Rými til vaxtar
leikur, flæði og samræður 

 
Ritgerðin fjallar um starfendarannsókn sem stóð yfir í 6 mánuði frá október 2019 til mars 2020. Eftir að hafa kennt í nokkur ár og kynnst fræðunum betur þá fann ég þörf fyrir að flétta þetta saman og skerpa á því hvernig kennari ég vil vera.
 
Ég vissi að ég vildi ekki kenna á sama hátt og mér var kennt í barnaskóla heldur vildi ég brjóta þá múra og ryðja leið fyrir nemendur til að finna sína rödd og skapa út frá eigin tilvist.
 
Ég hugsaði verkefnið út frá einstaklingnum og hans innra landslagi, skynjun á umhverfi sínu og hvernig hann tengist samfélaginu. Ég skoða meðal annars John Dewey og hans kenningar um lýðræði og jafnréttisgrundvöll, hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði (e. Flow), fyrirbærafræði Maurice Merleau-Ponty og gagnrýna kennslufræði (e. critical pedagogy) Paulo Freire og hugmyndafræði hans um valdeflingu einstaklingsins.
 
Helstu gögn sem ég notaði á meðan á rannsókn stóð voru rannsóknardagbók, ljósmyndir, óformlegar samræður og hljóðskrár sem ég safnaði sjálf.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að með því að leggja áherslu á sköpunarferlið sjálft, í gegnum leik, flæði og samræður fundu nemendur eigin styrkleika og rödd.
 
Það kom skemmtilega á óvart í þessu ferli hversu mikilvægt það er að byrja og enda tímana með check-in og check-out leik. Það virkaði rétt eins og hljómsveit sem stillir saman strengi sína og spilar í takt.
 
Ferðalagið sem ég hef farið í, sem er þessi starfendarannsókn, hefur aukið mér sjálfstraust og gefið mér byr undir báða vængi. Ég hef áttað mig betur á því hvernig kennari ég vil vera. 
 
sif.jpg
 
Sif Beckers-Gunnsteinsdóttir
sif.gunnsteinsdottir [at] gmail.com
Leiðbeinendur: Ingimar Ólafsson Waage og Hafþór Guðjónsson
30 ECTS
2020