Fornafn: 
Una
Eftirnafn: 
Þorleifsdóttir
Sem listamaður hef ég alltaf haft mestan áhuga á að rannsaka tilveru og tilvist mannsins í samfélagslegu, menningarlegu og persónulegu samhengi. Spurningar um hver við erum, hvernig við erum og hvernig samfélag við höfum skapað okkur eru þær sem helst leita á mig. Að sama skapi hafa hugmyndir um líkamann, sjálfið og sjáflsmyndir, verið mér mjög hugleiknar bæði sem listamaður/fræðimaður og manneskja. En það er í sjálfu sér miðillinn sem heillar mest, augnablikið sem áhorfendur og flytjendur deila saman; þar sem allt getur gerst. Þennan miðil vil ég halda áfram að rannsaka, greina og þenja.
 
Sem leikstjóri hef ég aðallega unnið með ný leikverk og samsköpun (devised), en einnig með gjörningalistir, myndbandsverk og einstaka sinnum sem flytjandi.
 
Í allri minni kennslu legg ég mesta áherslu á að samtvinna fræði og framkvæmd þannig að við gerð sviðsetninga og vinnu við verk sé listamaðurinn meðvitaður um samfélag sitt og þau fræði, heimspeki og menningu sem hafa áhrif á sköpunina. Að nemandinn sé meðvitaður um söguna og stöðu sína innan hennar. Einnig tel ég mikilvægt að auðga sköpunarkraft nemenda og leiðbeina þeim á þann veg að þeir finni sína eigin listrænu sýn, geti vaxið með henni og ýtt henni í framkvæmd. Að auki tel ég það mikilvægt að þjálfa nemendur í gagnrýnum umræðum um eigin verk og annarra á faglegum forsendum, sem og í að spyrja spurninga um listina, samfélagið og sjálfan sig.

 

Staða: 
Deild á starfsmannasíðu: