Mig langar til að rekja stuttlega tilurð sjóðsins og sögu hans eftir minni mínu og þeim gögnum, sem ég hef undir höndum. Ég kynntist Halldóri Hansen vel um miðjan níunda áratuginn og urðum við fljótlega góðir vinir. Smám saman varð hann jafn nákominn mér sem væri hann einn af fjölskyldu minni enda var hann tíður gestur á heimili okkar Selmu konu minnar. Við Halldór áttum ekki síst mikil samskipti vegna sameiginlegs áhuga okkar á óperum og ljóðasöng og miðlaði Halldór mér þar af yfirburða reynslu sinni og þekkingu – eins og svo mörgum öðrum. Eftir að ég varð ritstjóri Óperublaðins skrifaði Halldór fjölmargar greinar í blaðið að minni beiðni, einkum um söngvara fyrri tíma.

Halldór veiktist alvarlega nokkrum sinnum eftir að ég kynntist honum og var oft tvísýnt um líf hans. Hann átti mikið og einstætt hljómplötusafn, sem var honum mjög kært, en óvíst var hvað yrði um safnið eftir hans dag. Um 1990 féllst Halldór á það samkvæmt tillögu minni að ánafna Styrktarfélagi Íslensku óperunnar plötusafnið, en ég sat þá sjálfur í stjórn félagsins, sem samþykkti að taka við safni Halldórs og varðveita það eftir hans dag.

Ég hætti störfum fyrir Óperuna um 1995. Nokkrum árum síðar barst mál plötusafnsins aftur í tal á milli okkar Halldórs. Í ársbyrjun 1999 stakk ég upp á því við hann að leitað yrði til annarra aðila til að taka við safninu eftir hans dag. Urðum við sammála um að leita fyrst til Tónlistarfélagsins í Reykjavík, en Halldór hafði mikið komið við sögu félagsins. Halldór hafði sagt mér að hann ætti enga beina erfingja og stakk ég þess vegna upp á því að hann léti húseign sína og aðrar eigur fylgja safninu til að tryggja því örugga framtíð, enda myndi það augljóslega kosta talsverða fjármuni að varðveita safnið og skrá það. Halldór féllst á þetta og skrifaði undir erfðayfirlýsingu dags. 21. mars 1999 þar sem hann arfleiddi Tónlistarfélagið að safninu. Skömmu síðar skipti hann hins vegar um skoðun hvað húsið varðaði og arfleiddi Barnaspítala Hringsins að því með erfðaskrá dags. 14. apríl 1999.

Nokkru áður hafði ég rætt við Baldvin Tryggvason, formann Tónlistarfélagsins, og ritaði ég honum bréf um þetta mál þann 15. apríl 1999. Þá vissi ég reyndar ekki að Halldór hafði daginn áður skrifað undir erfðaskrána. Það gerði hann hins vegar að ráði annars góðs vinar síns, Sveinbjarnar Dagfinnssonar, sem vildi Halldóri vel og var ekki nógu sannfærður um að vel yrði haldið utan um arf hans af tónlistarfólki. Ég sendi Baldvini annað bréf um málið 20. maí 1999, en stjórn Tónlistarfélagsins tók dræmt í að taka við safni Halldórs. Við Baldvin áttum nokkur samtöl um þetta næstu mánuði og stakk hann upp á því að ég talaði við Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, um að skólinn tæki við safni Halldórs.

Ég ræddi við Hjálmar þá um sumarið og tók hann hugmyndinni fagnandi og fullvissaði mig jafnframt um að safninu yrði vel borgið í skólanum og einnig öðrum eigum Halldórs, ef þær myndu fylgja með. Ég snéri mér þá aftur til Halldórs og óskaði eftir því að hann léti hús sitt og aðrar eigur fylgja safninu eftir sinn dag. Halldór var enn mjög tvístígandi enda báðir kostir hans góðir, en rök mín voru þau að tónlistinni myndi muna meira um að fá peninga hans en spítalanum. Halldór féllst á þetta og var ný erfðaskrá skrifuð 29. september 1999 þar sem Halldór ánafnaði LHÍ safni sínu, húsi og öðrum eigum.

En aftur kom babb í bátinn, - sami góði vinur Halldórs og áður taldi þetta enn varhugavert. Halldór hikaði við ganga gegn vilja hans og frestaði því að undirrita skjalið. Gekk nú ekki né rak í málinu fyrr en sumarið 2001, en þá var Halldór aftur orðinn mikið veikur. Við töluðum þá enn mikið saman um þetta mál og varð niðurstaðan sú að Halldór féllst á að arfleiða LHÍ að safninu, húsinu og öðrum eigum sínum. Undirritaði hann skjal þar að lútandi 21. júlí 2001. Því fylgdi annað skjal, sem Halldór hafði skrifað og kallaði “Hugleiðingar” um erfðaskrá HJH. Erfðaskránni var breytt lítillega skömmu síðar, en endanleg gerð hennar var undirrituð 27. ágúst 2001.

Með hinni endanlegu gerð fylgdi nýtt skjal Halldórs - “Leiðbeiningar um erfðaskrá” - þar sem sett eru fram viss skilyrði hans gagnvart LHÍ um varðveislu safnsins og ráðstöfun fjárins. Þar skrifar Halldór m.a.:

 “Það sem skiptir mig mestu máli er plötusafnið, myndbönd og bækur um tónlistarmenn. Þetta er það sem hjarta mínu er næst, nálgast það að vera eins og barnið mitt.... Mig langar til þess að þeir sem áhuga hafa á geti notað plötu- og myndbandasafnið og þá fyrst og fremst tónlistarfólk, en líka áhugafólk....

... Það þarf að halda þessu safni aðskildu frá öðru, þ.e. að það verði sérdeild í fræða/bókasafni LHÍ....

... Til að tryggja fjármagn til að koma safninu í gang og standa undir rekstri þess um ókomna tíð hef ég arfleitt LHÍ að húseigninni Laufásvegi 24. Andvirði hennar auk lausafjár, sem ég arfleiði safnið að, ætti þá að standa undir rekstri safnsins, skráningu og öðru...”

Hjálmar H. Ragnarsson samþykkti þessi skilyrði Halldórs með undirritun sinni á skjalið hinn 30. ágúst og 11. desember 2001 var undirritað formlegt “Samkomulag” milli Halldórs og Hjálmars f.h. LHÍ, en Árni Tómas Ragnarsson og Björn Bjarnason menntamálaráðherra skrifuðu undir til staðfestingar. Undirritunin fór fram við hátíðlega athöfn í húsakynnum LHÍ.

Næstu mánuði ágerðust veikindi Halldórs og var hann á sjúkrahúsi mánuðum saman það sem hann átti eftir ólifað. Hann undirritaði “Skipulagsskrá” fyrir styrktarsjóð sinn á Landakotsspítala þann 18. desember 2002 ásamt Hjálmari og Karólínu Eiríksdóttur, formanni skólastjórnar LHÍ, en Árni Tómas var viðstaddur til staðfestingar. Halldór lést 21. júlí 2003 og var hann jarðsunginn frá Dómkirkjunni að viðstöddu fjölmenni, en fjölmargir tónlistarmenn sköpuðu athöfninni glæsilega og viðeigandi umgjörð.

Síðustu mánuðina sem Halldór bjó heima á Laufásveginum höfðu starfsmenn LHÍ byrjað að skrásetja plötusafn hans. Þeirri skráningu hefur verið haldið áfram og mun henni að líkindum verða lokið haustið 2005. Þá er mikil vinna eftir við að afrita hljómplöturnar, en áætlað er að það verði gert smám saman á næstu árum og verði það síðan aðgengilegt öllum tónlistaráhugamönnum skv. ósk og vilja Halldórs.

Haustið 2004 var skipað í stjórn sjóðsins. Hjálmar H. Ragnarsson var sjálfkjörinn sem rektor LHÍ, en stjórn skólans skipa a.ö.l. Árni Tómas Ragnarsson og Mist Þorkelsdóttur deildarforseti tónlistardeildar LHÍ. Árni Heimir Ingólfsson og Þorsteinn Gylfason eru varamenn í stjórn.

Fyrsti fundur sjóðsstjórnar var haldinn 26. nóvember 2003. Síðan þá hafa verið haldnir allmargir stjórnarfundir. Hús Halldórs að Laufásvegi var selt í mars 2004 og nokkrum mánuðum síðar höfðu allir fjármunir hans og tónlistarsafn ratað í hendur sjóðsstjórnar. Heildarfjárhæðin sem rann til styrktarsjóðsins frá Halldóri nam alls tæpum 87 milljónum króna, sem var mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Samkvæmt skipulagskrá skal 1/3 fjárins notaður á næstu árum til að koma starfsemi sjóðins á laggirnar, en 2/3 hlutar verða ávaxtaðir og ávöxtunin notuð í þágu sjóðsins.

Fyrsta styrkveiting úr sjóðnum til ungra tónlistarmanna fór fram 7. janúar 2005, en þá var jafnframt gerð opinberlega grein fyrir tilurð og starfsemi sjóðsins. Jafnframt hefur stjórn sjóðsins ákveðið að veita 8 milljónum króna til kaupa á nótum til tónlistarsafns LHÍ. Stjórn sjóðsins hefur einnig ákveðið að fá vinkonu Halldórs, söngkonuna Elly Ameling, ásamt Gerrit Schuil píanóleikara til að halda masterclass fyrir einsöngvara á vegum sjóðsins og í nafni Halldórs í lok mars n.k. Fyrirhugað er að halda slíka masterclassa reglulega í framtíðinni og jafnframt að veita ungum tónlistarmönnum styrki skv. skipulagsskrá sjóðsins.

8. janúar 2005
Árni Tómas Ragnarsson