Með þessu verkefni beinir höfundur sjónum að eigin starfi sem söngkennari og skrásetur ósjálfráða hugmyndafræði kennslunnar. Sólrún Hedda hefur kennt söng á eigin vegum síðan árið 2021 en aldrei við tónlistarskóla. Nemendur hennar eru allir fullorðnir og eru flestir jaðarsettir með einhverjum hætti; fólk í starfsendurhæfingu af  ýmsum orsökum, trans fólk í kynstaðfestandi ferli og bæði virkir og óvirkir fíklar. Nemendahópurinn hefur að auki sterkar rætur í íslensku jaðartónlistarsenunni og áhugi bæði nemenda og kennara á jaðartónlist hefur haft töluverð áhrif á kennsluhættina, til dæmis hvað varðar efnisval og á hvað áhersla er lögð.

Stoðir verkefnisins eru í rannsóknum á störfum ýmiss konar samfélagstónlistarhópa. Gagnsemi samfélagslegrar tónlistariðkunar fyrir velferð iðkenda þekkist víða, svo sem meðal menningarstuðningshópa frumbyggja í Kanada og í neyðargistiskýlum fyrir fólk sem lifir við heimilisleysi. Jákvæð andleg, líkamleg og félagsleg áhrif söngs eru einnig vel þekkt en þó einkum í samhengi við hópsöng. Umfjöllunarefni verkefnisins, einsöngstímar til að styrkja fólk í viðkvæmri stöðu, hefur minna verið rannsakað en að auki hafa jaðarsettir hópar síður aðgang að tónlistarnámi en aðrir. Áhersla verkefnisins á endurhæfingu er tilkomin vegna þátttöku höfundar í samfélagshljómsveitinni Kordu Samfóníu þar sem koma saman þjónustuþegar starfsendurhæfingarstöðva á suðvesturhorninu, tónlistarnemendur frá Listaháskóla Íslands og hljóðfæraleikarar frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Til að skoða nánar áhrif einsöngstíma á velferð jaðarsettra einstaklinga tók höfundur óformleg viðtöl við fyrrverandi og núverandi nemendur sína. Ýmis sameiginleg þemu komu í ljós og nemendur sögðust hagnast á bæði áþreifanlegum hlutum, svo sem teygjuæfingum og upphitunaræfingum, sem og á óáþreifanlegum atriðum á borð við aukið sjálfsöryggi og bættri tengingu við eigin líkama. Hið augljósa verður glænýtt og sjálfsagðir hlutir verða merkilegar uppgötvanir þegar starf kennarans er skoðað með gleraugum rannsakanda.

Myndir: Juliette Rowland, Red Illuminations, Monika Wawrzyniak Photography og Marie Lydie Bierne

marghofda_dyrid_-_red_illuminations.png
Red illuminations
vevaki_-_monika_wawrzyniak_photography.jpg

vevaki_-_monika_wawrzyniak_photography