„Það að standa ekki einn, dag eftir dag eftir dag, það bara skiptir öllu.“

 Áhrif teymisvinnu á faglegt frumkvæði kennara við innleiðingu nýrra kennsluhátta í list- og verkgreinum.

 
 
Þetta meistaraprófsverkefni er rannsókn á áhrifum teymisvinnu á faglegt frumkvæði kennara.
 
Skoðað er eitt kennarateymi í ljósi breytinga á kennsluháttum í list- og verkgreinum sem komu til með breyttum áherslum í nýrri aðalnámskrá grunnskóla sem kom út árið 2011. Þá tók þetta kennarateymi sjálfstæða ákvörðun um að þróa kennsluskipulag list- og verkgreina, í skólanum sem þeir kenndu við, upp í 10. bekk með hliðsjón af þessum nýju áherslum fyrir haustið 2012.
 
List- og verkgreinar voru gerðar að skyldugreinum upp í 10 bekk með jákvæðum stuðningi skólastjórnenda. Með því móti stendur skólinn við tímafjölda í list- og verkgreinum sem viðmiðunarstundaskrá nýrrar aðalnámskrár kveður á um.
 
Rannsóknin er eigindleg. Tekin voru einstaklingsviðtöl við þrjá kennara úr list- og verkgreinateyminu og tvo skólastjórnendur sem unnu með teyminu þegar breytingarnar áttu sér stað. Til að fá fyllri upplýsingar var einnig tekið viðtal við list- og verkgreinateymið í heild, eða fjóra kennara, sem rýnihóp.
 
Í fræðilegum kafla sem undirbyggir rannsóknina eru skilgreind ýmis hugtök eins og valdefling, trú á eigin getu og teymisvinna.
 
Fjallað er um þróun list- og verkgreinakennslu hér á landi, hvernig staðan er í dag og hver þáttur aðalnámskrár grunnskóla var við breytingar á kennsluháttum rannsóknarteymisins.
 
Áhrif teymisvinnu á faglegt frumkvæði list- og verkgreinakennara hafa ekki verið skoðuð mikið hér á landi en í rannsóknum hefur komið í ljós að list- og verkgreinakennarar eiga almennt minna samstarf sín á milli en aðrir kennarar, auk þess sem þeir virðast nýta sér námskrár í minna mæli en aðrir.
 
Helstu niðurstöður benda til að teymisvinnan með stuðningi og trausti milli teymisfélaga hafi valdeflt kennara teymisins og aukið sameiginlega trú þeirra á eigin getu, sem síðan hafði áhrif á faglegt frumkvæði teymisins.
 
 
 
Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir
thorhalla [at] akmennt.is
Leiðbeinendur: Dr. Ásthildur Jónsdóttir og Dr. Ellen Gunnarsdóttir
2018