Stefán Hermannsson
www.stefanhermannsson.com

Kristján Guðmundsson listamaður sagði þegar hann var spurður um verk sín að þau tilheyrðu spennu sem væri á milli þess að vera ekkert og að vera eitthvað.
Mér líður vel í þessu svari.

Stundum þegar ég teikna, legg ég flata lófana á blaðið, í svolitla stund, áður en ég byrja. Þá næ ég hlýrri tengingu við æðrulausan flötinn sem er tilbúinn að taka við strikum. Ég reyni svo að fara inn í rýmið af einlægni og sanngirni.
Flöturinn sem teikningin situr á er eins og svið þar sem hún kemur fram, breiðir úr sér og rýmið fær að njóta sýn. Yfirborð er alltaf hluti af þrívíðu efni, það gerir okkur kleift að upplifa efniskennd yfirboðsins.
Mér fannst gott að skilgreina flötinn sem rými og skoða línuna í tvívíðu rými flatarins. Skoða áhrif línunnar á rýmið og áhrif rýmisins á línuna, sem tengjast því hvernig ég skoða umhverfið, bæði það lífræna og manngerða og samspili þess. Hvernig línur og form hafa áhrif hvort á annað og hvernig rýmið breytist. Rýmið skiptir mig miklu máli, það er loftið í verkinu. Teikningin verður að geta andað eins og ljósið með skugganum og rýmið með forminu.
Gifsið er brothætt og berskjaldað, hlaðið tilfinningum og skýrskotunum. Hvítur flöturinn er mattur og kaldur en lýsir hreinleika og viðkvæmni. Teikningin er grönn og viðkvæm. Innviðir yfirborðsins eru mikilvægir. Ég reynir að draga fram innviðina og margþætta möguleika yfirborðsins.