Tár, sviti, rigning og skólp. Vatn flæðir inn og út um líkama okkar. Þetta flæði er eilíft og lifir lengur en nokkur líkami sem það fer í gegnum. Vatn umlykur okkur; það er í sundlaugunum okkar og gosbrunnum; það er inni í veggjunum í húsum okkar og það er í blóðinu í líkama okkar. Vatnsflæði finnst mér heillandi, þessi umskipti og þetta sjálfræði. Þar sem ég kem frá mjög fjölmennum stað hef ég séð hvernig aðgengi að hreinu vatni hefur áhrif, ekki bara á munað, heldur líka á grunnþarfir og samskipti samfélagsins. Verkin mín leggja áherslu á mótsagnir vatnsins: það er bæði hversdagslegt fyrirbæri og nauðsynlegur hluti af okkar dagsdaglega lífi, á sama tíma og það getur skolað burt öllum merkjum okkar tilveru. Vatn gefur form, myndar form, og tekur það í burtu. 
 
Hið ljóðræna og fyndni eru líka öflug tól í minni vinnu. Ég laðast að hreyfi- og tíma-tengdu efni sem breytist og þróast. Sem listamaður nota ég heimilislega hluti til að tala um vinnu, handverk og þýðingu. Ég nota raka í stað tilfinninga til að tala um eignarhald, tilvist, og fólksflutning. Ég lét hvítan stuttermabol gráta, sjálfstætt og stöðugt, og á Kjarvalsstöðum leik ég mér að hugmyndinni að uppgefnum sófa sem er að blotna, eins og hann sé að svitna endalaust eftir langa vakt. Frá einu sjónarhorni gæti sófinn verið líking við verkamann að hvílast, en áherslan mín er á hlutnum. Innbyggð virkni sófans býður upp á hvíldarstað en þessi virkni er eyðilögð af vatninu og að sófinn sé blautur. Vatnið breytir ástandi sófans. Á vissan hátt gerir vatnið sófann óvirkan.