hljóðgjafa en ekki einblína á eintóma sviðsetningu á menningararfi. Það geri ég meðal annars með því að leika tilraunakennda tónlist á Lokkinn þar sem ég nota ýmsar leiðir til að umbreyta og einangra ákveðna eiginleika hljóðsins. Dæmi um þetta er samstarf sem ég á í við Lilju Ásmundsdóttur sem smíðað hefur hljóðfærið Huldu en saman höfum við flutt Variations II eftir John Cage á hljóðfærin okkar og hér er sýnishorn af flutningi okkar.

 

 

Myndband 4: Variations II á Hugarflugi 2017, Listaháskóli Íslands

Einnig gæti verið áhugavert að endursmíða hljóðfærið með þeim hætti að straumlínulaga hönnunina; skipta gömlum rokki út fyrir fullkomið hjól og losna þannig við innbyggðan hryninn sem hljóðfærið býr yfir sem og laga ákveðnar afstöður í byggingu hljóðfærisins í þeim tilgangi að gera hljóðfærið skilvirkara. Niðurstöður slíkrar vinnu gætu vissulega skilað góðu hljóðfæri en það myndi óneitanlega afmá helstu karaktereinkenni hljóðfærisins sem gefa því óneitanlega gildi — og eru að sumra mati það sem gerir hljóðfærið áhugavert. En nútímaútgáfu Lokksins væri vissulega áhugavert að prófa.

BM: Eitthvað að lokum?

BT: Það var gaman að tala við þig. Mér fannst ég geta verið nokkuð hreinskilin í þessu viðtali.

 

---

[1] Ritstjórar Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein. Menningararfur á Íslandi. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2015.

[2] Sontag, Susan: Um þjáningu annarra. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006, bls. 4.

[3] Mín þýðing á: ... I’m not interested in building fiction. What I am interested in is setting up a reality, building a situation, constructing a world, and documenting it.

https://art21.org/read/pierre-huyghe-streamside-day/, sótt 22. mars 2017.

[4] Parsons, Katelin. "Forgotten Fiddlesticks", Lögberg-Heimskringla, 1. febrúar 2013, númer 3. Sjá nánar um útgáfuna hér: http://www.lh-inc.ca.

[5] www.listahatid.is/vidburdir/lokkur/, sótt 21. mars 2017.