Bestu kveðjur, Leir og postulín

Fyrirtækið Leir og postulín hefur aðsetur í látlausum húsakynnum í Súðavogi. Hjónin Edda Agnarsdóttir og Jón Þráinn Magnússon stofnuðu fyrirtækið fyrir fjörutíu árum og hafa þau allar götur síðan sérmerkt bolla, glös, barmmerki og fleira fyrir fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, tilefni og einstaklinga. Í hverjum króki og kima húsnæðis Leirs og postulíns má finna minnisvarða prentaða á bolla sem vísa til hátíðlegra tilefna, ævintýralegs gjaldþrots ríkisbanka eða áhugaverðra félagasamtaka. Bollarnir, sem eru um 600 talsins, vísa í óritskoðaða sögu íslensks samfélags og draga fram tíðaranda, stefnur og strauma í grafískri hönnun undanfarna áratugi.