Reglur um samkeppni um að fá að koma fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands sbr. samning dags. 21.12.04, með breytingum sept. 2007, sept. 2010 og ág. 2018.

1) Samkeppnin er árlegur viðburður á vegum Listaháskóla Íslands (LHÍ) og Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ). Listaháskóli Íslands er framkvæmdaaðili keppninnar. Umsóknarfrestur er frá upphafi skólaárs og lýkur eigi síðar en þremur vikum fyrir keppnina. Samkeppnin skal haldin eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir tónleikana Ungir einleikarar sem að öllu jöfnu eru haldnir í janúar.

2) Samkeppnin er opin nemendum sem stunda nám í hljóðfæraleik eða söng á 1. háskólastigi (bakkalár) og eru íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar sem hafa verið búsettir á Íslandi í a.m.k. eitt ár. Þeir hljóðfæraleikarar og söngvarar eiga rétt til þátttöku sem eru 30 ára eða yngri á árinu sem keppnin er haldin. Fyrrum sigurvegarar samkeppninnar eiga ekki möguleika á endurtekinni þátttöku.

3) Nemendur tónlistardeildar LHÍ sækja um þátttöku á sérstöku eyðublaði á skrifstofu tónlistardeildar LHÍ og skal umsóknin staðfest með samþykki viðkomandi aðalkennara. Nemendur annarra íslenskra tónlistarskóla eru tilnefndir af viðkomandi skólastjórnendum skriflega, eða í tölvupósti. Nemendur er stunda nám erlendis mega sækja sjálfir um þátttöku og skulu samhliða umsókn senda staðfestingu á að þeir stundi nám í hljóðfæraleik eða söng á 1. háskólastigi (bakkalár). Með umsókn í keppnina samþykkir þátttakandi að hafa kynnt sér reglur hennar og að upplýsingar sem gefnar eru upp, séu réttar og í samræmi við reglur keppninnar. Umsóknareyðublað verður einnig niðurhalanlegt af heimasíðu LHÍ http://lhi.is.

4) Við skráningu í keppnina skal tilgreint hvaða verk viðkomandi mun flytja í keppninni. Skilyrði fyrir verkefnavali er að nemandi flytji sömu efnisskrá á tónleikunum og hann flytur í keppninni. Verkefnavalið miðast við hefðbundna hljómsveitarskipan og leikur meðleikari hljómsveitarpartinn í samkeppninni. Meðleikur er á ábyrgð og kostnað þátttakenda.

Lýsing á verkefnum:
a) Hljóðfæraleikarar: Einleiksverk með hljómsveit í fullri lengd.
b) Söngvarar: Einsöngsverk með hljómsveit að hámarki 25 mín.

5) Deildarforseti tónlistardeildar LHÍ skipar dómnefnd í samráði við framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar á sjálfkrafa rétt á setu í nefndinni eða varamaður í hans stað. Enginn dómnefndarmanna má hafa bein tengsl við þátttakendur í keppninni. Miðað er við að í dómnefnd sitji fimm aðilar, en þeim má fjölga til þess að sérþekking um einstaka hljóðfærahópa verði til staðar í nefndinni.

6) Mat dómnefndar skal byggt á einkunnagjöf. Fyrirkomulag hennar er kynnt fyrir dómnefnd með góðum fyrirvara fyrir keppnina. Falli stigin jafnt fer fram leynileg atkvæðagreiðsla í nefndinni. Atkvæði formanns ræður úrslitum falli stigin aftur jafnt. Úrskurður dómnefndar er endanlegur og óáfrýjanlegur. Dómnefnd getur valið allt að fjóra þátttakendur til að koma fram á tónleikunum. Framkvæmdaaðili keppninnar ákveður röð þátttakenda í samkeppninni.

7) Keppnin er lokuð áhorfendum. Kostnaður keppenda er ekki greiddur.

Reykjavík, ágúst 2018

Fríða Björk Ingvarsdóttir,
rektor Listaháskóla Íslands

Arna Kristín Einarsdóttir,
framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Tryggvi M. Baldvinsson,
forseti tónlistardeildar LHÍ