Svanhildur Halla Haraldsdóttir
www.svanhildurhalla.com
 

Í Reykjavík er gata
við götuna er hús
í húsinu er gangur
við ganginn er herbergi
í herberginu er rúm
á rúminu er sæng
undir sænginni er stelpa
stelpan sneri við sænginni
sængin sneri við rúminu
rúmið sneri við herberginu
herbergið sneri við ganginum
gangurinn sneri við húsinu
húsið sneri við götunni
og gatan sneri við Reykjavík

Ég býð fólki að fá sér sæti inni í sýningarrými Kjarvalsstaða og hlusta á sögu. Sögu sem er þó ekki mín heldur okkar, okkar sem hnoðumst saman. Frásögn sem leiðir hlustanda um rými þar sem augnablik mæta minningum um eitthvað sem var og jafnvel var ekki. Minningar flæða og flækjast saman við nýjar upplifanir og skapa þannig um leið kenndir fyrir hinu ókomna. Verkið er samofin heild sem heldur utan um minni fortíðar og líðandi stund. Brotakennd frásögn gefur tilfinningu fyrir samslætti vídda þar sem huglæg upplifun flæðir á milli veruleika og ímyndunar, draums og vöku, meðvitundar og undirmeðvitundar. 

Rými hefur áhrif á það hvernig við högum okkur en að sama skapi höfum við einnig áhrif á rýmið. Því lengur sem við dveljum í rými því kunnuglegra verður það. Líkamar okkar aðlagast því og öfugt. Örlitlar agnir loða við áklæði sem við getum síðan skynjum sem lykt og svampur heldur formi sem líkaminn mótaði. Líkaminn mótar efnið og efnið mótar líkamann. Sagan mótar hugann og hugurinn mótar söguna. Hægt er að snúa slíkum fullyrðingum á hvolf, hræra aftur upp í þeim og endurtaka leikinn.