Fornafn: 
Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson

 

Listsköpun:

 

Tónsmíðar hafa verið mitt aðalstarf - auk kennslunnar- frá því að ég lauk námi 1988.

Fyrstu árin einbeitti ég mér að verkum fyrir einleikshljóðfæri í þeim anda sem ég hafði byggt á í námi mínu í Hollandi og sum þessara verka voru reyndar unnin þar. Þetta eru verk þar sem unnið er með hina ýmsu þætti tónsmíða s.s. endalausar tilraunir með tónefni, ýmiskonar látbragð tónhugmynda, ritma, áferð, þykkni, tíma og form.

Undir lok náms míns í Hollandi hjá mínum ágæta kennara Joep Straesser (1934-2008) sneri ég mér að því að vinna með texta og samdi Ljóðasinfóníu sem byggði á Ljóðaljóðum Sólomons úr Gamla testamentinu. Þetta vatt uppá sig og í hönd fór tími þar sem ég samdi nánast eingöngu söngtónlist sem náði ákveðnu hámarki að mínu viti með Skálholtsmessu frá árinu 2000.

Á seinni hluta tíunda áratugarins gekk ég í gegnum ákveðnar breytingar í stíl - eftir á að hyggja má kannski rekja þær til þessarar áherslu á söngtónlist - tónlistin verður ómblíðari, tónal sem atónal, gegnsærri og meiri áhersla á einfaldleikann. Kennslan hafði hér augljóslega áhrif, ég sökkti mér í tónlistarhefðina allt frá söngpólýfóníu endurreisnar til suðupotts aldamótanna 1900 en 20. öldin sem hafði verið brunnur og kveikja minna tónsmíðalegu hugmynda varð aðeins útundan.

Þetta tímabil er í mínum huga einskonar afturhvarf til tónlistarlegs upphafs og ég gat tekið til við að þróa tónsmíðar mínar á nýjan hátt og marka mér annan farveg en áður. Á síðustu árum hafa mín stærstu verk orðið til s.s. óperan Söngvar haustsins og ýmis hljómsveitarverk í nokkuð rökréttu framhaldi af mínum fyrri verkum, ég lít svo á að þegar við semjum tónlist eða búum til list dagsins í dag sé öll (tón)listasagan undir og landamæri listgreina, stíls og hugmynda séu til þess að brúa.

Fræðimaður:

Að baki kennslu fræðigreina í tónlistardeild liggja töluverðar rannsóknir. Ég einbeiti mér að tæknilegri greiningu tónverka frá öllum tímum, það sem hefur heillað mig mest er síðrómantíska tímabilið og upphaf 20. aldarinnar með öllum þeim sviptingum sem þá áttu sér stað. Á síðustu árum hafa rannsóknir á íslenskri tónlist frá seinni hluta 20. aldarinnar verið mér hugleiknar og hafa undanfarin tvö ár verið tileinkuð rannsókn á tónlist og arfleifð Þorkels Sigurbjörnssonar sem hefur birst með ýmsu móti innan skólans.

Kennari:

Ég hef kennt frá haustinu 1988 flestar þær námsgreinar sem til eru í tónlistarskólum en nú kenni ég fjögur mismunandi tónfræðinámskeið þar sem farið er í einkenni helstu tímabila tónlistarsögunnar ásamt hljóðfærafræði, kontrapunkti og tónsmíðum.

Tónsmíðakennslan er þungamiðjan í starfi mínu. Hér er mikil ásókn í tónsmíðanám og tel ég eina af ástæðum þess að borin er virðing fyrir þeirri tónlist sem nemendum liggur á hjarta. Ekki eru gerðar kröfur um hvernig tónlist nemendur skuli semja. Við fáum því nemendur sem spanna allan skala tónsköpunar á Íslandi allt frá smíðum einfaldra popplaga til framúrstefnulegrar nútímatónlistar.

Hugmyndafræði mín í tónsmíðakennslunni er, auk þess að kynna nemendum hinar tæknilegu hliðar tónsmíða, fyrst og fremst að leiðbeina og aðstoða þá við að uppgötva eigin stíl.  Ég legg áherslu á að draga fram sérkenni og sérstöðu hvers nemanda og reyna þannig að skapa sjálfstæðan og heildsteyptan einstakling sem getur tekist á við áskoranir framtíðarinnar.

Deild á starfsmannasíðu: