Listaháskólinn ber ábyrgð á þróun fræðasviðsins listir innan íslensks háskólasamfélags og vinnur að framgangi þess í stofnunum og stjórnunareiningum sem fara með stefnumótun og ákvörðunarvald fyrir háskólasamfélagið í heild.

Rannsóknir og nýsköpun á fræðasviði lista fela í sér alla sjálfstæða vinnu akademískra starfsmanna sem miðlað er með opinberum hætti, ýmist á listrænu formi eða á fræðilegum vettvangi. Afraksturinn getur verið í öllum mögulegum  birtingarmyndum þeirra listsviða sem skólinn starfar á, hvort sem það er í sjónlistum, sviðslistum, tónlist, eða á ritrýndum vettvangi. 

Skólinn leggur áherslu á að efla tengsl sín við opinbera stjórnsýslu og beitir sér fyrir því að afrakstur fræðasviðsins verði metinn til jafns við afrakstur á öðrum fræðasviðum við úthlutun á opinberu styrktarfé. Það er því markmið skólans að hann fái grunnframlög til rannsókna og nýsköpunar sem eru sambærileg við þau sem háskólar á öðrum fræðasviðum njóta. 

Listaháskólinn er kjarnaskóli skapandi greina og forystuafl innan íslensks háskólasamfélags um þróun þeirra og viðgang. Með framgangi listsköpunar vinnur skólinn atvinnulífi skapandi greina vaxandi skilning innan samfélagsins og bætir við nýrri þekkingu í þessum greinum sem nýtist samfélaginu í heild. 

Stefna skólans er að:

- Tryggja grunnfjárframlög til rannsókna og nýsköpunar í samræmi við hlutverk og ábyrgð háskóla.
- Efla hlut akademískra starfsmanna í úthlutunum úr opinberum samkeppnissjóðum í vísinda- og nýsköpunarkerfinu hér á landi.
- Skapa heildstæða umgjörð og regluverk fyrir rannsóknar- og nýsköpunarverkefni skólans og efla innra stoðkerfi og þjónustu.
- Skapa akademískum starfsmönnum aukið svigrúm til sjálfstæðra starfa innan þeirra sérsviða sem þeir eru ráðnir til innan skólans.
- Efla skólann sem vettvang fyrir umræðu um rannsóknir og nýsköpun og gildi þeirra fyrir fagsamfélagið.
- Hvetja til aukins samstarfs við innlenda og erlenda háskóla og listastofnanir um rannsóknir og nýsköpun.
- Innleiða skilvirkt gæðakerfi rannsókna og nýsköpunar sem tryggir sanngjarnt mat á afrakstri og hvetur til virkni á sviðinu.
- Kynna og koma skipulega á framfæri afrakstri skólans í listsköpun og rannsóknum.