Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuBerglind María Tómasdóttir
Inngangur að málstofuerindum
Þann 26. janúar síðastliðinn fór fram málstofa undir yfirskriftinni Hlustið vel. Málstofan var haldin á vegum RíT – Rannsóknastofu í tónlist sem starfrækt er við tónlistardeild Listaháskóla Íslands – í samstarfi við tónlistarhátíðina Myrkir músíkdagar. Innihald málstofunnar var hlustun og arfleifð bandaríska tónskáldins Pauline Oliveros. Á hátíðinni fóru jafnframt fram tónleikar Skerplu þar sem flutt voru verk eftir Pauline Oliveros auk þess sem heimildamyndin Deep Listening, sem fjallar um ævistarf Pauline Oliveros, var sýnd á hátíðinni. Það má því segja að Myrkrir músíkdagar þetta árið hafi rúmað örtónlistarhátíð helgaða Pauline Oliveros.
Pauline Oliveros (1932-2016) var skapandi tónlistarmaður og brautryðjandi á sviði tónlistar. Ferill hennar spannar yfir sex áratugi og var síbreytilegur; hennar elstu verk bera merki þess hefðbundna tónsmíðanáms sem hún stundaði. Á sjöunda áratugnum var Oliveros meðal frumkvöðla á vesturströnd Bandaríkjanna sem fengust við raftónlist. Ekki leið á löngu þar til tónlistariðkun hennar tók enn breytingum og þá undir áhrifum frá pólitískum tíðaranda þess tíma. Úr varð iðkun sem síðar varð þekkt sem djúphlustun (e. Deep Listening).
Hugmyndir Pauline Oliveros um hlustun voru miðpunktur málstofunnar Hlustið vel. Dr. Rachel Beetz reið á vaðið með erindinu „Hlustun handan Pauline Oliveros“ (e. Listening beyond Pauline Oliveros). Í kjölfarið hélt dr. Angela Rawlings erindið „Að hlusta er að tengja er að styðja“ (e. To Listen is to relate is to sustain). Bæði erindin fóru fram á ensku og birtast hér í riti Þráða. Á málstofunni var einnig flutt tónverkið Thickening Time eftir Linnéu Falck, tónsmíðanema við Listaháskóla Íslands. Flytjendur voru Bergþóra Ægisdóttir söngkona, Sigurður Halldórsson sellóleikari og undirrituð á flautu. Hluti verksins var á myndbandsformi sem Linnéa vann í samstarfi við Iðu Brá Ingadóttur nemanda við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Við lok málstofunnar stýrði Stefanía Helga Sigurðardóttir, tónsmíðanemi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, umræðum.
Tónleikar Skerplu á Myrkum músíkdögum fóru fram 24. janúar í opnu rými Hörpu. Sum verkanna sem flutt voru er að finna meðal Hljóðrænna hugleiðinga (e. Sonic Meditations), sem komu út snemma á áttunda áratugnum, önnur eru frá seinni æviskeiðum Oliveros. Verkin voru öll valin og flutt af nemendum í Skerplu sem jafnframt nutu fulltingis Bergþóru Ægisdóttur söngkonu, Rachel Beetz flautuleikara og Sóleyjar Stefánsdóttur harmónikkuleikara og stundakennara við Listaháskóla Íslands. Hér gefur að líta ljósmyndir frá tónleikunum og málstofunni.[1]
Njótið vel.
Flytjendur: Skerpla
Skerpla er tónlistarhópur sem starfar innan Listaháskóla Íslands, stofnaður haust 2018. Skerpla rannsakar, skapar og flytur tónlist af tilraunakenndum toga með það að markmiði að víkka út hefðbundnar hugmyndir um tónlist. Berglind María Tómasdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands, og John McCowen, stundakennari við sama skóla leiða starfsemi Skerplu.
Ljósmyndari: Hans Vera.