Úrið sem hefur hjálpað mér að skynja tímann hefur verið stopp í langan tíma. Ég hef vanið mig á að líta frekar á aðra hluti til þess að vita hvað klukkan er. Úr er sjaldan einungis notað á praktískan hátt líkt og hver annar fatnaður, heldur ber það með sér fagurfræðilegt gildi. Svo má segja að bilað úr er rétt tvisvar á sólarhring, en þá þarf maður að hafa rétt úr til að bera það saman við. Mitt úr er þó rétt fyrir mér eins og það er, þrátt fyrir að það gangi ekki—það lítur vel út og þessvegna geng ég með það. Á leið minni til úrsmiðsins lenti ég í því að flækja föt mín í umgjörð reiðhjólsins og fann ég hvernig tíminn stoppaði þegar það varð ómögulegt fyrir mig að láta laga úrið. Ljósið teygðist með þyngdinni og veraldlegir hlutir mínir afmynduðust. Ég held að mér hafi tekist að komast af vettvangi en í öðru formi en ég var, ég finn mig ekki í sjálfum mér eins og áður. Reiðhjólið stöðvaði tímann og liggja mistökin í dekkjunum, þau soguðu skyrtu mína í sig eins og svarthol sem sýgur í sig dvergstjörnur alheimsins. Þegar ég hugsa tilbaka þá mun ég klæðast styttri buxum þegar ég stekk á reiðhjólið, það hlýtur að vera lausn framtíðarinnar.