„Aldrei of seint“
Hvert er viðhorf píanókennara og fullorðinna byrjenda til náms í píanóleik?

 
Ég hef tæplega 40 ára reynslu úr tónlistarskólakerfinu. Fyrst sem nemandi í píanóleik en síðar sem píanókennari og söngnemandi.
 
Tónlistarnám hefur haft mikið gildi fyrir mig sem einstakling og ég gleymi því aldrei hversu heilluð ég varð þegar ég sló fyrst fingri á píanóið. Ég hef mikla ástríðu fyrir að miðla tónlist til annarra, bæði í formi flutnings og í kennslu. Það má segja að ég hafi að miklu leyti helgað líf mitt þessari ástríðu.
 
Ég hef þá trú að tónlist sé fyrir alla og mig langar að sem flestir, óháð aldri eða félagslegum bakgrunni, hafi tækifæri á að upplifa galdur tónlistarinnar. 
 
Margir fullorðnir hafa í gegnum tíðina komið að máli við mig og spurt mig hvort það sé of seint að hefja píanónám. Þeir tjá sig um mikinn áhuga á að læra píanóleik og telja að það gæti gefið þeim aukna lífsfyllingu. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og væntingum um betra og innihaldsríkara líf eldra fólks gæti verið kostur að tónlistin og hljóðfæranám fullorðinna fái aukinn sess. 
 
Verkefnið er viðtalsrannsókn þar sem kannað er bæði viðhorf píanókennara til fullorðinna byrjenda í píanóleik sem og viðhorf hinna síðarnefndu til námsins og spurt um framkvæmd, viðmið og væntingar þeirra til kennslunnar. Það er mikilvægt fyrir þróun tónlistarkennslu til framtíðar að gera sér grein fyrir væntingum fullorðinna nemenda. 
 
freyja_3.jpeg
 
Sigríður Freyja Ingimarsdóttir
sigridurfreyja1808 [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Elín Anna Ísaksdóttir
Tónlistardeild
30 ECTS
2020