Huldufólk

Gler, plexigler, pappír, viður

Álfkonan Helga Hulda Hafdís birtist mér í draumi. Þakkaði hún mér fyrir orð sem ég hafði hvíslað að henni er hún fæddi barn sitt nokkru áður. Er ég vaknaði af draumnum biðu mín skilaboð frá Þjóðminjasafninu með mynd af Álfkonudúknum frá Bustarfelli. Dúkinn hafði Guðrún Marteinsdóttir, sýslumannsfrú á Bustarfelli, fengið að gjöf frá álfkonu eftir að hafa ávarpað hana í fæðingu.  

Hvernig gat slík tilviljun átt sér stað? Hversu mikið býr í tilverunni sem við ekki skiljum; þar á meðal hvernig okkar eigin hugur starfar? Hvaðan kom þessi álfkona inn í mína drauma?  

Huldufólk hefur í gegnum tíðina kennt okkur vissa mannasiði, svo sem að vera góður við þá sem minna mega sín og að bera virðingu fyrir landinu sem og náttúruöflunum.  

Huldufólk tilheyrir hinu óáþreifanlega og dularfulla, og jafnvel leikur á huldu hvort yfir höfuð finnist fótur fyrir tilvist þeirra.  

Verkið er byggt á Álfkonudúknum frá Bustarfelli. Í því getum við speglað okkur og ef til vill, ef við athugum gaumgæfilega, gætum við séð álfinn í okkur sjálfum. Ég tala nú ekki um ef við setjum upp hulduhattinn. 

1._sara_bjork_hauksdottir_sara17lhi.is-18.jpg