Möguleikar dansins í kennslu

Danskennsla í grunnskólum landsins

 
 
Hverjir eru möguleikar dansins í grunnskólum landsins?
 
Leit að svörum við þessari spurningu er viðfangsefni meistararitgerðar minnar. Rannsóknin var í tveimur liðum og var notast við blandaða rannsóknaraðferð.
 
Annars vegar er um að ræða eigindlega rannsókn þar sem tekin voru rýnihópaviðtöl við listdanskennara til að kanna viðhorf, reynslu og gildismat þeirra um möguleika dansins í grunnskólum.
 
Hins vegar var framkvæmd megindleg rannsókn þar sem send var út könnun á alla grunnskóla landsins og staða danskennslu í grunnskólum í dag greind.
 
Rannsóknin leiddi í ljós að listdanskennararnir hafa mikla trú á mikilvægi og möguleikum dansins sem námsgrein.
 
Tjáning, læsi, sköpun, félagsfærni og heilbrigði voru þau atriði sem þeir settu í forgrunn. Mat þeirra rímar vel við nýja menntastefnu landsins ásamt þeirri menntasýn sem sett hefur verið fram erlendis. Umræða rýnihópanna varpaði ljósi á brýna þörf og mikilvægi þess að þróa skýra menntasýn fyrir dansinn hér á landi.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu einnig að dans er ekki kenndur sem fullgild námsgrein inni í grunnskólum landsins í miklum mæli.
 
Dans er aðeins kenndur í 56% af skólum landsins og er hægt að álykta að rétt rúmlega helmingur þeirra skóla, sem kenni dans, kenni hann eftir hæfniviðmiðum og tímafjölda sem kveðið er á um í Aðalnámskrá grunnskóla. Það er því mikið verk fyrir höndum í að móta og efla danskennslu í grunnskólum landsins.
 
Fyrst og fremst þarf að laða að fleiri danskennara til starfa, auka stuðning við þá sem hefja störf í grunnskólum og tryggja þeim viðunandi starfsumhverfi. Efla þarf skilning skólastjóra á mikilvægi dansins sem námsgreinar, ýta undir faglegt samstarf milli danskennara og ráðast í gerð námsefnis.
 
Síðast en ekki síst þarf hugarfarsbreytingu innan grunnskólakerfisins. Ljóst er að dansinn þarf að fá tækifæri til að vaxa og dafna í skólum landsins á eigin forsendum sem skapandi grein með áherslu á lífræna hugsun, skynjun og tilfinningar. 
 
 

 

Sandra Ómarsdóttir
fjardarsel11 [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Irma Gunnarsdóttir
Listkennsludeild
30 ECTS
2021