Ljósmyndin fletur heiminn út. Hún fangar hluti og staði og birtir okkur á tvívíðum myndfletinum. Ég er meðvituð um þennan eiginleika ljósmynda þegar ég púsla saman formum í
ljósmynd. Í þessu er fólginn ákveðinn leikur, feluleikur eða dans, altént sjónrænt ferðalag um rýmið sem ég ferðast um hverju sinni og fanga áhugavert sjónarhorn þegar það blasir við.
 
Í myndunum sem ég tek leitast ég við að finna nýtt og áður óþekkt form sem teygir sig á einhvern hátt fram í rýmið. Myndirnar geta aftur því fengið á sig hið þrívíða form sem þær eru sprottnar úr. Leiðarstef rannsóknarinnar er þessi leit að formi
með áherslu á eftirfarandi þrjá þætti: áhorfendur og þau margbreytilegu sjónarhorn sem þeim býðst að fanga í verkunum, rýmið og möguleika þess í samhengi við form og efniskennd ljósmyndastrúktúranna, og í þriðja lagi sköpunarferlið
sjálft; frá skúlptúrum Gerðar Helgadóttur sem ég ljósmynda og afmynda síðan og bý nýtt samhengi.
 
Niðurstaðan er skúlptúr, grundvallaður á uppbrotinni ljósmynd af verkum Gerðar sem tekin er inn í rými Gerðarsafns, safni tileinkuðu minningu þessarar merku listakonu.
Titill rannsóknarverkefnisins er Ummyndun, sem vísar til hringferils þess að vinna verk úr ljósmyndum sem ég hef tekið af verkum Gerðar. Titillinn vísar þannig hvorki til neins óræðs né til frásagnar, heldur ummyndunar á
ljósmyndinni til þess að verða skúlptúr og samtalsins við verk Gerðar. Ljósmyndirnar taka á sig arkitónískt form meðal annars með því að blandast uppbrotnum formum stöpulsins, sem í sögulegu samhengi er mikilvægur hluti af skúlptúrgerð og
framsetningu þeirra. Önnur byggingarefni verkanna eru gler og svart gúmmí. Gler tengist ljósmyndum, bæði sem hluti af sögulegu og mekanísku ferli þeirra og sem hluti ramma sem er útbreidd aðferð við framsetningu ljósmynda almennt.
Gler vísar einnig til þess tómarúms sem birtist í skúlptúrum Gerðar, til negatífs rýmis járnskúlptúranna, auk verka hennar í steint gler. Gúmmíð kallast á við svart járnið í verkum Gerðar um leið og það er fullkomin andstaða þess.
Gúmmíð gegnir þó því hlutverki að halda verkum saman, því öfugt við skúlptúra Gerðar eru verkin mín ekki varanlega fest saman. Verk Gerðar eru soðin saman og haldast sem slík um alla eilífð á meðan verkunum mínum er pússlað varlega saman og því jafn auðvelt að taka þau í sundur aftur.
Umfar er samsafn brota þar sem ég hef púslað saman ljósmynduðum myndhlutum úr verkum Gerðar, prentað myndirnar út, brotið saman og bætt við öðrum efnum og þannig gefið ljósmyndunum og um leið verkum Gerðar þrívíða tilveru á ný.