Um stjórn Styrktarsjóðs Halldórs Hansen

Skipan stjórnar

Stjórn sjóðsins er skipuð 3 mönnum og 2 varamönnum sbr. skipulagsskrá sjóðsins dags. 18. desember 2002.

Hlutverk og skyldur

 • Stjórn sjóðsins fer með ákvörðunarvald innan hans og yfirumsjón málefna hans.
 • Stjórn sjóðsins skal standa vörð um hlutverk sjóðsins og gæta þess að starfsemin þjóni settum markmiðum skv. skipulagsskrá. Hún ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum sjóðsins.
 • Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samninga við Listaháskóla Íslands um að annast ýmsar framkvæmdir í þágu sjóðsins, rekstur og bókhald hans o.fl., en rekstri sjóðsins skal þó haldið aðskildum frá rekstri skólans.
 •  Fjárhagsáætlanir og reikninga skal leggja fyrir stjórnina til samþykktar.
 • Stjórnarmönnum ber að þekkja lög, reglur og samþykktir sem gilda um sjóðinn, skilja hlutverk stjórnar og í hverra þágu er unnið.
 • Stjórnarmenn skulu taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.
 • Stjórnarmenn skulu tryggja að til staðar sé innra eftirlit og fylgjast með að ákvörðunum stjórnar sé framfylgt.

Starfsreglur

 •  Formaður boðar stjórnafundi og stýrir þeim.
 • Stjórn getur skipað undirnefndir til að vinna að afmörkuðum verkefnum.
 • Fundir skulu að jafnaði haldnir eigi sjaldnar en þrisvar á ári og oftar ef þurfa þykir.
 • Ritari leggur fundargerðir fyrir stjórnarfundi til samþykktar. Fundargerðir skulu afhentar stjórnarformanni til varðveislu.
 •  Fundargögn skulu varðveitt með fundargerðum.
 • Stjórnin tekur ákvarðanir um þau málefni sem falla undir starfssvið hennar. Komi til atkvæðagreiðslu ræður meirihluti atkvæða. Fundargerðir skulu ekki birtar nema um það sé tekin sérstök ákvörðun.
 • Stjórnarmenn skulu gæta þagmælsku og trúnaðar um málefni sem rædd eru á stjórnarfundum.
 • Stjórnarmenn skulu gæta að því að farið sé eftir almennum reglum um vanhæfi stjórnarmanna.

Samþykkt á fundi stjórnar Styrktarsjóðs Halldórs Hansen 9. september 2005.