Fornafn: 
Ríkharður H
Eftirnafn: 
Friðriksson

Fræðimaður - rannsóknarsvið og verkefni og gildi sem lýsa þeim 

Ég er menntaður bæði sem tónlistarmaður og sagnfræðingur. Mín helstu sérsvið eru raftónlist og tónlistarsaga. Að sjálfsögðu fer talsvert púður í svæðið þar sem þetta tvennt kemur saman, þ.e. raftónlistarsögu. Hvað raftónlistina varðar hef ég mestan áhuga á hvers kyns tækni til að umbreyta náttúruhljóðum á sem fjölbreyttastan hátt og tækni til að varpa hljóði um rými gegnum marga hátalara.

Þá er ég einnig mikill áhugamaður um „algóritmískar” tónsmíðar, það er að forrita tölvu til að semja tónlist.

Að lokum má taka fram að ég er svo mikill dellukarl varðandi gamlar bíómyndir að óhætt er að telja það upp sem eitt rannsóknasviðið í viðbót.

Listamaður - hugmyndaheimur/gildi 

Tónlist mín fer í grundvallaratriðum í tvær áttir. Annars vegar sem ég raftónlist byggða á náttúruhljóðum og hreyfingu þeirra í rými. Mér finnst náttúruleg hljóð hafa meiri dýpt og fjölbreytileika en nokkuð sem vél getur framleitt. Ég hlusta því meðvitaður á umhverfi mitt og fæ þaðan efni í verk mín. Þetta efni er síðan stökkpallur fyrir hvers kyns umbreytingar í tölvu þar sem ímyndunaraflinu er gefinn laus taumurinn, en fjölbreytileiki upprunans skilar sér alltaf á einhvern hátt í gegnum allt ferlið.

Í raunheiminum kemur hljóðið ekki til okkar í gegnum einn eða tvo hátalara. Það kemur úr öllum áttum. Í samræmi við það er tónlist mín næstum alltaf send í gegnum marga hátalara sem reyna að endurskapa hina margvíðu hljóðupplifun raunveruleikans.

Hins vegar er ég og verð gítarleikari. Það er uppruni sem ég á aldrei eftir að losna við. Á því sviði geri ég spunatónlist þar sem ég sendi hljóð rafgítars í gegnum tölvuúrvinnslu, annað hvort einn eða með sveitinni Icelandic Sound Company. Þannig sameina ég upprunann og seinni áhugamál í einum pakka og fæ um leið tilbreytingu frá stúdíóvinnu þar sem ég nostra við smáatriði, með því að standa á sviði og láta allt flakka umhugsunarlaust. Þannig fæ ég útrás fyrir hina hliðina á mér.

Ég hóf tónlistarferilinn fyrir löngu síðan sem gítarleikari í pönkhljómsveitum. Eftir langt tímabil afneitunar datt ég aftur í upprunann og undanfarin ár er ég farinn að pönka aftur. Hægt er að sjá mig spila nokkrum sinnum á ári í miklum ham hinum og þessum tónleikastöðum bæjarins.

Kennari  - áherslur í kennslu/gildi 

Ég hef kennt í mörgum tónlistarskólum, fyrst gítarleik og síðan flestar fræðigreinar. Með tímanum runnu kennslugreinarnar í farveg tónlistarsögu og raftónlistar - og tónsmíða fyrir verðandi raftónskáld (og líka bara „venjuleg” tónskáld).

Mitt markmið í kennslunni er að skapa góða listamenn. Góður listamaður þarf náttúrulega að hafa marga kosti en fyrir mig sem kennara er mikilvægast að þróa þrjá þeirra. Í fyrsta lagi góðan og sterkan tæknilegan grunn í sínu fagi, síðan yfirgripsmikla þekkingu á hvað er búið að gera nú þegar og að lokum meðvitund um að hann þurfi að finna sína eigin leið að sínu eigin markmiði. Góði tæknilegi grunnurinn og þekkingin á sögunni eiga að gera menn frjálsa til að fara þangað sem menn vilja.

Síðan verð ég mjög ánægður ef eplið fellur langt frá eikinni.

Deild á starfsmannasíðu: