Aftur til framtíðar

Listmenntun, menningarlæsi og sjálfbærni

 
 
Meistaraverkefnið Aftur til framtíðar fjallar um námskeið fyrir ungmenni í 8.-10. bekk, þar sem er blandað saman listkennslu, safnafræðslu og sjálfbærnimenntun. 
 
Markmiðið með verkefninu er að efla vitund ungmenna um málefni sjálfbærni, vekja áhuga þeirra á íslenskum menningararfi og þjálfa þau í að beita gagnrýnni hugsun og menningarlæsi í tengslum við listsköpun.
 
Námskeiðið var prófað á stúlknahóp úr 8. bekk Hagaskóla og unnu þær verkefni út frá heimsókn á Þjóðminjasafnið þar sem komið var inn á hugmyndir um sjálfbærni, þverfagleg vinnubrögð og skapandi listræna hugmyndavinnu. Verkefnið fór fram í þremur kennslustundum.
 
Í fyrsta tíma kynntust nemendur grunnhugmyndum um sjálfbærni og menningararf í gegnum verk nokkurra listamanna og hönnuða sem hafa unnið markvisst með þau hugtök.
 
Í öðrum tíma var Þjóðminjasafnið heimsótt, þar sem menningararfurinn var skoðaður út frá sjálfbærni og lífshættir fólks á fyrri öldum notaðir til að varpa gagnrýnu ljósi á lífshætti fólks í dag.
 
Nemendur unnu skissu- og hugmyndavinnu á safninu fyrir lokaverkefni námskeiðsins, en það snerist um að velja eitt atriði á safninu og sjá hvernig væri hægt að þróa það á skapandi hátt fyrir framtíðina.
 
Í þriðja og síðasta tíma kláruðu nemendur hugmyndir og skissur að lokaverkefum og kynntu fyrir bekknum. Stúlkurnar unnu einnig hópverkefni og tóku þátt í umræðum.
 
Í námskeiðinu var ekki gerð krafa um fullklárað lokaverkefni, heldur var megináhersla lögð á sköpunarferli, hugmyndavinnu og samtal.
 
 
Sara María Skúladóttir
Leiðbeinendur: Dr. Ásthildur Jónsdóttir og Dr. Ellen Gunnarsdóttir
2018