Þórunn Kolbeinsdóttir
totakolbeinsd [at] gmail.com

Ég hef sótt í brunn sköpunarsagna fyrir innblástur og er sérstaklega hrifin af þeirri miklu efniskennd sem þar kemur fram sem og mögnuðum tilraunum fólks til þess að gera óútskýranlega atburði aðgengilega. Sjálf hef ég tekið fyrir birtingarmynd sálarinnar sem byrjun að minni eigin sköpunarsögu. Mér fannst áhugavert að taka þetta ofhlaðna og klisjukennda hugtak sem sálin er og leitast eftir því að nálgast það á nýjan hátt. Að gera enn aðra tilraun til þess að reyna að útskýra það sem er utan seilingar.

Í ferlinu hef ég einblínt á sambandið milli sálar og líkama, hvort það feli í sér samruna beggja fyrirbæra eða að líkaminn sé einfaldlega flókið hulstur utan um sálina, kjötstykkið sem geymir andann. Úr varð möguleg birtingarmynd af því augnabliki þar sem sálin er berskjölduð áður en líkaminn gleypir hana. Það augnablik þar sem við skynjum sálina án þess að lesa hana í gegnum líkamstakta, hreyfingar, tungumál og svo framvegis.

Líkamlegur skúlptúrinn virðist rísa upp úr slímdýi, búinn til úr misjöfnum efnivið sem er þó við það að fara að blandast saman. Myndmálið rekur söguna í kringum atburðinn sem skúlptúrinn vísar í, út frá sínum eigin forsendum. Það lýsir öðrum heimi þegar efni voru ekki komin á það stig að blandast, stóðu bara ein og sér en voru að fara að kynnast.

Ég tala um sögur og ferla þar sem vanalega er einhver framvinda í gangi en innsetningin er hreyfingarlaus. Formin gefa hreyfingu í skyn en í raun er þetta kyrrmynd á sköpunarferli sem virðist vera enn í gangi en er þó á sama tíma lokapunktur í mínu eigin sköpunarferli.