Fornafn: 
Richard Simm

Richard Simm fæddist í Newcastle á Englandi og vakti athygli sextán ára gamall þar með leik sínum á píanókonsert nr.1 eftir Liszt. Hann nam við Royal College of Music í London hjá Bernard Roberts og við Staatliche Hochschule für Musik í München hjá Erik Then-Bergh. Hann vann til margra verðlauna á námsárum sínum, fékk þ.á.m. tvenn verðlaun fyrir túlkun sína á verkum Chopin. Hann tók þátt í þekktri alþjóðlegri píanókeppni í Leeds er hún var haldin í 3ja sinn, og var eini breski keppandinn er vann til verðlauna. Richard hefur haldið tónleika í Wigmore Hall og Purcell Room í London, auk þess að hafa komið fram á fjölda tónleika í Þýzkalandi, í Bandaríkjunum og á Íslandi, þar sem einleik hans hefur verið lýst sem einu af þeim best geymdu leyndarmálum landsins.

Hann var fastráðinn í níu ár sem píanóleikari og kennari við Háskólann í Wales og gestaprófessor við Illinois Háskólann í þrjú ár. Hann hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir glæsilegar útsetningar sínar á verkum fyrir tvö píanó, þ.á.m. átta sinnum verðlaun American Society of Composers Authors and Publishers. Þessi verk voru gefin út af Warner Bros.

Frá því að hann settist að á Íslandi árið 1989 hefur Richard komið fram með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins, einnig sem einleikari í Rachmaninoff píanókonsert nr. 2 með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur tekið þátt í Listahátíð Reykjavíkur, og hefur unnið með Rut Ingólfsdóttur fiðluleikara síðan 2001, og hafa þau gefið út tvo diska, einnig kynnt íslensk verk fyrir fiðlu og píanó í Tokyo, Paris, Brussel, Beijing, Lanzhou og Róm.

Richard Simm starfar nú við Listaháskóla Íslands, en kemur fram sem einleikari eins oft og hægt er - t.d. lék hann Grieg píanókonsertinn með Philomusica of Aberystwyth hljómsveitinni í Wales í mars á síðustu ári. Hann er einnig píanóleikari í Tríó Reykjavíkur, þar sem hann vinnur með Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara.

Sérsvið: 
Deild á starfsmannasíðu: