Leiðangur

Í ferðalagi um óvissuslóðir fylgi ég innsæinu og treysti á það við næstu skref. Það ókunna  birtist í skynheimi tilveru minnar. Könnunarleiðangur um landslag og staði, þar sem opnað er fyrir andlega og líkamlega upplifun. Minnið hefur mismunandi birtingarmyndir. Þær vekja sterkar tilfinningar og spurningar um hvar mörkin liggja á milli ímyndunar hugans og þess sem hann varpar fram annars vegar og hins vegar þeirra upplifana sem líkaminn skynjar en ekki er hægt að henda reiður á. Fortíð og nútíð mætast í augnabliki þar sem tíminn verður afstæður. Líkaminn skynjar anda fortíðarinnar. Minni sem sest hafa að í landslagi, í húsarústum eða hlutum. Hefur andi þeirra sem þar hafa dvalið líkamnast í efni staðarins? Er nauðsynlegt að takast á við það sem við hræðumst—að fara á vit þess óþekkta til að komast í snertingu við fegurðina? Liggur ógn í hjarta fegurðarinnar—hinni eilífu umbreytingu náttúrunnar?
 
Innra ferðalag er mikilvægur þáttur í listsköpun minni, tilraun til að skilja samhengi hlutanna, samband líkama og náttúru, efnis og anda, fæðingar og dauða. Ég leitast einnig við að finna staði þar sem ég get dvalið um stund, þorp, jarðir eða hús, hlusta á innsæið og skynja orku þeirra sem þar voru. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvar eða hvernig skynjunin byrjar, hvort það er ímyndunaraflið sem er að verki eða það ósýnilega sem verður aðeins skynjað í gegnum líkamann? Kannski er þetta samofið. Ferðalagið getur verið spennandi þegar takinu er sleppt, þó það sé ekki nema eitt augnablik. Þessar upplifanir verða síðan að verkfæri til listsköpunar. 
 
Myndlist er ein leið til þess að varpa fram þessum óræða veruleika sem erfitt er að koma í orð og sanna í rökhyggjuheimi vísindanna. Allt virðist þetta þó tengjast órofa böndum eins og þráður sem tengir veröldina og vefur allt saman, styrkir tengsl og skýlir okkur í formi klæða frá fæðingu til dauða. Það er einhver mystískur þráður á milli allra hluta, sýnilegur eða ósýnilegur, sem mun aldrei slitna og ég tel mikilvægt að halda áfram að vera opin fyrir nýjum og óvæntum fyrirbærum í hvaða formi sem er til að reyna að skilja hver við erum og hvaðan við komum. 
 
Heimar anda, náttúru, mystíkur, undirvitundar og skynjunar eru ekki nýir af nálinni en listamenn í gegnum tíðina hafa margir hverjir notað þessar tengingar sem verkfæri til listsköpunar. Í gegnum listina gefst frelsi til þess að varpa fram og efla tengslin við þessa heima, sem er gríðarlega mikilvægt í samtíma okkar þar sem ríkir mikið áreiti og ringulreið og skortur er á tengingu við skynjun, anda og náttúru. 
 
Í ferli listsköpunar er hvert listaverk saumspor í stærra sköpunarverki, þar sem þráðurinn togar endalaust áfram í næstu spor fyrir ný verk. Heildarverkið verður aldrei fullklárað en hægt er að rýna í sporin og skoða samhengið þeirra á milli.