Þræðir tölublað 2, 31. mars 2017

Formáli

Fyrir hverja eru Þræðir? Við í ritstjórninni höfum spurt okkur þessarar spurningar en svarið er margþætt því Þræðir er eini vettvangurinn á Íslandi sem hefur það hlutverk að miðla rannsóknum og öðru ítarefni tengt tónlist og þarf því að hýsa fjölbreytni og tala til mismunandi hópa. Vefritið hefur erindi til allra sem áhuga hafa á orðræðu um tónlist og vilja fá innsýn í mismunandi heima hennar. Það talar því til allra námsstiga sem og sérfræðinga eða rannsóknarmenningarinnar. Þessi breidd og fjölbreytni er eðlilegur eiginleiki miðils sem stendur einn og í svo smáu samfélagi sem okkar. Jafnframt er um mikilvæga skjalfestingu að ræða fyrir framtíðarrannsóknir og er því kominn ansi víðfemur áheyrendahópur sem skapar um leið mikið frelsi varðandi efni og innihald.

Augljóst er að vettvangurinn er leið til að styðja við rannsóknir innan tónlistardeildar Listaháskóla Íslands en jafn mikilvægt er að tengja miðilinn við það sem er að gerast fyrir utan deildina. Það er því ánægjulegt að hér í öðru tölublaði Þráða eru greinar sem koma víðsvegar að, bæði fyrrverandi nemendur tónlistardeildarinnar og sjálfstætt starfandi tónlistarfólk. Lilja María Ásmundsdóttir lauk nýverið BA-námi sínu og fjallar hér um hljóð- og ljósskúlptúrinn Hulda sem hún hannaði og spilar á í mismunandi samhengi og Svanfríður Hlín Gunnarsdóttir heldur hér áfram með rannsóknir sínar á þjóðlagatónsmíðum Þorkels Sigurbjörnssonar sem hún vann að í BA-ritgerð sinni. Þá gefur Mathias Halvorsen píanóleikari okkur innsýn í Goldberg verkefnið sitt. Að öðru leyti eru hér greinar eftir bæði stundakennara og fastráðna kennara við tónlistardeild LHÍ sem velta upp mismunandi sjónarhornum innan tónlistar frá hugleiðingum um tónlistarmenntun, minningu um tónskáld, sviðsetningu á menningararfi, tilraunum á nótnaritunarathæfi, innsýn í tónsmíðavinnu og yfir í hljóðfærahönnun.

Ég vil þakka öllum þeim höfundum sem lögðu til efni í þetta tölublað og einnig Berglindi Maríu Tómasdóttur og Þorbjörgu Daphne Hall fyrir ánægjulegt samstarf og þeirra vandvirku ritstjórnarvinnu.

 

f.h. ritstjórnar

Einar Torfi Einarsson