Að vera listamaður er fyrir mér að læðast og þykjast, gabba og blekkja (á góðlátlegan hátt). Að ganga samhliða en ekki inn í. Smá töfrar. Að klæða sig í kameljónshúð og falla inn í hvaða aðstæður sem er, vera hulduvera, svo nægur tími skapist til að skoða og vera.

Hvert einasta öratriði felur í sér risavaxið ferðalag. Vatnsdropi undir stækkunargleri í smásjá er eins og fjarlæg vatnspláneta skoðuð í gegnum sjónauka. Þegar horft er yfir norðurland úr flugvél tekur hornsófi með tungu ekki undir sig stórt landsvæði. Grænn, flaujelsklæddur hornsófinn með tungunni er heill heimur með skógivöxnum tindum og djúpum dölum fyrir rykmaurinn sem þar býr. Allt snýst þetta um samhengi og viðmið. Rykmaurinn lifir í stuttan tíma, miðað við líftíma mannfólksins, aðeins í þrjár til fjórar vikur. Á þeim tíma fjölgar rykmaurinn sér og getur getið af sér þrjátíu litla maura, sem mannfólki þykir fullmikið. Eitt gramm af ryki er dvalarstaður þúsunda rykmaura, sem þar búa í velsæld og njóta auðlindanna. Hornsófi með tungu getur hýst samfélag hundruð þúsunda rykmaura. Rykmaurar hafa hamskipti á vaxtarskeiði sínu, líkt og mannfólk. Rykmaurar og mannfólk lifa í stöðugu umbreytingarferli í hinu óendanlega millibilsástandi sem líftíminn er. Í rykgramminu má finna, auk rykmauranna sem þar búa, leifar af hamskiptum rykmaura og mannfólks, og leifar af rykmaurum sem hafa yfirgefið þessa veraldlegu tilvist (og margt margt fleira).

Í minni tilvist er allt sem er. Allt sem ég þekki og kann og veit og allt sem ég veit að ég þekki ekki, kann ekki og veit ekki og það sem ég veit ekki að ég þekki ekki, kann ekki og veit ekki. Tilviljun virðist ráða því að hverju ég kemst.

Síbreytileg kortlagning.

Óbrotin lína í sveigjanlegri teikningu. Stundum úrvinda og spennulaus en stundum útþanin og spennt. Alltaf áfram, kraftmikil og óstöðvandi. Ætíð áreynslulaus. Líkt og vindurinn tekur teikningin engar skarpar beygjur, heldur læðist fyrir horn og yfir þröskulda. Smá saman, án þess að nokkur tæki eftir því, er hvítt orðið svart.

Ég er í eilífri leit að hlutlausum stað; huglægri pásu þar sem hvers konar bragð er fjarlægt af tungunni í skamma stund, og færi gefst á að líta til fortíðar án viðvarandi eftirbragðs og að horfa til framtíðar frá tæru sjónarhorni.

Allt hefst með örfáum frjókornum sem dreifast og tengjast með vindinum, skapa eitthvað nýtt, ponsulítið og risastórt. Allt þetta skilur eftir sig spor í endaleysu sem líður áfram áreynslulaust.

Augnablikið er hverfandi. Leifarnar, það sem er liðið, eru geymdar, þær eru til. Ummerkin eru sönnun, það er sannleikur í sporum. Það sem er eftir er óþekkt og ófyrirsjáanlegt. Báðir hlutar eru til á einhverju stigi tilverunnar og skapa heildina. Án eins gæti hitt ekki verið til. 

Réttsælis og rangsælis, hvar endar eitt og hvar byrjar annað, hvað er inn og hvað er út? Ég skynja ekki beint öll stig tilverunnar. Sem dæmi skynja ég tónaskala upp að vissu marki, en á einhverjum tímapunkti hætti ég að heyra og finna hljóð, þó allt sé með hljóði. Ég er aðeins rykmaur með takmarkaða skynjun og skrítna lifnaðarhætti.

Nú þegar ég hef lokið við að útskýra fyrir þér, kæri lesandi, hvað það er fyrir mér að vera myndlistarmaður, rennur upp fyrir mér að það gæti verið eitthvað annað.

8._ragnhildur_weisshappel_ragnhildur.wgmail.com-4.jpg

mynd // owen fiene