Hversdagurinn er stöðug og þýðingamikil nærvera. Hann er undirstöðutaktur í tilvist okkar, en svo ofurvenjulegur að það er mun erfiðara að koma auga á þessar ótal litlu uppákomur og aðstæður heldur en stórbrotin augnablik og þau óvæntu atvik sem koma upp í hversdeginum. Rannsókn og mín löngun er að færa hið ofurvenjulega fram í dagsljósið og þá fábrotnu ásýnd sem undirstrikar víðfemt uppistöðulón hinna lítt merkjanlegu, smávægilegu og hlutlausu endurtekninga sem daglegt líf samanstendur af í flestum tilfellum.  

Hvað get ég sem listamaður gert til þess að sjá heiminn, hversdaginn í öðru ljósi? Að hluta til felst svarið í að leitast við að skapa fagurfræðilega reynslu úr hversdeginum, draga fram hið ljóðræna með mynd sem kallar fram hið venjulega. Í verkum mínum einbeiti ég mér að tilbrigðum raunveruleikans, því persónulega og heimilislega lífi sem viðkemur sjálfum mér í þeim aðstæðum og tilbrigðum daglegs lífs eins og þau birtast hverju sinni. 

Í nær öllum mínum verkum stjórna ég tökuvélinni sjálfur og reyni að láta vélina ekki hafa áhrif á eða stjórna mínum gjörðum og rannsókn. Það mætti segja að tökuvélin sé meðleikari minn þar sem ég er á sama tíma viðfangsefnið sem er rannsakað og rannsakandi höfundur verksins.  

Upptökuvélin er staðsett með þeim hætti að hún tekur ekki bara upp gjörninginn heldur tekur hún að einhverju leiti þátt í honum, hefur gagnkvæm áhrif og mótar hvert tilbrigði gjörninganna í heild.  

Fyrir mig sem listamann og manneskju felst einhvers konar hugleiðsla í því að koma fram fyrir tökuvélina. Að horfast í augu við tilvistina í allri sinni hversdagslegu nærveru, í öllum sínum ólíku birtingamyndum, er ekki tilraun til að leita að merkingu eða kalla fram glataðan tíma, heldur fyrst og fremst tilraun til að vera, eins einfalt og það kann að hljóma. Ég er ekki að reyna að draga fram einhverja æðri merkingu í hversdagsleikanum heldur þvert á móti að frelsa hann undan því að hafa merkingu – kastljósinu er beint að hinu venjulega, fábrotna og einfalda, því sem fyllir líf okkar allra en við veitum sjaldnast mikla athygli. Þessi persónulegu tilbrigði við tilveru birtast á óreiðukenndan hátt sem endurgerðin leitast þó við að hemja og ýta þannig örlítið við núverandi raunveruleika.