Fornafn: 
Steinunn Hildigunnur Knúts Önnudóttir

 

Steinunn Hildigunnur Knúts Önnudóttir lauk BA gráðu í Guðfræði frá HÍ 1991. Hún stundaði leiklistarnám í Árósum í Danmörkum og lauk síðar meistaranámi í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester, Englandi og diplómanámi í leikstjórn undir Jurij Alschits hjá SCUT. Steinunn hefur unnið með ýmsum leikhópum og sviðslistahópum í Danmörku og Englandi bæði sem leikari og leikstjóri. Steinunn hefur aðallega numið land í framsæknum leikhúsum oft nátengt dansi. Hún var listrænn ráðgjafi Borgarleikhússins um þriggja ára skeið og hefur verið stundakennari við leiklistar og dansdeild LHÍ frá 2001.

 

Steinunn er listrænn stjórnandi Áhugaleikhúss atvinnumanna og Netleikhússins Herbergi 408.

Listamaður

Sem sviðslistakona hef ég frá upphafi unnið við jaðarlist. Ég hef mikinn áhuga á rannsóknum tengdum þjálfunaraðferðum leikarans og möguleikum hans til þess að leika á alla strengi hljóðfæris síns en um leið hvernig má setja leikarann í ný samhengi og ljá honum ný verkfæri, nýjar áskoranir með hjálp tækni og nýmiðla. Í gengum þessar fagtilraunir verður til nýtt sviðstungumál, nýr vettvangur, nýir áhorfendur. Nýir miðlar og miðlunarleiðir leikarans eru mér mikið áhugaefni og þá um leið ný tegund af stefnumóti við áhorfendur. Ég hef áhuga á sviðslist sem sjálfstæðum miðli sem ekki lítur lögmálum neins annars listforms þar sem rými, tími, mynd og hljóð eru jafnrétthá.

Rannsóknir

Vettvangur rannsókna minna síðastliðinna ára hefur verið annarsvegar Áhugaleikhús atvinnumanna sem stofnað var 2005 og hins vegar Netleikhús Herbergi 408.

Áhugaleikhús atvinnumanna er vettvangur til að skapa framsækin og áleitin sviðslistaverk sem í eðli sínu eru samtal við áhorfendur og eru óháð markaðsöflum. Starf Áhugaleikhúss atvinnumanna hverfist um hreyfiafl listarinnar og hefur að markmiði sínu að nota sviðslistina í rannsókn á mannlegu eðli. Leikhúsið býður áhorfendum til samtals um stef í mannlegri náttúru og lítur ekki á sýningar sínar sem afþreyingu. Öll umgjörð sýninganna er einföld enda er meginhugmynd leikhússins að sniðganga vald peningana í framkvæmd samtalsins við áhorfendur. Listamenn leikhússins hafa þegið listamannalaun vegna vinnu sinnar en leikhúsið er hvorki atvinnurekandi né stofnun og höndlar því ekki með peninga. Leikhúsið hefur unnið lóðrétta rannsókn á mannlegu eðli í gegnum kvintólógíu ódauðlegra verka (þar af fjögur sýnd) og lárétta rannsókn; örverkaröðina, Örverk um áráttur, kenndir og kenjar 2010. Ókeypis er á allar sýningar leikhússins og áhorfendum er boðið að staldra við eftir sýningar til þess að ræða við aðstandendur leikhússins eftir sýningar um efni, efnistök, aðferðir og form.

www.ahugaleikhus-atvinnumanna.com

Netleikhúsið Herbergi 408 er leikhús á veraldarvefnum þar sem form og  innihald lýtur lögmálum nýrrar víddar veraldarvefsins. Frá stofnun 2008 hefur leikhúsið staðið fyrir tilraunum með veraldarvefinn sem miðil, rými og heim þar sem sögur verða til, sögur eru sagðar og gáttir myndast á milli staða. Leikhúsið vinnur með beinar vefútsendingar, gagnvirkni og nýjan frásagnarmáta þar sem nálgast má verkin á margvíslegan hátt.

Leikhúsið hefur verið tilnefnt í tvígang til Prix Europa, verðlauna evrópskra ljósvakamiðla í flokknum rísandi miðlar.

www.herbergi408.is

Deild á starfsmannasíðu: