Þorgils Óttar Erlingsson
BA  Myndlist 2017

 

Verkið er hluti af rannsóknarferli þar sem ég reyni að finna í hlutum eitthvað sem gefur til kynna kjarna þeirra og innri kraft. Hér nálgast ég þessa hugmynd í gegnum einstaklega hversdagslega hluti. Þessum hlutum tökum við oft sem sjálfsögðum, þeir falla í skugga tilverunnar.

Ég spyr meðal annars hvort virðing hverfi með fjölda- framleiðslunni, þar sem hlutir hætta að vera einstakir. Hvernig nálgumst við hlutinn, hver er tilgangur hans, uppruni, mikilvægi og verðmæti? Er hægt að móta virðingu hlutarins með því að færa hana inn í aðstæður þar sem hann er gerður einstakur?

Í verkinu nota ég marmara. Í upplifun okkar á efninu er þyngd, söguleg, menningarleg og listasöguleg hefð. Marmarinn talar nú þegar til okkar um virðingu efnisins, eitthvað sem járn eða plast gera ekki á eins augljósan hátt.

Hvern hlut tekur margar klukkustundir að rannsaka og endurgera af nákvæmni í efnið. Í ferlinu finn ég fyrir veruleika hlutarins í gegnum nálgunina við hann og vinnuna við endurgerðina, í gegnum tímann, orkuna og einbeitinguna sem fer í hvern og einn hlut. Hér opnast fyrir eitthvað sem er handan sjálfsagðrar merkingar hlutanna. Þeir verða meira lifandi. Það er eins og að ég fái að sjá þá aftur í fyrsta sinn, áður en ég sópaði merkingu þeirra út í horn með öllu því sem virtist mér alkunna.