Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, var annar lykilfyrirlesara Hugarflugs 2019.

 
Flutti hún erindi sitt Að verða byrjendur aftur í heimspeki: Líkamleg, gagnrýnin hugsun  föstudaginn 15. febrúar 2019 kl. 9.15-10.15 í húsnæði LHÍ, Laugarnesvegi 91, í fyrirlestrarsal. 
 
 
 
Sigríður Þorgeirsdóttir hefur kennt við HÍ, Helsinki háskóla, háskólann í Rostock í Þýskalandi, og er eftirsóttur fyrirlesari víða um heim. 
 
Hún lærði heimspeki í Boston og í Berlín þaðan sem hún lauk doktorsprófi um heimspeki Nietzsches. Hún hefur gefið út bækur um heimspeki Nietzsches, Beauvoir, Arendt, auk þess að gefa m.a. út greinarsöfn um femíníska heimspeki og kvenheimspekinga. Sigríður hefur enn fremur fjallað um heimspeki listarinnar og hefur sóst eftir samtali við listamenn – enda er hún þeirrar skoðunar að skapandi heimspekileg hugsun sé forsenda allra fræðigreina. 
 
Meðal síðustu bóka Sigríðar eru Nietzsche als Kritiker und Denker der Transformation (de Grutyer 2016) sem hún ritstýrði ásamt Helmut Heit, Calendar of Women Philosophers (Philosophy Documentation Center 2018) sem hún ritstýrði, og nú er væntanleg Women in the History of Philosophy: Methodological Reflections, (Springer 2019) sem hún ritstýrir ásamt Ruth Hagengruber. Um þessar mundir er Sigríður að skrifa bók um heimspeki Luce Irgaray um að verða aftur byrjendur í heimspeki. 
 

Að verða byrjendur aftur í heimspeki:

Líkamleg, gagnrýnin hugsun 

 
Rannsóknir hugar- og vitundarfræða undangenginna áratuga hafa grafið undan tvíhyggju hugar og líkama með að varpa ljósi á samspil vitsmuna og tilfinningar í allri hugsun okkar. Það skapar forsendur til að endurnýja aðferðir heimspekilegrar hugsunar með að hugsa markvisst út frá reynslu í stað þess að aftengja okkur henni, eins og oft er gert ráð fyrir að sé forsenda hlutlægrar og fræðilegrar hugsunar. Í alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem Sigríður á hlut að er unnið að því að þróa frekar aðferðir til þess að dýpka gagnrýna hugsun með þessu hætti (www.ect.hi.is).
 
Sigríður mun einnig rekja hvernig svona hugsun byggir á ást, sem hefst í ástinni til okkar sjálfra.  
 
Sigríður fjallaði um þessar rannsóknir á líkamlegri, gagnrýninni hugsun í útvarpsviðtali á RÚV við Torfa Tulinius og Ævar Kjartansson þann 13. Janúar s.l. sem er aðgengilegt hér.

 

hi_portrett_2016_1.jpeg
 

 

FLÝTILEIÐIR

 

Nánari upplýsingar / contact info: 

Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir
olofhugrun [at] lhi.is