Myndmálið, augun sjá það, sem speglun sem fer í gegnum ólíka miðla áður en hún kemur heim og saman eða ekki fyrir okkur. Sökum eiginleika miðlanna og hinna mörgu möguleika á nýtingu þeirra getur það sem augað sér verið margrætt – afmyndað, heft, ýkt eða síað. Í hvert sinn sem mynd fer í gegnum miðil skapar hún nýja mynd. Til dæmis getum við ekki starað í eigin augu nema um einhvers konar miðil, svo sem spegilmynd eða myndavélarlinsu. Spegillinn og myndavélin skapa nýja huglæga mynd vegna þess hvernig efnin eru í eðli sínu eða hvernig við kjósum að líta á þau. Hvert skref speglunarinnar er einhvers konar sértekning og endurgerð á raunveruleikanum. 
 
Í millibilsástandinu/-rýminu, svo sem við umbreytinguna frá svefni yfir í vöku, getur upplausn átt sér stað, breytt skynreynslunni og brotið niður línulaga samsetningu tímans. Við það rennur myndmál þess sem við erum að upplifa saman við ímyndun, ofskynjun og minningar, með þeim afleiðingum að viðfangið hangir á milli fortíðar og samtíðar, raunveruleika og óraunveruleika. Augun (hvort sem þau eru opin eða ekki) sjá í gegnum samofna margræðni raunveruleikanna, myndina innan myndarinnar; sjá það sem er hulið og það sem er sýnt, það sem er áþreifanlegt og raunverulegt og það sem er formlaust og afstrakt. 
 
Hnökri er hárfínn, snöggur viðskilnaður við það sem við erum að skynja. Það er brot uppbyggingar meðvitundar og upplifunar, sem myndar gáttir fyrir okkur til að stökkva á milli þess kunnuglega og hins óljósa, til að ferðast á milli raunveruleika. Orka er alltaf flöktandi og efni skiptir sífellt um form og hnökri getur átt sér stað innan um sveiflur þess sem við höfum upplifað.
 
Samklipp er leið til að skapa nýjar merkingar með því að stilla og etja saman hlutum. Millibilsástandið sveiflast með sundrun ímyndanna, mismunandi laga mynda sem augun sjá gegnum speglun. Það veitir grundvöll fyrir samklippið og skapar hnökra sem rjúfa skynjun okkar og skilning. Gegnum samklippið verða til nýjar túlkanir, tengingar og merkingar og nýtt sálfræðilegt ástand sem rennur saman við hið hversdagslega, hið skynlega og ýtir undir annars konar raunveruleika, sem eykur margbreytileika þess hvernig við skynjum og skiljum efni og okkur sjálf.