Sláðu inn leitarorð
Main profile
Primary tabs
„Ég fór í framhaldsnám til Vínarborgar með það í huga að læra gott handverk, því traust handverkskunnátta er að mínu mati undirstaða góðrar listsköpunar. Kennsla hefur alla tíð verið mér hugleikin og hefur tekið megnið af mínum tíma í gegnum tíðina, tíma sem mér finnst ég hafa varið vel.”
Tryggvi M. Baldvinsson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jónasi Ingimundarsyni í píanóleik og við tónfræðadeild sama skóla þar sem tónsmíðakennarar hans voru þeir Atli Heimir Sveinsson og Þorsteinn Hauksson. Að því námi loknu (1987) hélt hann til Vínarborgar þar sem hann nam tónsmíðar og tónfræði með sérstakri áherslu á endurreisnarkontrapunkt hjá Reinhold Portisch við Konservatoríum Vínarborgar og lauk þaðan prófi árið 1992. Tryggvi hefur að námi loknu starfað við hina ýmsu tónlistarskóla. Nú síðast sem deildarstjóri tónfræðagreina við Tónlistarskólann í Reykjavík og aðjúnkt við tónlistardeild LHÍ. Hann stjórnaði einnig Lúðrasveit verkalýðsins á árunum 1996 – 2005. Tryggvi hefur einnig sinnt ýmsum félagsmálum í þágu tónskálda; var m.a. formaður Ung Nordisk Musik á Íslandi, sat í stjórn Tónskáldafélags Íslands og Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar.
Verk Tryggva hafa verið flutt víða um heim og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín. Árið 2004 hlaut verk hans, Konsert fyrir klarinettu og blásarasveit, Íslensku Tónlistarverðlaunin sem sígilt tónverk ársins 2003. Árið 2008 var Tryggvi heiðurslistamaður Álftaness.