Formleysi hljóðanna

Þráinn Hjálmarsson  

Taktur, takttegund, tónn, tónhæð, tóntegund, hljómur, allt eru þetta huglæg verkfæri sem færa okkur nær því að geta unnið með hljóð og hlustun okkar. Þetta eru manngerð verkfæri og með þeim opnast sá möguleiki að geta raðað upp hljóðum líkt og raða megi bókasafni upp eftir kápuliti bóka, stafrófsröð, efnistökum, stærð eða öðrum leiðum. Þessir flokkar eru enginn algildur sannleikur og mætti jafnvel kalla skáldskap, en þau veita okkur möguleikann á því að lesa í tónlistina á ákveðinn máta, því flokkastærðirnar eru þekktar og mælanlegar. Út frá þessum forsendum virðist tónlistin ekki vera hvað sem er heldur afmarkast hún við þessar hugmyndir, sem og hugsunin um hana. Tónlist getur hinsvegar verið hvað sem er.

Það var um miðbik 20. aldar sem viss afhjúpun á þessu fyrirbæri, tónlist, átti sér stað. Ekki þurfti flytjanda, ekki þurfti hljóðfæri heldur varð hlustunin sjálf lykillinn og hið tónlistarlega athæfi. Einungis þurfti hljóð (meira segja í tvíræðni þess orðs) og virka hlustun áheyranda.[1] Eftir þessa afhjúpun hafa tónskáld unnið á margvíslegan hátt með hlustun áheyrenda og efnistök tónlistarinnar eru eins ólík og skáldin eru mörg. Finna má í samtímanum ólíkar tónlistarstefnur og strauma, þar sem forsendur hennar sækja ekki alltaf í sama brunn og þann sem skírskotað var til hér á undan. Þegar tónlistin inniheldur ekki hljóma, tóna og hendingar, eftir hverju á þá að hlusta? Hvernig á að njóta?

Hér reynir á hugtakið læsi, sem á síðari árum hefur verið víkkað frá því að vera skilgreint sem hæfni einstaklings til skilnings á rituðum texta yfir í að vera jafnvel skilgreint sem félagsleg eðlis, þar sem fram fer sköpun merkingar á milli tveggja einstaklinga í gegnum miðil.[2] Er þessa víðfeðmu skilgreiningu læsis m.a. að finna í nýlegri aðalnámsskrá grunnskóla frá árinu 2011 og er þar einn af grunnþáttum náms í grunnskóla að efla læsi einstaklinga í ólíkum tjáningamiðlum, svo sem texta, myndmál, tónlist og fleiri miðla.[3] Má því segja að læsi sé á vissan hátt hæfni einstaklingsins til að komast að kjarna hvers hlutar fyrir sig með því að rýna í hann og draga ályktanir. En það er ekki hlaupið að því að kenna læsi, enda byggir það á reynslu af upplifunum og hæfni til ályktanna.[4] Læsi á tónlist er því bundið við færni hlustandans að greina umhverfi, hugsun og þungamiðju tónlistarinnar, en í bland að leyfa sér að skapa eigin merkingu og bregðast við á persónulegan hátt.

Þessi nýlega skilgreining læsis rímar vel við þá fjölbreyttu hlustun sem samtímatónlist síðustu áratuga hefur fært okkur. Hefur þar með áheyrandinn öðlast skáldaleyfi til þess að skapa sína eigin hlustun þar sem forsendurnar geta verið persónulegar og jafnvel alls óskyldar því sem hlýtt er á. Hlustun dagsins í dag er því orðin að hálfgerðum leik. Til dæmis mætti einbeita sér að því við hlustun á sinfóníu eftir Beethoven hvernig hugmyndir um hópa og einstaklinga kallast á innan hljómsveitarinnar, hvort að hópar eða sérstaka raddir gegni ákveðnu hlutverki sín á milli eða jafnvel alls ekki, eða jafnvel hlusta stíft eftir viðbrögðum og þeim hljóðum sem áheyrendur leggja til í hljómleikasal.

Myndhöggvarinn Joseph Beuys leit svo á að upplifun okkar af hlutum væri ekki eingöngu bundin efnisheiminum, heldur mætti breyta skynjun okkar á þeim með því að hugsa um þá út frá nýjum forsendum, með því einu að varpa á tilbúna hluti nýju ljósi. Þannig sá hann hlutverk sitt sem skúlptúrista víkkað yfir í að forma hugsanir til jafns við efni. Slíkt viðhorf til listarinnar og til starfs síns gerði honum kleift að sinna höggmyndalistinni með sviðsetningu gjörninga, kennslu og fyrirlestrum.[5]

Út frá þessum hugmyndum mætti því líta öðrum augum á tónleikaformið og efnisskráagerð, en samhengi verka, frásögn um þau og framsetning er ávallt stór þáttur af heildarupplifun tónlistarinnar og má með ólíkri framsetningu beina hlustun áheyrandans og lestri hans í tónlistina í vissan farveg hverju sinni. Tónlist er leikur, hún er ekki afmörkuð af þekktum stærðum og möguleikum en hún er enn fremur bundin við hljóðið og viljann til að hlusta innan formerkja og vera virkur hlustandi þá stundina. Það er því undir hverjum og einum komið að finna nýja fleti og leiðir til þess að njóta tónlistar enn frekar en það getur verið heilmikil vinna og jafnvel hark að vera tónlistarunnandi og ná tengslum við þær ólíku hugmyndir sem eru í gangi í dag.

Líkt og sagt er að leikið sé á hljóðfæri og að tónlist sé leikin, mætti því einnig segja að það sé leikur að hlusta.

 

[Pistillinn birtist fyrst í lista- og menningarþættinum Víðsjá á Rás 1 haustið 2013, en birtist hér í breyttri mynd.]

---

[1] Í verki John Cage, 4'33'', frá árinu 1952, leikur/leika flytjandi/flytjendur engin hljóð á meðan flutningi verksins stendur. Umhverfi verksins verður að miðju athygli hlustandans. Tónlistin er fólgin í hlustuninni og samhengi hennar.

[2]Aðalnámsskrá grunskóla: Almennur hluti 2011 – Greinasvið 2013 (Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013), bls. 18-19.

[3] Í aðalnámsskrá grunnskólanna frá 2011 eru grunnþættir menntunar nefndir; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

[4]„Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.“ Aðalnámsskrá grunskóla: Almennur hluti 2011 – Greinasvið 2013 (Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013), bls. 19

[5] „My objects are to be seen as stimulants for the transformation of the idea of sculpture, or of art in general. They should provoke thoughts about what sculpture can be and how the concept of sculpting can be extended to the invisible materials used by everyone: Thinking Forms – how we mould our thoughts or Spoken Forms – how we shape our thoughts into words or SOCIAL SCULPTURE how we mould and shape the world in which we live: Sculpture as an evolutionary process; everyone an artist“. Beuys, Joseph & Harlan, Volker. What is Art?: Conversation with Joseph Beuys (UK: Clairview Books, 2007), bls. 9