ÞRÆÐIR – Tölublað 6 – Um höfunda

 

Einar Torfi Einarsson er tónskáld og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann nam tónsmíðar í Reykjavík, Amsterdam, Graz, og lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá háskólanum í Huddersfield undir leiðsögn Aaron Cassidy. 2013-2014 gegndi hann rannsóknarstöðu við Orpheus Institute í Belgíu. Tónlist hans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um alla Evrópu og unnið til verðlauna í Hollandi og Austurríki. Undanfarið hafa verk hans lagt áherslu á tilraunakennda nótnaritun þar sem mörk tónlistar og myndlistar eru könnuð. 

Guðmundur Steinn Gunnarsson er tónskáld sem hefur þróað með sér hrynmál sem fellur að umhverfinu og lífinu utan tónlistarinnar.Hann hefur samið yfir 200 tónverk þ.á.m. óperu, kammerverk af ýmsum stærðum, sólóverk, hljómsveitarverk, konsert, kórverk, einsöngsverk, raftónverk sem og verk fyrir heimasmíðuð hljóðfæri og tilraunkennda miðla af ýmsum toga. Þá hefur hann starfað að verkefnum sem tengjast íslenskri þjóðlagatónlist t.a.m. nótnaritun fyrir bókina Segulbönd Iðunnar. 

Pétur Eggertsson er Reykvískt tónskáld og listamaður. Með tónlist sinni varpar Pétur fram spurningum um þá menningu sem umlykur tónlistarflutning og leitar þar að hugmyndafræðilegu sambandi milli tónlistar og samfélags. Pétur leggur sérstaka áherslu á þátttöku áhorfenda og að tónlist hans öðlist sjálfstætt líf í höndum þeirra, á meðan flutningi þess stendur. Verk hans ganga þvert á listform og eru jafnframt rannsóknir á hvernig önnur efni en hljóð, líkt og myndefni, hreyfingar og hlutir geta verið notuð í tónsmíðum. Pétur útskrifaðist með BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands árið 2018 þar sem hann lærði hjá Einari Torfa Einarssyni og Jesper Pedersen. Í maí 2020 útskrifaðist hann með MA í tónsmíðum frá Mills College í Oakland, Bandaríkjunum þar sem hann lærði hjá Zeenu Parkins og Laetitiu Sonami. Tónlist hans hefur verið flutt víðsvegar um heiminn, á hátíðum á borð við CHIME Fest, Cycle, LungA, Tut Töt Tuð og Ung Nordisk Musik. Pétur gefur jafnframt út raftónlist undir nafninu Hjalti Kaftu, spilar á trommur með hljómsveitinni Skelki í bringu, er annar helmingur teknófiðludúósins GEIGEN og meðlimur í gjörningasveitinni The Post Performance Blues Band. 

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir (2000) hefur stundað tónlistarnám frá sex ára aldri. Eftir útskrift af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík og frá Menntaskóla í tónlist vorið 2019 hóf hún nám í Listaháskóla Íslands, en hún mun útskrifast þaðan með tvöfalda bakkalársgráðu í fiðluleik og söng nú í vor, með hljómsveitarstjórn sem aukafag. Á sínum yngri árum lék hún í leikritum og söngleikjum í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og steig sín fyrstu skref sem Kamilla í Kardemommubænum átta ára gömul. Hún hefur tekið þátt í ýmsum tónlistarnámskeiðum, bæði hér heima og erlendis, leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Menntaskóla í tónlist og gegnt stöðu konsertmeistara Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og Sinfóníuhljómsveitar MÍT. Haustið 2020 var hún valin í hljómsveitarstjóraakademíu Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir handleiðslu Evu Ollikainen. Á menntaskólaárunum var hún í sigurliði MR í ræðukeppninni MORFÍs og fór með sigur af hólmi í söngkeppni MR. Hún lenti í 2. sæti á háskólastigi í klassísku söngkeppninni Vox Domini árið 2020. Ragnheiður Ingunn hefur hljóðritað tónlist af ýmsu tagi með fjölbreyttum hópi listamanna og komið fram sem fiðluleikari með þeim á tónleikum og tónlistarhátíðum hér heima og í London, Þýskalandi og Hollandi. 

Tryggvi M. Baldvinsson er tónskáld og forseti tónlistardeildar Listaháskóla Íslands. Hann stundaði nám í tónsmíðum og píanóleik við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík og síðar framhaldsnám í tónsmíðum og tónfræði við Konservatoríuna í Vínarborg (1987 -1992). Tryggvi hefur starfað sem kennari í tónsmíðum og ýmsum tónfræðagreinum við Tónlistarskólann í Reykjavík og tónlistardeild LHÍ frá stofnun hennar, þar til hann tók við stöðu deildarforseta árið 2014. Sem tónskáld hefur Tryggvi hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og þau flutt víða um heim. 

Þórhallur Magnússon er prófessor og deildarstjóri tónlistardeildar Sussex háskólans í Englandi og rannsóknarprófessor við LHÍ. Þórhallur skrifar tónlistarforrit, greinar og bækur um tónlist. Árið 2019 gaf Bloomsbury Academic út bók hans Sonic Writing: Technologies of Material, Symbolic and Signal Inscriptions, þar sem hann skoðar rætur tölvutónlistar 21. aldar aftur í fornöld. Þórhallur er þessa dagana Edgard Varese gestaprófessor hjá Technishe Universitat í Berlín þar sem hann kennir raftónlist bæði fræðilega og hagnýta. Nýlega veitti Rannsóknarráð Evrópusambandsins honum styrk til að setja upp rannsóknarstofu við LHÍ til að vinna verkefnið Intelligent Instruments: Understanding 21st Century AI Through Creative Music Technologies. 

Þorbjörg Daphne Hall er dósent í tónlistarfræðum við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem hún hefur starfað frá 2010. Hún lauk doktorsnámi við Háskólann í Liverpool 2019, þar sem hún naut leiðsagnar próf. Sara Cohen og Dr. Marion Leonard, og fjallaði um togstreitu milli hinna ólíku frásagna um „hið íslenska“ í dægurtónlist á Íslandi nútímans. Þorbjörg vinnur nú að stóru rannsóknarverkefni um íslenska jazztónlist (1930-2010) ásamt Ásbjörgu Jónsdóttur. Hún var ritstjóri bókarinnar Sounds Icelandic sem kom út hjá Equinox Publishing 2019 ásamt Nicola Dibben, Árna Heimi Ingólfssyni og Tony Michell. Hún var jafnframt ritstjóri bókarinnar Tónlistarkennsla á 21. öld ásamt Kristínu Valsdóttur og Ingimari Ólafssyni Waage (Háskólaútgáfan 2018). Þorbjörg hefur gefið út greinar og haldið fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum um íslenska tónlist, tónlist og þjóðerniskennd, kvikmyndina Heima eftir Sigur Rós og um tónlist í Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Hún hefur verið einn af ritstjórum Þráða, tímariti tónlistardeildar LHÍ frá 2016. 

Þráinn Hjálmarsson er tónskáld og stundakennari við LHÍ og MÍT. Tónlist Þráins hefur verið leikin víða um heim af ýmsum tilefnum af fjölmörgum hópum og flytjendum. Plata Þráins, Influence of buildings on musical tone, sem gefin var út af CARRIER Records árið 2018 hlaut lofsamlegar viðtökur í miðlum á borð við The Wire, Tempo Journal, Neue Zeitschrift für Musik, Sequenza21 og 5against4 auk annarra. Þráinn er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Hljóðana, í Hafnarborg, tónleikaröð tileinkaðri samtímatónlist. Í tengslum við tónleikaröðina hefur Þráinn m.a. sýningarstýrt sýningunum „Hljóðön - sýning tónlistar“ (2019) og sýningu Davíðs Brynjars Franzsonar; „Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs“ (2020). 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 6