PRIMAVERA 
Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir

Flórens, Ítalía 2008. Stend fyrir framan Primavera eftir Botticelli. Horfi agndofa á blómin sem þekja skógarbotninn. Hef enga hugmynd um það þá hvað þetta augnablik er þýðingarmikið. Þetta er eitt af þessum augnablikum sem átti að gerast. Forshadowing. Alheimurinn tekur screenshot af augnablikinu og brennir það inn í vitund mína. Setur það á home screenið.
Grímsnes, Ísland, 2010. Sumarbústaðarferð með fjölskyldunni. Við erum á háa loftinu að púsla. Primavera eftir Botticelli. 6000 púsl. Myndin er svo stór að ekkert smáatriði fer framhjá mér. Tásan á Chloris eru 2 púsl.
Akureyri, Ísland, 2017. Ég er að flytja að heiman. Fer að róta í geymslunni hjá mömmu og pabba fyrir eldhúsáhöldum sem þau nota ekki. Finn ekkert nema dagbók sem mamma hélt fyrir 9 árum. Kjölurinn er gulur og spjöldin eru Primavera eftir Botticelli. Flóra er framaná, Chloris og Sephyr aftaná. Hugleiðingar mömmu þar á milli. Ég sting henni aftur í hilluna.
Norðurmýri, Ísland, 2019. Ligg sveitt í sæluvímu eins og krossfiskur í rúminu mínu. Primavera eftir Botticelli á veggnum fyrir ofan rúmið. Líkaminn minn svífur yfir sænginni og hver einasta taug suðar eins og randafluga. Horfi agndofa á þokkadísirnar hringsnúast í dansinum og koma nær og nær. Ég loka augunum og dansa með.
Flórens, Ítalía, 2022. Stend fyrir framan Primavera eftir Botticelli. Læt augun renna yfir myndbygginguna. Fullkominn endurreisnar þríhyrningur. Amerískur túristi stendur við fæturna á Merkúr og pósar fyrir mynd. Double thumbs up. Ég stari hugfangin í augun á Venusi. Hún starir til baka.

Smelltu hér til þess að sjá viðburðinn á facebook.

primatext_herdis_hlif_thorvalds.jpeg
 

Herdís Hlíf Þorvaldsdóttir

Herdill stundar nám á lokaári í myndlist í Listaháskóla Íslands og kemur til með að útskrifast vorið 2023. Vorinu 2022 eyddi hún í skiptinámi við Accademia di belle arti di Brera í Mílanó í klassískri málun. Einnig stundaði hún nám við fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri veturinn 2016-2017.
Herdill er fyrst og fremst málari en vinnur einnig í skúlptúr og innsetningum. Rauðir þræðir í verkum hennar eru meðal annars nánd, kynlíf, dauðinn, sjálfsmyndin, draumar, flóknar tilfinningar, hið hápersónulega og reynsluheimur kvenna. Hún leikur sér einnig oft að því að vitna í lista- og mannkynssöguna fléttað við nútímann og eigin upplifanir.