ÞRÆÐIR – Tölublað 5 – Um höfunda

 

Atli Ingólfsson nam tónsmíðar í Reykjavík, Mílanó og París og bjó lengi í Bologna og starfaði við list sína.  Hann býr nú í Reykjavík, semur tónlist og kennir jafnframt hljómfræði og tónsmíðar.  Verk hans eru mörg og af öllu tagi. Atli er prófessor í tónsmíðum við LHÍ.

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir, erkitýpur og tónlist sem samfélagslegt fyrirbæri. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Árið 2014 lauk hún doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.

Elín Gunnlaugsdóttir nam tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1993. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag. Þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Verkaskrá Elínar samanstendur af kammerverkum og söngverkum en hún hefur meðal annars skrifað fyrir Caput-hópinn, Camerarctica og Schola Cantorum auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verk Elínar hafa verið gefin út og verið flutt bæði hér heima og erlendis. Seinustu ár hefur Elín einnig skrifað nýja tónlist fyrir börn; þessi verk eru söngleikurinn Björt í sumarhúsi, tónlistarævintýrin Englajól og Drekinn innra með mér auk tónleikhússins Nú get ég. Elín kennir tónfræði og tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og Tónskóla Sigursveins.

Hróðmar I. Sigurbjörnsson lauk prófi í tónsmíðum frá Tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984 þar sem tónsmíðakennarar hans voru Þorkell Sigurbjörnsson og Atli Heimir Sveinsson. Hann stundaði framhaldsnám í tónsmíðum hjá hollenska tónskáldinu Joep Straesser við Konservatoríið í Utrecht í Hollandi þaðan sem hann lauk prófi 1988. Frá haustinu 1988 hefur hann unnið sem tónskáld og kennari í tónsmíðum og tónfræðum. Hann gegnir nú stöðu dósents og fagstjóra í tónsmíðum og tónfræðum við tónlistardeild LHÍ. Hróðmar hefur samið verk fyrir einleikshljóðfæri, ýmsar kammersamsetningar, kóra, hljómsveitarverk, konserta og óperu auk tónlistar fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.

Sigurður Halldórsson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Guildhall School of Music and Drama í London.  Hann hefur fengist við fjölbreytta tónlistarstíla allt frá miðöldum til nútímans og starfar m.a. með Caput hópnum, Voces Thules, Camerarctica, Skálholtskvartettinum og Symphonia Angelica og hefur komið víða fram sem einleikari. Sigurður var listrænn stjórnandi Sumartónleika í Skálholtskirkju frá 2004 til 2014. Hann starfar sem prófessor við Listaháskóla Íslands þar sem hann stýrir alþjóðlega NAIP meistaranáminu (New Audiences and Innovative Practice).

Úlfar Ingi Haraldsson PhD  (f. 1966), hóf fyrst að fást við tónlist í kringum tólf ára aldurinn norður í Skagafirði. Lauk burtfararprófi í tónsmíðum og tónfræðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1990. Stundaði þvínæst framhaldsnám við University of California, San Diego á árunum 1992-99 og lauk þaðan doktorsprófi í tónsmíðum og tónfræðum árið 2000.  Úlfar hefur á liðnum áratugum starfað sem tónskáld, bassaleikari, stjórnandi og tónlistarkennari í Bandaríkjunum og á Íslandi. Eftir hann liggja um sextíu tónverk af ýmsum stærðum og gerðum sem víða hafa verið flutt bæði á Íslandi og erlendis.

Þráinn Hjálmarsson er tónskáld og stundakennari við LHÍ og MÍT. Tónlist Þráins hefur verið leikin víða um heim af ýmsum tilefnum af hópum og flytjendum á borð við CAPUT, Basel Sinfonietta, BBC Scottish Symphony Orchestra, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Vertixe Sonora, Nordic Affect, Athelas sinfonietta, Kammersveit Reykjavíkur auk fjölda annarra. Plata Þráins, Influence of buildings on musical tone, sem gefin var út af CARRIER Records árið 2018 hlaut lofsamlegar viðtökur í miðlum á borð við The Wire, Tempo Journal, Neue Zeitschrift für Musik, Sequenza21, 5against4, Bandcamp daily, I care if you listen auk annarra, ásamt tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Þráinn er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Hljóðön, í Hafnarborg, tónleikaröð tileinkaðri samtímatónlist og var sýningarstjóri sýningarinnar „Hljóðön - sýning tónlistar“, sem haldin var í Janúar - Mars 2019. Var sýningin valin tónlistarviðburður ársins 2019 (einstaka tónleikar) á Íslensku tónlistarverðlaunum.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 5